11.03.1982
Sameinað þing: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3011 í B-deild Alþingistíðinda. (2550)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. ræddi á mjög breiðum grundvelli flugmál í þeirri ræðu sem hann var rétt að ljúka. Ýmislegt athyglisvert kom fram í hans máli. Það er óhætt að vera honum sammála um a.m.k. nokkur atriði, eins og t.d. hættuna á því, að til hringamyndunar komi í atvinnurekstri hér á landi. Ég er feginn að heyra það af vörum hæstv. samgrh. því að ugglaust eiga slík viðhorf ekki við um eitt fyrirtæki eingöngu í landinu, heldur ýmis önnur og kannske sum sem eru ærið nálægt hæstv. ráðh.

Það er ugglaust rétt hjá hæstv. ráðh. jafnframt — og þakkarvert hve mikinn skilning hann sýnir stjórn og eigendum Flugleiða, þegar hann bendir á að endurnýjunar sé þörf hjá fyrirtækinu. Enn fremur ber að þakka hið hlýja viðmót sem kemur fram hjá hæstv. ráðh. þegar hann segir að hann ætli sér að hafa samkeppni, takmarkaðá samkeppni, en verði auðvitað að passa upp á að aðilar fari sér ekki að voða. Ég veit að allir áhugamenn um flugmál á Íslandi og sér í lagi þau fyrirtæki, sem starfa að flugmálum, fagna því þegar hæstv. samgrh. lýsir yfir að hann ætli að reyna að koma í veg fyrir að þeir fari sér að voða í samkeppninni.

Það hefur fyrir löngu verið viðurkennt, að ef hægt er að ræða um flugmálastefnu hér á landi eigi hún fyrst og fremst rætur í bréfi þáv. samgrh., Hannibals Valdimarssonar, sem var dags. 25, júní 1973 og sent til stjórna Flugfélags Íslands og Loftleiða vegna sameiningar þeirra flugfélaga sem ríkisvaldið hafði hönd í bagga með. Í þessu bréfi, sem ríkisstj. stóð öll að, var tekið fram skilyrðislaust að þetta sameinaða flugfélag mundi njóta allra þeirra réttinda til reglubundins áætlunarflugs sem flugfélögin höfðu bæði áður á erlendum flugleiðum og Ísland hefur samkv. loftferðasamningum og það vildi nýta. Þessi stefna var ekki mörkuð af Alþingi á sínum tíma, og skal viðurkennt að ýmsir úr stjórnarandstöðu þess tíma voru á móti slíkri stefnu og reyndar á móti afskiptum þáv. ríkisstj. af þessum málum. Allt um það verður að skrifa stefnuna á reikning þeirra sem þá fóru með völd í landinu, en það var ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar.

Seint á árinu 1976, nánar tiltekið 28. des., sótti Arnarflug um leyfi til áætlunarflugs frá Keflavík til Kaupmannahafnar, Dublin, Amsterdam, Zürich og Düsseldorf. Eftir nokkurra mánaða þóf var umsókninni hafnað. Hún var tekin fyrir í flugráði og meiri hluti flugráðs lagðist gegn leyfisveitingunni. Það skal þó tekið fram, að hæstv. samgrh., sem þá sat í flugráði, greiddi atkv. með því, að Arnarflug fengi flugrekstrarleyfi til áðurgreindra staða eða a.m.k. sumra þeirra.

Í lok ársins 1978 var svo komið fyrir Arnarflugi vegna óhappa sem áttu sér stað um sumarið, að eigendur fyrirtækisins og ýmsir lánadrottnar beittu sér fyrir því, að Flugleiðir keyptu meiri hluta í flugfélaginu Arnarflugi. Var gengið frá þeim samningi seint á árinu 1978. Strax í upphafi var þeirri meginreglu fylgt í samskiptum þessara tveggja flugfélaga, að Flugleiðir sáu um áætlunarflugið, en Arnarflugsvélarnar sinntu meira leiguflugrekstri. Þetta samstarf átti eftir að verða erfitt þegar fram í sótti, þegar harðnaði á dalnum og ýmsir, þ. á m. flugmenn Flugleiða, gerðu kröfu til þess, að starfsmenn Flugleiða nytu ákveðinna forréttinda í rekstri félaganna. Það er athyglisvert við þessa sameiningu, að helstu skuldunautar Arnarflugs á þessum tíma voru Samvinnubankinn og Olíufélagið. Þarf ég ekki að útskýra frekar hvers vegna það er tekið fram.

Hinn 3. sept. 1980 sækir síðan Iscargo um leyfi til áætlunarflugs frá Keflavík til Amsterdam. Leyfið er veitt og sumarið 1981 er flogið á þessari leið með erlendum leiguflugvélum. Um þetta mál urðu talsverðar umræður á sínum tíma þegar rætt var um aðstoð við Flugleiðir. Þá lýsti hæstv. samgrh. yfir að með flugrekstrarleyfi til Iscargo væri ekki — ég undirstrika: ekki um stefnubreytingu í flugmálum að ræða. Kem ég nánar að því síðar.

Þegar þetta mál, Flugleiðamálið, var á dagskrá hér í þingi, eins og áður hefur verið getið um hér í umr., var talsvert rætt um svokölluð skilyrði hæstv. ríkisstj. sem komu fram í bréfi til Flugleiða og höfðu áður verið til umfjöllunar hér á Alþingi. Í þessum skilyrðabálki var m.a. ákvæði um að starfsmannafélagi Arnarflugs yrði gefinn kostur á að kaupa hlut Flugleiða í Arnarflugi. Það var vitað mál, að þessi krafa hafði komið frá Starfsmannafélaginu, vegna þess að starfsmenn Arnarflugs gátu gert ráð fyrir að með flugrekstrarleyfinu til Iscargo væri hæstv. samgrh. fáanlegur til þess að breyta stefnunni í flugmálum. Hæstv. ráðh. sagði í sinni ræðu áðan að Alþfl.-menn og flestallir aðrir þm. hefðu verið samþykkir þessum skilyrðum og meira að segja hefðu þm. Alþfl. viljað lögfesta þau. Til þess að það sé alveg ljóst hver afstaða mín var á þeim tíma tel ég ástæðu til að rifja hana upp. Við atkvgr. gerði ég grein fyrir atkv. mínu og sagði þá m.a., með leyfi forseta:

„Ég tel að sumt í þessum skilyrðabálki sé þess efnis, að erfitt sé að sætta sig við þau, og nefni sérstaklega fjórða atriðið, sem er mjög varhugavert í því sambandi. Þar er verið að skapa fordæmi sem getur haft mikla hættu í framtíðinni. Þar er um það að ræða, að ákveðnum, tilteknum hópi sé gert hærra undir höfði en öðrum. Hefði skilyrðið verið með þeim hætti, að þar væri um almennt útboð að ræða til þess að laga rekstrarstöðu fyrirtækisins, hefði afstaða mín verið öðruvísi“ o.s.frv.

Í þessari grg. með atkv. mínu, þar sem ég sat hjá, tók ég sem sagt sérstaklega fram að ég teldi að slík skilyrði væri varla sæmandi fyrir löggjafann að setja þegar um var að ræða aðstoð til fyrirtækisins Flugleiða sem þá var á dagskrá. Alveg burt séð frá þessu er þó rétt að taka það fram, að auðvitað hlýtur að vera hjá hv. Alþingi fullur skilningur á því, að það séu breytt viðhorf hjá starfsmönnum Arnarflugs eftir leyfisveitinguna til Iscargo. Þetta endaði með því, að Starfsmannafélag Arnarflugs keypti 17.5% af hlutafé og Flugleiðir eiga nú 40% í félaginu.

Hinn 26. ágúst á s.l. ári sækir síðan Arnarflug um leyfi til áætlunarflugs, eins og öllum er kunnugt, og í nóvember afgreiðir flugráð málið með þeim úrslitum sem óþarfi er að rifja upp. Þau úrslit voru ekki á sama veg og þegar Iscargo fékk sitt leyfi. Hæstv. flugmálaráðherra lýsti því samt yfir, að hann ætlaði sér að veita þetta leyfi. En af einhverjum einkennilegum ástæðum sá hann sér ekki fært að láta slíkt flugrekstrarleyfi af höndum fyrr en mörgum mánuðum seinna eða nánar tiltekið 2. mars. s.l. Kem ég þá að yngri atburðum í þessari króníku.

Hinn 26. febr. var gert það samkomuleg, sem hv. þm. Árni Gunnarsson vék hér að áðan, á milli Arnarflugs, Iscargo og Útvegsbanka Íslands. Ég mun ekki fjalla um bankamálið. Það þekkja aðrir, sem hér eru miklu betur en ég, sitja í bankaráði og skýra ugglaust frá því hér á eftir. Það, sem ég segi hér, má hins vegar lesa í dagblöðunum, en ég held að það sé hollt að tína það saman. Þá sjá menn í hvaða röð atburðirnir gerast. Sem sagt, 26. febr. er ljóst að þetta samkomulag liggur fyrir og gera má ráð fyrir að saman sé að draga á milli aðilanna, Arnarflugs annars vegar og Iscargo hins vegar. Eftir helgina, nánar tiltekið þriðjudaginn 2. mars, um það bil kl. 5, fær forstjóri eða framkvæmdastjóri Arnarflugs flugrekstrarleyfi. Eftir það heldur hann beint á Hótel Sögu til samningafunda sem bæði hæstv. ráðh. og hv. þm. Árni Gunnarsson hafa gert hér að umtalsefni þótt ágreiningur sé um hvenær fundinum lauk. Ég hef hins vegar heyrt það staðhæft, að kl. 11 morguninn eftir hafi Gunnar Þorvaldsson og Kristinn Finnbogason orðið samferða til hæstv. ráðh. og átt við hann tal. Sé það rétt virðast afskipti hæstv. ráðh. vera einhver af málinu. Ekki kom það samt fram í hans ræðu, að hann hefði hitt þessa menn á þeirri stundu. (Gripið fram í.) Það kemur í ljós hjá hæstv. ráðh. að þeir hafi komið til hans. Og þeir hafa líklega setið þar þrír yfir kaffibolla án þess að ræðast við. (Sjútvrh.: Nei, þeir fengu ekki kaffi.) Þeir fengu ekki kaffi, upplýsir hæstv. ráðh. Hver veit nema þeir hafi fengið eitthvað annað.

Ég skal ekki gera eins mikið og hv. þm. Árni Gunnarsson úr þætti Kára Einarssonar. Það er að vísu rétt, að Kári Einarsson er sá fulltrúi sem hæstv. ráðh. skipaði til setu í stjórn Flugleiða. Og kannske er rétt að rifja það upp í þessu sambandi, að það var eitt af þeim skilyrðum, sem hæstv. ríkisstj. setti vegna aðstoðar við Flugleiðir, að ríkið eignaðist stærri hluta í fyrirtækinu. Ugglaust hefur ástæðan verið sú, að hæstv. ráðh. telur að með þeim hætti náist betri rekstur í félaginu. Ég held, að eftir aðstoð Kára Einarssonar hafi ekki verið falast af hæstv. ráðh., og trúi honum frekar en öðrum sem reyna að gera þá sögu tortryggilega.

Hinn 4. mars er síðan stjórnarfundur í Arnarflugi þar sem drögin eru kynnt — þetta hefur komið fram í blöðum — en engin ákvörðun tekin þar sem ýmsar upplýsingar og gögn vantar.

8. mars er síðan haldinn stjórnarfundur í Arnarflugi og farið yfir gögn. Það kemur fram, eins og reyndar hefur komið fram í blóðum, að ágreiningur er um verð og mat á þeim hlutum sem er í kaupunum. Jafnframt er upplýst að ekki eru allar eignir Iscargo falar eftir þessum samningi. Arnarflug festir ekki kaup á DC-6 flugvél Iscargo, svo að nefnd sé ein eign.

Hér hafa farið fram umræður um það hvort hægt sé að veðsetja eignir Arnarflugs fyrir þessari skuld. Það er auðvitað mál sem kemur hv. Alþingi varla við. En mér hefur verið sagt að í samþykktum Arnarflugs — og það ákvæði hefur verið þar frá upphafi eða frá félagsstofnun — standi að allir aðilar í stjórn eða hluthafafundur verði að samþykkja veðsetningar. En það kemur ekki þessu máli við. Ég tek það skýrt fram, að ég legg engan dóm á það, ég hef enga þekkingu á þeim málum, hvort eignir Iscargo séu rétt metnar í þessum samningaviðræðum og þeim kaupsamningi sem liggur fyrir.

Hér hefur verið til umræðu fundur sem hæstv. ráðh. átti kl. 9 að morgni 9. mars með flugráðsaðilum. Reyndar var formaður flugráðs staddur erlendis. Eins og komið hefur fram í dagblaðinu Tímanum og hv. þm. Árni Gunnarsson vitnaði til var þar til umræðu flugrekstrarleyfið. Ég held að það fari ekki milli mála að hægt sé að skilja niðurstöður fundarins á þann veg, að hæstv. ráðh. hyggist láta Arnarflug fá Amsterdam-flugið og jafnframt — sem auðvitað skiptir máli — ætli hæstv. ráðh. að beita sér fyrir því, að Flugleiðir og Arnarflug hefji samræður um frekara fyrirkomulag flugsins til útlanda. Þessi afstaða hæstv. ráðh. er kannske ekki einkennileg út af fyrir sig. En á það ber þó að minna, að við úthlutun leyfa á borð við flugrekstrarleyfi hefur venjulega verið leitað til umsagnaraðila. Hljóta slík leyfi að vera borin undir flugráð áður en þeim er ráðstafað. Hæstv. ráðh. hefur verið önnum kafinn undanfarna mánuði varðandi ýmiss konar leyfi. Þess vegna má segja að þetta hafi vakið meiri athygli en ella. En ljóst er að með þessari ákvörðun — ef um ákvörðun er að ræða — hefur hæstv. ráðh. nánast gert að engu fyrir fram þá ákvörðun sem flugráð gæti hugsanlega tekið. Má þó vel vera að hæstv. ráðh. hafi tryggt sér atkv. meiri hluta flugráðs. Um það get ég að sjálfsögðu ekki vitað. Í dag var síðan haldinn fundur sem væntanlega hefur leitt til þess, að endanlegt samkomulag hefur náðst á milli Arnarflugs og Iscargo.

Eins og ég sagði áður ætla ég ekki að ræða neitt þann þátt, sem varðar Útvegsbankann, né heldur hvort eignir Iscargo séu rétt metnar. En ég tel ástæðu til að ræða annað mál sem er talsvert stórt í mínum augum, og það er sjálf flugmálastefnan. Ég tel að hæstv. ráðh. hafi, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar sínar, gjörbreytt flugmálastefnunni. Skal ég ekki heldur leggja dóm á hvort það sé til góðs eða ills. En það þýðir ekki lengur fyrir hæstv. ráðh. að neita því, að um verulegar breytingar hefur orðið að ræða. Hæstv. ráðh. lýsir því yfir að hann neiti því ekki.

Það er kannske ástæða til að rifja upp í því sambandi hvað hæstv. ráðh. sagði á hv. Alþingi 21. okt. 1980, þegar Iscargo fékk flugleyfi á sínum tíma. Þá sagði hann, með leyfi forseta, orðrétt á þessa leið:

„Menn tala um stefnubreytingu og menn tala um umsókn Arnarflugs á sínum tíma. Arnarflug sótti árið 1976 um leyfi til að fljúga til Amsterdam. Það var tekið fyrir í flugráði í jan. 1977 og fékk umsóknin eitt atkvæði, mitt atkvæði. Ég sat þá í flugráði og greiddi því atkvæði að Arnarflug fengi þetta leyfi.“

Síðar segir hann: „En að þetta“ — þá er talað um Iscargo í beinu framhaldi — „en að þetta boði stefnubreytingu, því vil ég mótmæla. Þótt þetta félag“ — ég skýt inn að það er Iscargo — „fái leyfi á einn stað, sem það rekur í dag verulegt flug til, það boðar ekki stefnubreytingu. Og meginástæðan fyrir því, að þetta var veitt, er vitanlega einróma samþykki flugráðs við þessu og sú staðreynd, að félagið rekur fraktflug þangað í dag.“ Eins og heyra mátti var ein af meginástæðunum fyrir þessari niðurstöðu sú, að flugráð hafði samþykkt þessa ráðstöfun.

Ég tel ástæðu til þess, ef hæstv. samgrh. tekur aftur til máls, að spyrja hvort nú hafi orðið breyting á, því að öllum er kunnugt að ekki var sama afstaða tekin af flugráði þegar Arnarflugsleyfið var veitt og þegar Iscargo-leyfið var veitt. Og það er kannske kominn tími til að spyrja hæstv. flugmálaráðherra hvort hann ætli í framtíðinni með einum eða öðrum hætti að leggja fyrir hv. Alþingi drög að stefnu í flugmálum sem hv. Alþingi getur fengið að ræða.

Þetta mál snýst öðrum þræði um það sem fram hefur komið í blöðum, að sá sem á í hlut, sá aðill sem er langstærsti eigandi Iscargo og fékk á sínum tíma leyfi til flugs til Amsterdam, eins og ég hef nú rakið, virðist í dag hafa komist að því, líklega með hjálp góðra manna, að fyrirtækið, sem hann stýrir, ræður ekki lengur við þennan rekstur. Svo er komið að margra sögn að fyrirtækið eigi varla fyrir skuldum. Og svo virðist sem þetta ástand hafi orðið til þess, að hæstv. ráðh. — það eru kannske sögusagnir — hafi beðið með að afhenda Arnarflugi flugrekstrarleyfi á tvo staði í Evrópu þar til samkomulag hafi tekist sem væri Iscargo nægilegt til þess að losa forstjórann úr kröggunum, þannig að leyfið, sem Iscargo hafði til skamms tíma og hefur reyndar í dag, gengi þá yfir til Arnarflugs. Það er þetta atriði nákvæmlega sem umræðurnar hafa snúist mest um. Og ég verð að segja að í ræðu sinni gerði hæstv. samgrh. að vísu fimlegar tilraunir til þess fyrst og fremst að leiða hugann að öðru og hins vegar að hreinsa sig af því að hafa nokkuð komið nálægt þessu máti. En ég held að hæstv. ráðh. verði að gera frekari tilraunir til þess að gera hreint fyrir sínum dyrum.

Ég hef rifjað það upp fyrr, hvernig ákveðnir aðilar beittu áhrifum sínum haustið 1978, þegar Arnarflug átti í kröggum, til þess að Flugleiðir keyptu þá meiri hluta í því flugfélagi. Ég hef bent á að um þá sameiningu má segja að hún hafi byggst á gömlu flugmálastefnunni sem vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar markaði á sínum tíma, en að sú stefna hafi verið brotin niður með leyfi til Iscargo. Það er afleiðingin af þeirri ákvörðun, þ.e. leyfisveitingunni til Iscargo sem við erum nú að ræða um, því að það er óskaplega eðlilegt, það vil ég enn ítreka að stjórnendur Arnarflugs bregðist þannig við að þeir vilji fá sér traustan rekstrargrundvöll. En þá bregður svo við að hæstv. ráðh. — og það er það sem er kjarni málsins — lýsir yfir að hann sé tilbúinn að afhenda Arnarflugi ákveðin flugrekstrarleyfi, sem öllum er ljóst, jafnt hæstv. ráðh. sem forstöðumönnum Arnarflugs, að nægir ekki til þess að vera lágmarkseining fyrir flugfélagið Arnarflug. Það er einmitt þetta atriði sem vekur þann grun hjá ýmsum, að það hafi verið gert viljandi til þess að þvinga Arnarflug til að eiga kaup við flugfélagið Iscargo. Um þetta snýst málið. Og það verður að segja því miður að sú þróun mála, sem ég hef rakið hér, styður heldur þær sögusagnir sem á kreiki hafa verið og hafa orðið til þess, að hv. þm. Árni Gunnarsson hefur séð sig knúinn til að koma með þetta mál inn í sali Alþingis. M.ö.o.: ýmsum þykir sem flugrekstrarleyfi séu notuð sem eins konar gjaldmiðill og verið sé að rugla saman viðskiptum og pólitík.

Ég lít svo á að meðan hæstv. ráðh. hreinsar sig ekki betur af þessu máli megi halda því fram, að Arnarflug hafi verið eins konar leiksoppur í þessu máli, rétt eins og maður getur nú séð að Flugleiðir voru á sínum tíma.

Hæstv. Flugmálaráðherra verður því að gera betur hreint fyrir sínum dyrum. Ræða hans var ekki sannfærandi. Enn fremur hlýtur það að vera krafa að hann leggi fyrir Alþingi drög að stefnu, framtíðarstefnu í flugmálum íslensku þjóðarinnar, þannig að löggjafinn hafi tækifæri til að hafa áhrif á það, hver stefna sé mörkuð í þessum mikilvægu málum. Dreg ég þá ekki dul á að það gildir jafnt um flug til annarra landa og flug innanlands. Vera má að hæstv. ráðh. eigi sér skoðanasystkin í öðrum flokkum en sínum eigin ef hann kemur hreint fram og leggur fram stefnu sem hægt er að ræða, en þarf ekki að koma hér inn í sali Alþingis tilneyddur eftir að dagblöð bæjarins hafa flæki hann í mál sem óneitanlega virðist vera þannig vaxið — ég þori nú ekki að nota orðið, sem hv. þm. Árni Gunnarsson notaði — en við skulum segja að óneitanlega er nokkur lykt af því.