11.03.1982
Sameinað þing: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3024 í B-deild Alþingistíðinda. (2553)

Umræður utan dagskrár

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Engin afskipti haft af málum, vil engin áhrif hafa, sagði hæstv. samgrh. Ríkið á stóran hlut í Flugleiðum og þar með í Arnarflugi. Af þeirri ástæðu einni leiðir að hæstv. ráðh. hefur verið með í þessum málum öllum. Auk þess er það einkennileg tilviljun, eins og reyndar hefur komið hér fram, ef ráðh. vill engin áhrif hafa, að fundir voru í rn. bæði fyrir og eftir samningafundi hjá Iscargo og Arnarflugi og í beinu framhaldi af þeim fundum. Flugleyfi eru ekki til sölu, sagði hæstv. ráðh. En hvers vegna eiga þessi viðskipti sér þá stað? Hvaða nauðsyn rekur Arnarflug til að kaupa umræddar eignir önnur en sú að fá Amsterdam-leyfið frá Iscargo? Það eru engin not fyrir flugvélina, sem er aðalhluti eignanna. Það eru engin not fyrir þessi hús.

Að flestra mati er kaupverðið allt of hátt, líklega 10–12 millj. kr. of hátt. Reyndar var það rækilega undirstrikað af hv. 3. þm. Reykv. Og hvað er það annað en kaup á leyfi ef eignirnar eru keyptar á svo miklu yfirverði? Hæstv. ráðh. hafði áður lýst yfir að Iscargo mundi skrifa bréf, þar sem það afsalaði sér þessu leyfi, og að Arnarflug mundi líka skrifa bréf, þar sem sótt yrði um þetta leyfi. Áðan lýsti hæstv. ráðh. yfir að þessi bréf væru komin. Hann var líka búinn að lýsa því yfir áður, að hann mundi fallast á hvort tveggja, hann mundi fallast á að taka við leyfinu hjá Iscargo og afhenda Arnarflugi það. Hvað er þetta annað en að selja leyfið?

Það kom fram hjá hv. 10. þm. Reykv. að mikill hringlandaháttur væri í stefnunni í flugmálum. Flugleyfum er úthlutað til þriggja flugfélaga, algjörlega í mótsögn við þá stefnu sem ríkisvaldið hefur áður haft uppi. Á hinn bóginn er stuðlað að því að sameina þessi flugfélög aftur. Það er verið að fjölga þeim og fækka sitt á hvað. Og í báðum tilvikum notar hæstv. ráðh. útgáfu flugleyfa til þess að koma áhugamálum sínum fram. Allt ætlar af göflum að ganga vegna nokkurra leyfa til leigubílaaksturs sem hafa gengið kaupum og sölum, menn a.m.k. ætla það. Þá ætlaði allt að verða vitlaust í rn. Á sama tíma beitir rn. sér fyrir því í reynd að verslun með flugleyfi fari fram í stórum stíl og fyrir ekki neina smáaura. Eins og ég sagði er þarna líklega um að ræða leyfi sem metið er á 10–12 millj. kr. samkv. þessum samningi. Nú er það svo, að bæði þessi flugfélög, sem hér hefur verið talað um, eru mjög tengd Framsfl. Bara út af því vekur þetta grunsemdir. Það er mannlegt, eins og kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv., að vilja hjálpa samherjum í nauð. En stóra spurningin er: Hversu langt getur ráðh. gengið í að nota eða misnota vald sitt til þess að koma þessu í gegn?