11.03.1982
Sameinað þing: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3016 í B-deild Alþingistíðinda. (2551)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Vegna síðustu orða hv. þm. Friðriks Sophussonar vil ég undirstrika að það er ekki í fyrsta sinn, sem mál berast hingað inn á hv. Alþingi í fyrirspurnarformi eftir að fyrirsagnir dagblaðanna draga athygli þm. að þeim, og á þar við þm. úr öllum flokkum því það er ekki aðeins þetta mál sem þannig kemst hér inn í umr. Ég vil líka taka það fram — og ég bið þm. að hlusta vel, að í þessu máli, að svo miklu leyti sem ég veit og ég tel mig hafa fylgst nokkuð með því á lokastigi, er ósanngjarnt að bera það hér á borð, að viðskipti og stjórnmál hafi blandast þar inn í. Á það við um alla þá aðila sem ég veit að hafa komið nálægt málinu og er ég þó stjórnmálamaður kjörinn á Alþingi og kemst ekki hjá því að vera við þetta mál riðinn. Má segja að þessi orð séu varnaðarorð fyrir hæstv. ráðh., sem þó þarf að sjálfsögðu ekki á mér að halda til að verja sig, svo langt eru þessi ummæli frá raunveruleikanum.

Ég vil í upphafi máls míns segja að ég er neyddur til að standa hér upp. Ég er eins og aðrir bankaráðsmenn í hvaða banka sem er kjörinn af hv. Alþingi til starfa sem slíkur. Ég er skipaður af ráðh. sem formaður bankaráðs Útvegsbankans samkv. landslögum. Með lögum um bankana erum við eiðsvarnir að gera ekki að umræðuefni utan bankaráðsfunda neitt af því sem við kunnum að komast að um einstaka viðskiptavini bankans eða samskipti þeirra sín á milli, ef það fer um bankann, eða á annan hátt starfsemi bankans og viðskipti hans við einstaklinga. En í þessu máli, sem er að ég held fremur óvenjulegt, hafa bankaráðsmenn fylgst með gangi mála á lokastigi og það hefur verið haldinn fundur í bankaráði Útvegsbankans þar sem þetta mál hefur verið rætt fram og til baka og öll gögn sem snerta bankann og viðskipti þessara tveggja fyrirtækja, sem hér eru að ná saman, rædd. Við höfum fengið í hendur öll þau gögn sem ég held að séu til í formi afsala og kaupsamninga og draga að þessu öllu saman, merkt sem algert trúnaðarmál, og okkur er öllum ljóst að við höfum ekki heimild til að ræða utan funda bankaráðs þessi mál við almenning. Því kemur mér það afskaplega spánskt fyrir sjónir að hluti af þessum gögnum, sem eiga að vera trúnaðarmál fyrir bankaráðsmenn, skuli vera orðin opinber gögn í umr. á Alþingi Íslendinga. Ég get ekki annað en óskað eftir því, að það verði skráð eftir mér sem formanni bankaráðs, að mér vitanlega hafa þessi gögn ekki borist frá Útvegsbankanum í hendur viðkomandi aðila.

Ég vil, áður en ég kem beint að málinu sem ég mun ræða hér, viðskiptum Útvegsbankans, að gefnu tilefni frá fyrirspyrjanda, segja að ég hef aldrei verið sannfærður um að sú flugmálastefna, sem mörkuð var af Hannibal Valdimarssyni þegar hann var flugmrh., hafi verið rétt. Ég er þvert á móti viss með sjálfum mér að hún var röng, og að því leyti fagna ég því ef núv. hæstv. flugmrh. treystir sér til að breyta þeirri stefnu.

Ég vil þá víkja að málinu sjálfu og rekja að litlu leyti aðdraganda að þessu máli, sem nú er á lokastigi, hvað snertir viðskipti Iscargo við Útvegsbanka Íslands, en Iscargo sem fyrirtæki er u.þ.b. 15 ára gamalt.

Iscargo hefur verið viðskiptavinur Útvegsbanka Íslands í þessi 15 ár. Það eru fáein ár síðan eigendaskipti urðu að Iscargo. Fyrir eigendaskiptin, um 10 ára bil sem Iscargo var viðskiptavinur Útvegsbankans, hefur bankinn ekkert undan viðskiptum við það fyrirtæki að kvarta og engin ástæða til að ætla að þar fari fram afbrigðileg viðskipti sem kalla á rannsókn eða athugun eða uppgjör á því fyrirtæki. Síðan skeður það, að aðildarbreyting verður að fyrirtækinu. Það koma menn sem hafa nýjar og ferskar hugmyndir, vilja betrumbæta flugflotann. Það er von að menn brosi að því þegar ég segi betrumbæta flugflotann, vegna þess að fram að þeim tíma voru vörur og farþegar flutt í sama rými, en eftir þann tíma var farið að aðskilja farþega frá vörum. Oft var það þannig, þegar farþegar komu inn í flugvélar erlendis eftir að hafa gengið úr sæti til hvíldar meðan flugvél átti þar viðkomu, að vörur voru komnar í þau sæti sem þeir sátu áður í. — En þarna voru komnir breyttir tímar. Þarna kom rekstur sem var sérstaklega ætlaður fyrir vöruflutninga. En okkar þjóðfélag er nú einu sinni þannig sett, að það eru ekki nema tveir gjaldeyrisbankar til í landinu. Það hefði þótt saga til næsta bæjar ef tíu ára gamall viðskiptavinur Útvegsbanka Íslands hefði fengið það svar hjá sínum viðskiptabanka, sem er annar af tveimur gjaldeyrisbönkum þjóðarinnar, að hann treysti sér ekki til að veita honum þær ábyrgðir, sem hann taldi sig þurfa til að endurnýja sinn flugvélaflota, og hann yrði þar af leiðandi að fara í hinn gjaldeyrisbankann sem er í landinu, þ.e. Landsbanka Íslands. Ég tel að þá hefði bankastjórn Útvegsbankans ekki verið starfi sínu vaxin. Það eru daglega sem bankarnir, báðir gjaldeyrisbankarnir, eru að opna erlendar ábyrgðir, og það er ekkert nýtt að viðskiptavinir þurfi annaðhvort að fá greiðslufrest eða á annan hátt fyrirgreiðslu til að standa við sínar skuldbindingar. Það er ekkert einsdæmi um Iscargo.

Ég vil segja það, að fyrir um tveimur mánuðum hafði ég heyrt því fleygt, ekki á fundum, heldur á götu úti, að Útvegsbanki Íslands væri í mikilli hættu með ábyrgðir sínar vegna skulda Iscargo, í bankanum. Ég var sem bankaráðsformaður auðvitað ekki áhyggjulaus út af þeim ummælum og gerði fyrirspurn um hvort Iscargo væri í viðskiptum við bankann, fyrst og fremst vegna þess að þegar Alþingi kaus núverandi bankaráð var Iscargo í viðskiptum við bankann án þess að ég hefði um það vitneskju. Það kom fram að þessar ábyrgðir, sem bankinn hafði gengið í fyrir sinn viðskiptavin, höfðu fallið á bankann. Þá var gengið úr skugga um að þær tryggingar, sem bankinn hafði, væru nægar til þessa að bankinn væri öruggur með að tapa ekki ef til þess kæmi að gengið yrði að viðkomandi veðum. Þá kom í ljós að bankinn hafði þegar tilkynnt viðkomandi að nú óskaði hann eftir uppgjöri frá fyrirtækinu. Það þýddi að ef ekki kæmi fram greiðsla væri gengið að þeim veðum og tryggingum sem bankinn hafði í höndum. Þá kom líka í ljós, og það var nýtt fyrir mig, en ekki fyrir bankann, að gerður hafði verið sölusamningur á þessari Lockheed Electra-vél við Perúmenn. Ég fékk að sjá hann. Hann var raunverulegur. Bankinn var þá búinn að bíða eftir að þau viðskipti gætu farið fram, og fyrirtækið Iscargo hafði margítrekað reynt að koma þessum viðskiptum á sem fyrst, en ekki tekist. Þegar svo bankinn fór að þrýsta á fyrirtækið kom svar frá Perúmönnum um að þeir gætu því miður ekki staðið við þetta kauptilboð, enda var það háð samþykki ríkisstjórnar Perú um innflutningsleyfi og gjaldeyrisleyfi. Upphæðin var mjög hagstæð fyrir þessa vél, var við það hámark sem kom fram áðan og frsm. nefndi.

Þegar það lá ljóst fyrir, að ekki yrði úr sölu til Perúmanna, tilkynnti bankinn fyrst munnlega forsvarsmönnum eða stjórn Iscargos að nú væri komið að því að bankinn mundi ekki veita frekari frest og gengið yrði á ákveðnum degi að þeim veðum og tryggingu sem bankinn hafði í sinni vörslu. Þá var farið fram á hálfsmánaðar viðbótarfrest af fyrirtækisins hálfu þar sem nú loksins hefði borist endanlegt svar frá Perúmönnum og þá gætu þeir kannað hvort aðrir kaupendur væru fyrir hendi. Það gerðu þeir í Bandaríkjunum, en með svo skömmum fyrirvara treysti viðkomandi fyrirtæki sér ekki til að benda á kaupanda að þessari vél. Eftir að bankinn hafði veitt Iscargo-mönnum hálfsmánaðarfrest, sem ekki var framlengjanlegur, var að vísu beðið um vikufrest til viðbótar vegna þess að nýr aðili hefði komið inn í þessar viðræður og var sá vikufrestur til viðbótar veittur. Þessi nýi aðili reyndist vera Arnarflug.

Arnarflug og Iscargo ræða síðan saman. Til að fá lausn á þessu máli þarf að sjálfsögðu að ræða við viðskiptabanka fyrirtækisins. Kaupandinn þarf að fá að vita hvort viðskiptabanki fyrirtækisins er reiðubúinn til að flytja skuldirnar með nýjum ábyrgðum yfir á nýjan skuldara eða hvort hann vill það ekki. Þá er þetta mat bankastjórnarinnar að vel athuguðu máli: Hinn nýi kaupandi rekur flugfélag eins og sá sem er að selja. Það flugfélag hafði samkv. reikningum gengið mjög vel síðustu þrjú eða sérstaklega tvö síðustu árin. Með því að leggja fram þau veð og þær tryggingar til viðbótar við að halda gömlum tryggingum frá Iscargo taldi bankastjórnin — og bankaráðið var sammála, — að þarna væri kominn betri skuldari með ekki verri tryggingar og góðan rekstur.

Þá vil ég svara þeirri spurningu sem kom fram áðan. Bankastjórar og bankastjórn hafa gætt hagsmuna bankans mjög vel með því að gera þennan nýja samning. Ég vil undirstrika það þrátt fyrir mat manna sem ég tek ekki undir. Ég hef heyrt í aðilum utan bankans og jafnvel utan Alþingis að það sé rangt að veita þessa fyrirgreiðslu til Arnarflugs, það eigi að ganga að viðkomandi aðilum. Hv. Alþingi getur hvenær sem er beðið mig um að segja af mér sem bankaráðsformaður. Ég skal verða við þeirri ósk ef hv. Alþingi ætlast til þess að við gerum 7–10 manns eignalausa, menn sem eiga fjölskyldur. En ef önnur leið er fyrir hendi sem hægt er að fara og er meiri og betri trygging en sú sem var fyrir, þá verð ég að segja alveg eins og er, að ég held að enginn hv. alþm., sem hefði verið í forustu í bankamálum, mundi velja þann kostinn að gera nokkrar fjölskyldur öreiga.

Ég vil ekki blanda mikið málum Flugleiða og bera saman við þá fyrirgreiðslu sem hér er til umr. En eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, Árna Gunnarssyni, eru þessar vélar, Lockheed Electra-vélar, yfirleitt metnar mest á 2 millj. dollara því þær hafa selst í kringum 1 500 þús. dollara. Það er vegna þess að það er lægð í sölumarkaðinum. Það er svokallaður „buyer’s“-markaður á flugvélum í dag. Útvegsbankastjórnin hefur metið þessa vél á 1 millj. dollara, eins og kom fram í ræðu frummælanda. Þetta eru ekki upplýsingar sem ég er að gefa sem bankaráðsmaður. Þetta eru upplýsingar sem ég er að endurtaka eftir frummælanda, en ég skal staðfesta að þær eru réttar. Það má segja að það sé varlegt mat á verðmæti þessarar flugvélar. Nú var þessi flugvél með nýjum mótorum og nýjum vængjum og talin mjög góð vél, með því betra sem gerist um þessa gerð af flugvélum. En ef við tækjum nú og bærum saman þær tryggingar, sem eru á Flugleiðavélum, og endurmetinn flugvélakost, þá er ég hræddur um að eitthvað vanti upp á verðið þar. Þá er eðlilegt að Arnarflugsmenn spyrji, eins og ég heyrði einn þeirra segja fyrir nokkrum dögum: Eru það bara Flugleiðir sem mega fá opinbera fyrirgreiðslu? Nú er ekki verið að fara fram á ríkisábyrgð eða peningaeftirgjöf eða framlag frá íslensku þjóðinni eða erlendum aðilum. Þetta er eðlileg yfirtaka á fyrirtækinu og eins og hún gengur fyrir sig á milli félaga, hvort sem það eru flugfélög eða önnur. Að sjálfsögðu verða öll fyrirtækin að nota peningastofnanir. Má enginn í þessari atvinnugrein, fluginu, gera ráð fyrir að njóta fyrirgreiðslu eins og annar? Það er erfitt á stundum það hafa hv. þm. orðið varir við, fyrir mig að vera „sjálfstæðismaður.“ En hvernig sem við tölum í þessum málum eða öðrum er það grundvallarhugsjón og stefna Sjálfstfl. að standa að frelsi einstaklingsins til athafna — og hví ættum við þá að segja að einhver megi og annar megi ekki reka flugvélar? Ég er búinn að standa í stórstríði við skiparekstur. Það er komið að samkomulagi á þeim vettvangi, mjög ánægjulegri samkeppni og á margan hátt samstarfi. Hví ætti það ekki að geta orðið líka í flugrekstri?

Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. frummælanda, að Arnarflug á framtíð fyrir sér og þar er duglegt fólk. Þeir eru ekki að fara fram á neina fyrirgreiðslu frá opinberum aðilum. Þeir eru bara að biðja um að fá að starfa. Á Alþingi eða ríkisstj. að koma í veg fyrir það? Að mínu mati alls ekki. Það verða fleiri en einn aðili að eiga aðgang að atvinnugreinum sem þjóðin þarf. Við komumst ekki af án flugvélaflota, langt úti í hafi og einangruð þjóð ef við hefðum ekki flugvélar og duglega og hugmyndaríka menn.

Það komu fram hjá frummælanda nokkur orð um lausaskuldir Iscargo og hann sagðist hafa skuldalista félagsins. (Gripið fram í.) Þá hef ég skrifað þetta rangt. En hann talaði um lausaskuldir. Af hverju skyldi hann hafa vitneskju um lausaskuldir umfram veð á fyrirtæki sem er að hætta rekstri og fara frá bankanum sem viðskiptavinur? Það komu margar upplýsingar fram og eru tilheyrandi þeim samningum sem nú er verið að gera. Allar þessar upplýsingar, sem eru trúnaðarmál innan Útvegsbankans og trúnaðarmál með þeim sem eru að semja, liggja þannig á borðinu sem opinber gögn. Síðan er vitnað í að fyrirspyrjandi hafi ekki upplýsingar um skuldir í óðrum peningastofnunum, hann nefndi Landsbanka Íslands. Hvernig stendur á því, úr því á annað borð eru komnar fram upplýsingar, sem eru trúnaðarmál fyrirtækisins og þeirrar peningastofnunar sem kemur inn í þessa uppstokkun, að upplýsingar um viðskipti við aðrar peningastofnanir liggja þá ekki líka á borðinu? Þetta er athyglisvert. (ÁG: Það er ekki á það bætandi.) Ég skal ekki segja hvort það er á það bætandi. Þetta áttu aldrei að vera opinber gögn. Ég sem flugráðsmaður er með þetta merkt sem trúnaðarmál og veit ég þó sem bankaráðsmaður að öll mál, sem rædd eru í bankaráðinu, eru trúnaðarmál. En þessi gögn eru sérstaklega merkt. Gögn, sem við fáum á bankaráðsfundi, eru yfirleitt ekkert merkt. Við vitum að þau eru trúnaðarmál. Það var vitnað í samninga sem eru trúnaðarmál innan bankans. Er það misskilningur að það hafi verið vitnað í slíka samninga hér áðan? Ég veit ekki hvaðan þetta kemur.

En það var líka talað um hvort stjórn Arnarflugs hefði heimild til að veðsetja eignir félagsins án samþykkis allra í stjórn félagsins. Það er ekki. Arnarflugsstjórnin hefur ekki heimild til að veðsetja eignir félagsins nema með samþykki stjórnarinnar allrar. En meiri hl. stjórnar félagsins hefur heimild til að kaupa og selja. Það er heimild fyrir meiri hl. stjórnar að gera kaupsamþykkt. Það þarf ekki að bera á hana einhvers konar glappaskot í störfum þess vegna. En er þetta svo rétt, sem þeir gera þarna, að kaupa Iscargo? Ég segi eins og ráðh.: Það er þeirra mál. Við höfum þó það athafnafrelsi enn þá, að Alþingi Íslendinga og opinberir aðilar eiga ekki að skipta sér af því, hvort menn semja svona eða á hinn veginn sín á milli, menn eða félög. Það væri slæmt ef ástandið væri þannig. Það þarf einfalda stjórnarákvörðun til að þessi kaup geti farið fram. Hitt er svo annað mál, að það er bankans að meta hvort þau plögg eða þau veð, sem viðkomandi kaupandi býður, eru eins góð og þau sem bankinn er að láta af hendi. Það er mat stjórnar Útvegsbanka Íslands að svo sé, enda höldum við í Útvegsbankanum áfram þeim veðum sem voru frá einstaklingum í Iscargo þó að Iscargo hætti viðskiptum við bankann.

Ég vil mótmæla því, að af þessu máli sé vond lykt, óeðlilegt samkrull í fjármálum. Hver á að dæma um það? Þetta eru frjáls félög í frjálsu landi. Hver getur dæmt og hver getur fullyrt svona? Það verður að koma eitthvað meira en fullyrðingin um að hér sé eitthvað óeðlilegt á ferðinni.

Ég skal ekki hafa þessi orð miklu fleiri. En ég vil endurtaka að ekki á neinu því stigi. sem ég hef heyrt um þetta mál, hvorki í flugráði — ég er flugráðsmaður — né heldur í bankanum, sem hér á hlut að máli, hef ég orðið var við afskipti ráðh. Ég hef ekki orðið var við þau. Og ég er ekki einn um það í bankaráði bankans.

Það var fundur um hádegi í dag um þessi mál, þar sem bankastjórnin kynnti þetta mál og gaf bankaráðinu tækifæri til að ræða það fram og til baka og leita upplýsinga umfram þær sem við höfðum þegar fengið. Við teljum að bankastjórn Útvegsbankans hafi gætt hagsmuna bankans vel í þessu máli.

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi þetta ekki lengra að sinni, nema tilefni gefist til seinna að standa þá aftur upp og bæta einhverju við.