02.11.1981
Efri deild: 8. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

7. mál, útvarpslög

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. flm. vonaðist til að menn tækju þessu frv. vel. Ég vil strax segja það, að ég hef enga tilhneigingu til að taka þessu frv. fjandsamlega. En ég sé ástæðu til að fara þegar í stað nokkrum orðum um það.

Fyrst er það formsástæða. Ég vek athygli á því, að í útvarpslögum eru ekki nein ákvæði um lengd dagskrár og hafa aldrei verið. Ég tel hæpið að binda slíkt í löggjöf. Ef menn vilja að Alþingi tjái sig um þetta efni finnst mér að betur færi á því að það væri í þáltill., en við létum lögin óhreyfð. En þetta er formsatriði og má kannske segja að það sé algjört aukaatriði. Aðalatriðið er hvað þetta frv. fer efnislega fram á, og það er að lengja dagskrá sjónvarpsins — nánar tiltekið að sjónvarpað verði á fimmtudögum jafnt sem öðrum dögum og að sjónvarpað verði í júlí eins og öðrum mánuðum ársins.

Hv. flm. rakti nokkuð hverjar ástæður hefðu verið fyrir því fyrirkomulagi sem verið hefur. Mér þykir ástæða til að víkja sérstaklega að því. Það vill svo til að ég var í stjórnskipaðri nefnd sem vann að undirbúningi að stofnun sjónvarpsins og þetta atriði var að sjálfsögðu mjög til umræðu í þeirri nefnd, hvort bregða ætti á það ráð sem gert var, að sjónvarpa ekki alla mánuði ársins og ekki alla daga vikunnar. Ég kannast ekki við að það hafi verið ákvarðandi ástæða fyrir því sem gert var, eins og hv. flm. virðist leggja áherslu á og tekur fyrst fram, að í upphafi sjónvarps hafi þeir verið býsna margir, sem horfðu á alla dagskrána alla daga sem sent var út, og menn hafi óttast að stofnun sjónvarpsins mundi hafa lamandi áhrif á félagsstarfsemi og fundahöld. Ég held að þetta hafi ekki verið ákvarðandi í þessu efni. Annað mál er það, að þegar búið var að ákveða þessa skipan var gjarnan bent á það, að þetta kæmi sér ekki illa vegna félagsstarfsemi í landinu. Það var frekar að minnst væri á það sem afsökun fyrir því sem var verið að gera.

Ég minnist ekki heldur þess, sem er hin ástæðan sem hv. flm. talaði um, að nauðsynlegt hafi verið að takmarka útsendingar sjónvarps á þann veg sem gert var vegna þess að ekki hafi verið nægir tæknimenn, eins og hann orðaði það, til þess að sinna eftirliti og viðhaldi á tækjum. Hér var í upphafi og áður en þessi starfsemi hófst hjá okkur ekki nema mjög takmarkaður hópur tæknimanna. Eitt af því sem þurfti að gera — og ráðstafanir voru gerðar til — var að þjálfa menn í þessum málum. Það var hægt að þjálfa nógu marga menn til þess að hægt væri að útvarpa sjö daga vikunnar eins og sex, en það var ekki gert. Það kom sér vel, vegna þess að búið var að koma þessari skipan á, að hafa ekki sjónvarp hvern dag vikunnar. Þá var hægt að nota þá daga til viðhalds og eftirlits með tækjum. En þetta var ekki frumástæðan. Hver var hún? Mér finnst að það þurfi að koma hér miklu greinilegar fram en verið hefur.

Höfuðástæðan var sú, að það þótti nauðsynlegt að stilla rekstrarkostnaði í hóf. Það var höfuðástæðan. Nauðsynlegt þótti að gera það. Og það var gert með því að takmarka starfslið sjónvarpsins svo sem raun bar vitni um. Það var gert mögulegt með því að sjónvarpa ekki á fimmtudögum og ekki í júlímánuði. Þetta þykir mér rétt að komi hér fram, að það var þá — og er það ekki einnig nú? — töluvert atriði hverjir fjárhagsmöguleikar væru.

Ég get verið sammála hv. flm. um ýmislegt sem hann sagði um þýðingu þess að sjónvarpa alla daga og alla mánuði ársins. Þó eru tvær hliðar á því máli. Það eru ekki allir sem una þessu illa, og stundum hefur heyrst að sumir erlendis öfundi okkur af þeirri sérstöðu sem við höfum. Það kom líka fram hjá hv. flm. að sumir hefðu ekkert á móti því að hafa ekki sjónvarp í júlímánuði. En það er rétt sem hv. flm. sagði, að Ríkisútvarpið hefur vissum skyldum að gegna við fólkið í landinu og þá ekki síst það fólk sem er sjúkt, aldrað, öryrkjar o. s. frv. En það vill svo til að Ríkisútvarpið gæti gert það með öðrum hætti. Það var ætlunin í upphafi — en ég hygg að það hafi í framkvæmd fljótlega runnið út í sandinn — að gera dagskrá hljóðvarpsins betri og fyllri á þeim dögum og í þeim mánuðum sem ekki var sjónvarpað. Að því gæti orðið nokkur bót.

Ég sagði áðan að höfuðatriðið í þessu máli væri fjárhagur Ríkisútvarpsins. Það vill nú svo til að hann er með lakasta móti um þessar mundir. Það hefur hv. flm. ekki síst bent á og verið með tillögur í þá átt að bæta þar úr og það hef ég tekið mjög undir. spurningin er nú hvort það, sem helst þarf að leggja áherslu á að gera til hagsbóta fyrir Ríkisútvarpið, sé ekki einmitt á þessu sviði.

Ef á að gera það sem lagt er til í þessu frv., þá væri e. t. v. ekki úr vegi að reyna að gera sér grein fyrir hvað það mundi kosta. Hv. flm. kom ekkert inn á þá hlið. Lenging útsendingar sjónvarps er býsna flókið mál og í rauninni erfitt að tilgreina nákvæmlega kostnað við slíka breytingu. Það mundi þurfa að breyta verulega vaktakerfi og líklega þyrfti að fjölga starfsfólki í ýmsum deildum.

Ég hef í höndunum upplýsingar frá fjármáladeild Ríkisútvarpsins sem ég fékk í hendur nú í dag, varðandi þetta efni. Þar segir að útreikningar, sem lagðir hafi verið fyrir útvarpsráð í febr. s. l., séu lagðir til grundvallar áætlun um kostnað við útsendingu sjónvarpsefnis í júlímánuði annars vegar og hins vegar ef útsending yrði tekin upp á fimmtudögum. Í þessari áætlun er gerður fyrirvari vegna óvissra þátta, en miðað við verðlag í upphafi þessa árs eru niðurstöður þessarar áætlunar þær, að kostnaður við útsendingu sjónvarps í júlímánuði sé 1 millj. 626 þús. kr. og kostnaður við útsendingu á fimmtudögum 3 millj. 235 þús. kr. Þetta er, miðað við verðlag í upphafi árs, tæpar 5 millj. eða tæpur hálfur milljarður gamalla króna.

Mér þykir rétt að benda á þetta. Þetta kallar okkur til umhugsunar um það, hvort til athugunar kæmi, ef við hefðum þetta fjármagn, að verja því öðruvísi, að verja því til að bæta dagskrá sjónvarpsins. Ekki er vanþörf á því.

Hv. flm. vék að því, að það hefði verið dregið úr dagskrá sjónvarpsins. Væri nú ekki verðugt viðfangsefni til að byrja með að reyna að koma þessu í það horf sem það var áður en dregið var úr dagskrá sjónvarpsins, áður en við förum að fjölga útsendingardögum og senda út alla mánuði ársins? Það er rík ástæða til að bæta verulega dagskrá sjónvarpsins og auka stórlega menningarlegt gildi þeirrar dagskrár.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða á þessu stigi málsins frekar um þetta. Málið kemur í nefnd þar sem ég á sæti. Ég sagði í upphafi máls míns að ég hefði enga tilhneigingu til að vera með fjandskap út í þetta frv. Þarna er hreyft máli sem er sjálfsagt að ræða og taka til athugunar, og ég vænti þess, að við komumst við þá athugun að þeirri niðurstöðu sem sé raunhæfust og henti best Ríkisútvarpinu, sjónvarpinu í þeirri stöðu sem nú er í þessu máli.