11.03.1982
Sameinað þing: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3027 í B-deild Alþingistíðinda. (2556)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil í fyrstu leyfa mér að harma að hér skuli koma fullyrðing um að ráðh. hafi misnotað ráðherravald sitt. Þetta er svo alvarleg fullyrðing að ég held að þurfi að færa fram meira í þessu máli en bara að fullyrða. Það verður að koma fram eitthvað sem sannar að ráðh. hafi misnotað sitt ráðherravald. Það er sérstaklega ætlast til þess samkvæmt stjórnarskránni að slík málsmeðferð fari í ákveðinn farveg í rannsóknum. Ef ásökun kemur fram og sá sem ásakar færir ekki fullyrðingu sinni stað, ef ég man rétt, er hann talinn sekur. Ég held að þurfi að koma eitthvað meira fram en fullyrðing. Það þarf að sanna slíkar ásakanir. Það er allt of algengt að menn fullyrði svona út í bláinn, hver sem situr í ráðherrastól.

Ég gat þess áðan að ég hefði ekki orðið var við afskipti ráðh. í þessu máli, hvorki sem flugráðsmaður né heldur sem bankaráðsmaður, og tala ég þá að sjálfsögðu sem þm. því ég er sem þm. í bankaráði Útvegsbanka Íslands. En ég harma að þetta tal skuli snúast þannig að ráðh. þurfi að koma hér upp og sanna sakleysi sitt. Það er furðulegt. En það er annað sem ég verð að harma líka, að sami hv. þm., 9. þm. Reykv., fullyrti, og hafði það eftir mér, að Útvegsbankinn hafi gripið inn í málið til að koma í veg fyrir að menn yrðu öreigar, og spyr svo hvers vegna. Þetta er rangt eftir mér haft. Hv. 9. þm. Reykv. hefur ekki hlustað á orð mín. Að sjálfsögðu hefði bankinn gengið að þeim veðum og tryggingum sem einstaklingar höfðu lagt fram til tryggingar skuldum Iscargo, og það hefði þýtt að viðkomandi aðilar hefðu tapað öllum sínum eignum. Það þýðir ekki að það hafi vantað upp á að bankinn hafi fengið sitt, en einstaklingarnir hefðu setið eftir með tómar hendur. En við það, að nýr og betri skuldari var fyrir hendi á lokastigi þessa máls, kaus bankastjórnin heldur að yfirfæra skuldir Iscargos yfir á þennan nýja skuldara, Arnarflug, en ganga að þeim einstaklingum sem sett höfðu þarna persónulega sínar eignir að veði. — Ég vona að ég hafi leiðrétt þennan misskilning og hv. þm. sé mér sammála um að hann hafi tekið þarna vitlaust eftir.

Ég gerði ekki flugmálastefnu að umræðuefni í þessum ræðustól, nema að því gefna tilefni sem kom frá hv. þm. Friðrik Sophussyni, sem ræddi um flugmálastefnu allt aftur í þær breytingar sem gerðar voru í tíð fyrrv. ráðh. Hannibals Valdimarssonar.

Ég vil líka með nokkrum orðum undirstrika það og leiðrétta sama misskilning hjá hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni, 5. þm. Suðurl., að það er að sjálfsögðu mannlegt að hjálpa nauðstöddum í neyð, en ég álít að bankinn hafi bara verið að taka tryggari skuldara. Þetta var ekki bein björgunarstarfsemi á neinum eða einum. Bankinn var að sjálfsögðu að gæta sinna hagsmuna. Ég undirstrika að bankastjórnin gerði það vel. En að sjálfsögðu hjálpum við þeim sem eru í neyð og þurfa á aðstoð að halda, í hvers konar neyð sem þeir eru. Með því að taka þennan betri skuldara var bankinn ekki að gera neitt annað en að koma í veg fyrir að einstaklingar yrðu þannig útleiknir, eins og ég gat um áðan, án þess að bankinn yrði fyrir nokkru tjóni. Ég tel það mannlegt, tel það sjálfsagt. Hefði bankinn átt þetta tækifæri og ekki notað það, en gengið að þessum einstaklingum, hefði mér liðið afskaplega illa og ég hefði talið að bankastjórnin hefði staðið illa að verki og komið skammarorði á okkur sem erum í bankaráði fyrir hönd Alþingis.

Ég vona, að ég hafi með þessu svarað hv. þm. Eiði Guðnasyni líka, og vík þá — með leyfi forseta — að Dagblaðinu í dag og leyfi mér að lesa þar forsíðufrétt, en það er fyrirsögnin „Kaup Arnarflugs á lscargo til umræðu á Alþingi í dag: Ýmsir hafa óeðlileg afskipti af málinu-segir Árni Gunnarsson alþm. Hlýt að draga þá ályktun að þarna hafi verið verslað með áætlunarflugleyfi.“ Mér þykir það ótrúlegt, en ég veit að hv. þm. er einfær um að finna þessum orðum sínum stað. En ég ætla þá að halda áfram og lesa greinina og svara þarna því sem snýr að Útvegsbankanum og þarna kemur fram sem spurningar. Til þess þarf ég að lesa alla greinina:

Árni Gunnarsson alþm. hefur óskað eftir utandagskrárumræðu á Alþingi í dag um kaup Arnarflugs á Iscargo.

„Ég ætla að fjalla um þau atriði sem snerta ríkisvaldið í þessu máli,“ sagði Árni Gunnarsson í samtali við Dagblaðið í morgun. „Ríkið hefur þarna víða inn í málið.“ Þarna vantar orð inn í. Líklega á að standa: „Ríkið hefur þarna víða gripið inn í málið.“ Það á t.d. 20% hlutafjár í Flugleiðum sem aftur eiga 40% í Arnarflugi. samgrh. hefur einnig haft afskipti af þessum málum, sem ég tel ekki eðlilegt og ég hlýt að draga þá ályktun að þarna hafi verið verslað með áætlunarflugleyfi. Einnig kemur þarna líka til sögunnar ríkisbanki, Útvegsbankinn, sem hefur nýverið fengið stórkostlega aðstoð til að rétta sig úr miklum vanda. Það hlýtur að vakna sú spurning, hvort allt hafi verið með felldu varðandi viðskipti Iscargo við Útvegsbankann.“

Ég get fullvissað hv. þm. um að það var allt með felldu. Það var ekkert sem gefur til kynna í þessu máli að það þurfi að slá högg undir belti með því að gefa í skyn að þarna sé eitthvað ekki með felldu í bankanum og það fé, sem bankinn fékk til að rétta sig nóg við og bæta stöðu sína og rekstrarmöguleika með, hafi verið notað í þessum tilgangi. Það var ekki gert, og ég kem seinna að því. En ég held áfram með greinina, með leyfi forseta:

„Ég er ekki að halda því fram, að ekki hafi þar verið allt með felldu, en þessi mál verður að skoða.“— Ég býð virðulegum þm. að skoða þessi mál með mér í trúnaði og hann getur fengið að vita það sem ég veit um málið, en í trúnaði.

„Í kaupsamningnum“ — ef ég má með leyfi forseta halda áfram — „er gert ráð fyrir að Arnarflug yfirtaki skuldir Iscargo við Útvegsbankann, en mér sýnist á öllu að Arnarflug hljóti að verða að fá einhverja meiri fyrirgreiðslu til kaupanna því því er ætlað að greiða út umtalsverðar fjárhæðir í peningum og með víxlum.“ — Ég vil upplýsa virðulegan þm. og Alþingi um að ekkert nýtt fé fer frá Útvegsbanka Íslands í því samkomulagi sem er gert milli þeirra tveggja félaga sem eru til umr. og Útvegsbankans hins vegar. Það kemur ekkert nýtt fé frá Útvegsbankanum í þessu máli. Hvort Arnarflug eða Iscargo hefur fyrirgreiðslu annars staðar segi ég ekkert um. Ég er ekki í neinni aðstöðu til að fullyrða um það. Með leyfi forseta held ég áfram greininni:

„Það vaknar einnig sú spurning, hvort félag, sem er með 1.2 millj. í hlutafé, geti gert samning upp á 29 millj. kr. án þess að bera það undir hluthafafund.“— Ég held að það sé öllum ljóst að rekstrarstjórnir hlutafélaga hafa fulla heimild til að gera svona ráðstafanir og kaup ef þeir hafa tækifæri til þess án þess að bera það undir hluthafafund, og það er alveg óháð því hvað útborgað hlutafé er mikið í félaginu. Hitt er annað mál, að það þarf í mörgum tilfellum samþykki hluthafafundar til að selja eignir hlutafélaga. Ég gæti vel trúað því, að Arnarflug hefði ekki heimild til að selja eða veðsetja eignir án þess að stjórnin öll, er mér sagt, eða í sumum tilfellum hluthafar leyfi það. Hvað halda menn að mikið af því hlutafé, sem er í Flugleiðum —þær hafa komið hér mikið á dagskrá — sé innborgað hlutafé? Mest af því er uppsafnað jöfnunarhlutafé. Þetta eru bara eignir vegna rekstrar félagsins, sérstaklega á þeim árum sem það gekk vel, sem gera það að verkum að hlutafjáreign eigenda er miklu meiri í krónutölu en nokkurn tíma var borgað inn í peningum sem hlutafé.

Ég vildi ekki láta þessu ósvarað úr því ég rakst á Dagblaðið eftir að ég kom upp í ræðustólinn í fyrra skiptið. Ég vona að ég hafi svarað þeim spurningum sem hv. þm. spyr í þessari Dagblaðsgrein frá því í dag. Ég ítreka það alveg sérstaklega, að það eru ekki ný lán frá Útvegsbanka Íslands í sambandi við þessar yfirfærslur.