10.03.1982
Neðri deild: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2966 í B-deild Alþingistíðinda. (2532)

233. mál, söluskattur

Flm. (Hannes Baldvinsson):

Herra forseti. Efni þessa frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 425, þarfnast ekki mjög langra útskýringa umfram það sem fram kemur í grg. með frv., enda hefur málum, sem hníga í sömu átt og þetta frv., áður verið hreyft hér á hv. Alþingi, fyrst árið 1978, en þá gafst mér tækifæri til að vekja máls og vekja athygli á því misrétti sem með þessu frv. er gerð tilraun til að leiðrétta, og nokkru síðar flutti hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson frv. sem hneig að efni til mjög í sömu átt. Á þessum tíma fengu þessi mál því miður ekki framgang hér í þinginu. Ýmsu var við borið, sem ég hirði ekki um að rekja hér. En nú er þetta mál flutt í nokkuð nýju formi sem ég hygg að ætti að geta leitt til þess, að hv. þm. sameinist um að veita málinu brautargengi.

Það fer ekki milli mála, að síhækkandi söluskattsprósenta hefur valdið vaxandi vandamálum í ákveðnum snjóþungum byggðarlögum hér og þar á landinu í sambandi við vélavinnu sem þar fer fram við að ryðja snjó af götum. Upphaflega, þegar söluskattur var hér fyrst á lagður og þetta ákvæði kom til framkvæmda, olli það ekki þungum áhyggjum sveitarstjórnarmanna. En eftir því sem söluskattur hefur farið hækkandi hefur þetta orðið sívaxandi þáttur í fjárhagsafkomu þessara snjóþungu byggðarlaga og nú er svo komið að sveitarstjórnarmenn úti á landsbyggðinni velta fyrir sér daglega hvort þeir eigi heldur að haga framkvæmdum á þann hátt í sambandi við snjómokstur að ganga í vaxandi mæli á framkvæmdafé yfirstandandi árs eða draga úr þeirri þjónustu sem sívaxandi kröfur eru settar fram um, sem sagt snjómokstri sem hefur í för með sér að vegir í þéttbýli séu færir mestan hluta vetrarins.

Þegar söluskattsprósentan var orðin svo há að mönnum fór að óa við þeirri skattlagningu sem þarna fer fram af hálfu ríkisins var leitað til þeirra sem ákvarða skattskylduna, þ.e. skattstjóra í viðkomandi umdæmum, um að fá leiðréttingu á því misræmi sem þarna var berlega á ferðinni. Skattstjórar, studdir af ríkisskattstjóra, töldu sig ekki hafa heimild til þess samkv. lögum að fella niður söluskatt af þessari vélavinnu, sama hvort vinnuvélar voru í eigu sveitarfélaganna eða í eigu verktaka sem önnuðust verkið á vegum sveitarfélaganna. Mér hefur skilist að aðilar í fjmrn. hafi lagst gegn því, að söluskattur af þessari vélavinnu væri felldur niður, af ótta við að þar kynni af að hljótast nokkur misnotkun. Hér er hins vegar lagt til að farin verði ný leið, en um .leið opnaður möguleiki til að leiðrétta þetta. Það er sem sagt lagt til að haldið verði áfram að innheimta söluskatt af þessari vélavinnu, en að ráðh. verði heimilað að endurgreiða sveitarfélögum sinn hluta af söluskattinum í samræmi við þau plögg sem sveitarfélögin leggja fram varðandi útlagðan kostnað. Með þessu móti ætti að fullu að vera tryggt svo sem hægt er, að þessi heimild verði ekki misnotuð og að menn gangi á lagið um að óska eftir endurgreiðslu á söluskatti vegna annarrar vélavinnu sem hefur ekki farið fram vegna snjómoksturs. Ég hef hins vegar bent á að á því er ekki mikil hætta í a.m.k. snjóþyngstu byggðarlögunum, því að þar fer yfirleitt ekki fram nein önnur vélavinna á vetrum en sú sem falin er í snjómokstri og sú vinna fer oft og tíðum fram svo til daglega, þó að þessar staðreyndir kunni kannske að koma ykkur hv. þm., sem hér sitjið í snjóleysinu sunnanlands, nokkuð spánskt fyrir sjónir.

Ég þykist fullviss um að í upphafi hafi ekki verið meiningin að mismuna landsmönnum í sambandi við söluskattsálögur eftir búsetu. En eins og þetta ákvæði laganna hefur verið framkvæmt hefur orðið verulega mikið misræmi í sambandi við þá skattskyldu og mismunandi af hve miklum þunga þessi söluskattur hefur bitnað á íbúum landsins. Skattur, sem hefur í för með sér slíki misræmi, á ekki rétt á sér. Við gerum kröfu til að þetta misræmi verði leiðrétt í formi þess, að ráðh. verði heimilað að endurgreiða söluskatt af þessari sjálfsögðu þjónustu.

Ég leyfi mér að láta í ljós ósk um það hér að lokum, að mál þetta fái greiða afgreiðslu í meðförum þingsins. Ég vil að lokum leyfa mér að óska eftir því, að málinu

verði að lokinni þeirri umr., sem hér fer fram, vísað til fjh.- og viðskn.