11.03.1982
Sameinað þing: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2998 í B-deild Alþingistíðinda. (2546)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Enn einu sinni hefur iðnrh. og ríkisstj. valdið þjóðinni miklum vonbrigðum. Dómurinn um þessa þáltill. hlýtur fyrst og fremst að vera sá, að hún sé of lítil og komi of seint. Till. lýsir sér ekki fyrst og fremst með því, hvað er í henni, heldur hvað í hana vantar. Það var eins með ræðu hæstv. iðnrh. áðan. Hann veldur ekki bara vonbrigðum með því sem hann sagði, heldur öllu frekar með því sem hann sagði ekki. Hann stóð ekki upp til að segja okkur að virkjun Blöndu væri frágengin, ekki til að tilkynna um hvert væri næsta verkefnið í stóriðju, ekki heldur til að setja fram markmið um vöxt í orkufrekum iðnaði, t.d. á næsta áratug, ekki til að segja okkur hve mörg atvinnutækifæri hann ætlaði þannig að skapa, ekki hvernig hann ætlaði að treysta byggð í landinu með þessum hætti, ekki til að tilkynna hvar iðjuver yrðu staðsett, og náttúrlega alls ekki til að tilkynna um að fengist hafi niðurstaða af einu eða öðru tagi í viðræðunum við Alusuisse. Allt þetta vanraði í mál ráðh. Við þessu þurftum við að fá svör.

Það er eins og raunveruleikinn komi þessari hæstv. ríkisstj. ekki við. Það eru fluttar hér langar lýsingar á virkjunarmöguleikum, það eru fluttar langar frásagnir af athugunum, það er sagðar sögur af nefndastarfi og vitnað í margar skýrslur og starfshópa, það er meira segja upptalning á iðnaðartækifærum. En gallinn er bara sá, að þetta vissum við allt. Þessar lýsingar höfum við heyrt áður, höfum við séð áður, en ákvarðanirnar vantaði.

Ég verð að segja það eins og er, að það er mjög lýjandi. ekki bara fyrir þm., heldur fyrir þjóðina alla, að hlusta á málflutning af þessu tagi árið út og árið inn, vegna þess að þessi málflutningur er ekki heldur nýr. Allt síðasta þing var hafður uppi sams konar málflutningur, og ákvörðunar og atburða var ævinlega að vænta á næsta leiti. Þið tókuð kannske eftir því, hv. þm., að einmitt það sama kom fram í ræðu hæstv. ráðh. áðan. Hann bjóst við að bráðum færi að gerast eitthvað meira.

Þetta er lýjandi af því að einmitt í þessum málaflokki, í virkjun fallvatnanna og orkufrekum iðnaði, er að finna besta tækifæri íslensku þjóðarinnar til að auka atvinnu í landinu, fjölga atvinnutækifærum og treysta lífskjörin. Það er lýjandi vegna þess að það er sífellt verið að taka undir þessi sjónarmið í orði, en það gerist ekkert í verki. Athuganir halda áfram, skýrslur eru samdar, það eru skipaðar fleiri nefndir og safnað meiri upplýsingum. Og áðan kom svo hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson og þuldi þessa sömu rullu einu sinni enn og málaði hana eilítið rósrauðari en stundum áður. En það var ekki þetta sem okkur vantaði, heldur hnitmiðaða stefnu.

Alþfl. markaði stefnu í þessu máli fyrir meira en ári. Við upphaf síðasta þings flutti hann þáltill. — það var eitt af fyrstu þingmálunum — um þetta mál, einmitt þetta mál og nauðsyn þess að átak yrði gert, og lagði til að skipuð yrði sérstök nefnd til að taka að sér forustu í þessum málum, nefnd sem Alþingi skipaði. Í umr. um þessi mál síðan hefur Alþfl. ítrekað þessa stefnumörkun sina. Þegar fyrir meira en ári lögðum við áherslu á að án uppbyggingar í orkufrekum iðnaði væri auðvitað allt tal um virkjunaráform út í hött, engin ástæða sé til stórfelldra virkjunarframkvæmda, nema ætlunin sé að reisa og reka iðjuver sem nýti þessa raforku, og þær umr. um röðun, sem þá stóðu sem hæst, væru þess vegna gersamlega tilgangslausar.

Nú hefur hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðh. mannað sig upp í eins konar röðun ári síðar, en eftir sem áður stendur að forsenduna vantar. Ég ætla að rifja hér upp þessa stefnumörkun.

Við sögðum í fyrsta lagi að við skyldum miða við að sala raforku til orkufreks iðnaðar a.m.k. fjórfaldaðist á næstu tveimur áratugum. Hér er um ákveðið markmið að ræða sem felur í sér stefnumörkun um hversu mörgum atvinnutækifærum við viljum ná fram í þessum þætti atvinnulífsins. Hér er um að ræða heildarviðmiðun um hvert eigi að stefna.

Við sögðum í öðru lagi að það yrði sérstaklega unnið að því, að eitt nýtt iðjuver risi á Austurlandi, eitt á Norðurlandi og eitt á suðvesturhorni landsins, Suðurlandi eða Suðvesturlandi, auk stækkana á þeim orkuverum sem fyrir eru. Hér er tekin afstaða til staðsetningar og hvernig þetta tækifæri skuli nýtt til að treysta byggðina í landinu.

Við sögðum í þriðja lagi að samningagerð varðandi nýtingu orkunnar yrði falin sérstakri nefnd sem Alþingi kysi. Það var einfaldlega vegna þess að við töldum fullsannað bæði getu- og áhugaleysi ráðh. og ríkisstj. til að ráða fram úr þessu máli. Það hefur enn sannast frekar á þeim tíma sem síðan er liðinn.

Í stefnumörkun okkar tókum við líka fram hvaða virkjanir við vildum að yrðu virkjaðar og hvenær í þær skyldi ráðist, þ.e. röð og tímasetning framkvæmda. Það var um 250 mw. uppsett vélaafl á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu sem gæti hafið raforkuframleiðslu á árunum 1983–1985. Það var í öðru lagi um Blönduvirkjun sem gæti hafið orkuframleiðslu 1986. Og það var um Fljótsdalsvirkjun sem hefji orkuframleiðslu á árunum 1987–1989. Vitaskuld hefur sá tími, sem liðið hefur síðan, tafið þennan framgang þannig að sjálfsagt verður að seinka þessu svo sem um eitt ár, jafnvel þótt menn fengjust til að taka ákvörðun af þessu tagi í dag.

Við sögðum líka að ef ekki næðist samkomulag við landeigendur um virkjun Blöndu samkv. hagkvæmustu tilhögun fyrir sumarlok hin síðustu skyldi Fljótsdalsvirkjun flýtt að sama skapi.

Þessi stefnumörkun okkar var fastur og ákveðinn rammi og innan þessa ramma vildum við vinna og einungis víkja frá þessari virkjunarstefnu ef ekki næðust samningar um hagkvæma orkusölu í samræmi við hana. Það skyldi vinna að iðjuverum í samræmi við þessa stefnu. Það skyldi vera markmiðið og einungis slakað á stefnunni ef ekki tækist að ná nægilega hagkvæmum valkostum í þessum efnum.

Ég spyr: Hversu miklu betur stæði ekki íslenska þjóðin ef þessi stefnumörkun hefði verið samþykkt fyrir einu ári? Þá hefðum við getað einbeitt okkur að þessum verkefnum allan þennan tíma. En tíminn hefur farið í skæklatog og þras og frekari upplýsingaöflun. Þetta úrræðaleysi hæstv. ríkisstj. er mjög lýjandi, og það versta í því sambandi er hversu mikið er í húfi. Auðvitað veit hvert mannsbarn að það þarf að skapa 25–30 þús. ný atvinnutækifæri á næsta áratug. Auðvitað veit hvert mannsbarn að fiskimiðin og hagvöxturinn, sem þangað er að sækja, eru fullnýtt.

Sú stefna, sem ríkt hefur í málefnum sjávarútvegs, landbúnaðar og í reynd í orkumálunum að undanförnu, hefur þannig verið hrein kjararýrnunarstefna og frá þeirri stefnu verðum við að snúa. Það er veigamikill þáttur þeirrar stefnumörkunar að menn fáist til að taka ákvarðanir í þeim málaflokki sem hér er til umfjöllunar.

Meginmálið í sambandi við þessi iðjuver er auðvitað ekki — og þar hafa menn komið sér upp einu þrætuefninu enn — hversu stóran eignarhlut við eigum í þeim, heldur hitt, hversu vel við tryggjum rétt okkar í sambandi við rekstur þeirra. Jafnvel þótt við eigum svo og svo stóran eignarhlut í þessum fyrirtækjum þarf það alls ekki að þýða virk yfirráð. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að við komumst ekki hjá samvinnu við erlenda aðila varðandi tæknimál og markaðsmál, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar áðan. En þá er hlutverkið líka að tryggja sem best okkar áhrif, okkar rétt í sambandi við þessi iðjuver.

Ég sagði, herra forseti, að það væri megineinkenni þessarar þáltill., sem hér er til umfjöllunar, að hún væri of lítil og of sein. Ég sagði að það væri ekki megineinkenni á málflutningi hæstv. iðnrh. hvað hann segði, heldur það sem hann segði ekki. Ég endurtek þetta. Sú ákvörðunarleysisstefna, sem hér hefur ríkt, er þjóðhættuleg. Hún bitnar á lífskjörunum í landinu. Það skín í gegn að það er núllstefna og neistefna Alþb. sem mótar þessa till. og allan framgang þessa málaflokks í ríkisstj. Enn einu sinni sést hvers konar flokkur Alþb. í raun og veru er, nefnilega alveg sérstakur íhaldsflokkur sem vill engu breyta, vill engar framfarir, en að allt hjakki í sama farinu. Því miður er þessi till. og ræða ráðh. einmitt með þessu íhaldsmarki brennd og stefnir til lífskjarahnekkis fyrir íslenska þjóð. Þessu verða Íslendingar að velta af sér.