02.11.1981
Efri deild: 8. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

7. mál, útvarpslög

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég kem nú hér í ræðustól og mæli ekki fyrir munn þingflokks Alþb. þar sem ekki hefur verið fjallað um þetta frv. þar, heldur að sjálfsögðu frá eigin brjósti og samkv. bestu samvisku, svo sem þingmanni hlýðir og heyrir.

Ég er andvígur þessu frv. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að okkur beri nú að ráðstafa þeim fjármunum, sem fyrir hendi eru, og afla þeirra, sem á skortir, til þess að gera sjónvarpið sæmilegt með núverandi útsendingartíma, en stytta dagskrá þess ella, ef við náum ekki í þá fjármuni að því marki að starfsmenn sjónvarpsins geti með því fé, sem þeir hafa undir höndum, gert dagskrá þess mjög vel úr garði.

Mér er kunnugt um það, að ekki er þann veg búið að starfsmönnum stofnunarinnar, hvorki um fjármuni né vinnutíma- og við skulum bæta við hvað laun snertir, að hægt sé að ætlast til að þeir við núverandi aðstæður geti gert dagskrá sjónvarpsins — með þeim mikla hluta erlends efnis sem þar flýtur — vel úr garði. Það er ekki bara að Ríkisútvarpið sendi út í sjónvarpi jafnmikinn hluta og raun ber vitni um á leiknu erlendu máli í stað þess að leggja í þann kostnað sem til þyrfti, ef þetta ætti að vera sæmilega rekið innlent sjónvarp, að textasetja útvarpsefnið á íslensku, þ. e. fá innlennt tal yfirleitt með því, sem kostar geysilegt fé, — það er ekki aðeins þetta, heldur er hinn áprentaði texti, sem myndunum fylgir, oft og tíðum bókstaflega fyrir neðan allar hellur. Ég gæti nefnt eftir minni fjölmörg dæmi um andkannalegar og rangar þýðingar. Þessi dæmi koma ekki málinu við raunverulega sem við stöndum að hér, heldur hitt, að ég er alveg viss um — að hér er ekki um viljaskort að ræða af hálfu starfsmanna stofnunarinnar, ekki vanþekkingu heldur, en fyrst og fremst um skort á vinnuafli og tíma.

Svo koma persónuleg viðhorf mín sem ég hef enga ástæðu til þess að ætla að meiri hluti Íslendinga sé sammála. Ég hef þó rökstuddan grun um að þeir séu býsna margir, sem virðist léttir að því, eins og hv. þm. Þorv. Garðar sagði frá, að fá frí um mitt blessað sólríka sumarið frá sjónvarpi. Það má segja sem svo að mönnum sé það frjálst og hafi verið lengi að skrúfa fyrir sjónvarpið sitt og fara burt frá því, það er alveg rétt. En við söknum þess félagsskapar sem við áður áttum í nærveru annarra góðra manna sem búa einnig við þetta tæki. Það sama gildir um þennan eina sjónvarpsfrídag í viku. Mín vegna mættu þeir vera fleiri, ef við bættum þá um betur í staðinn, legðum af mörkum það fé sem þarf til þess að sjónvarpsdagskráin gæti þá verið þeim mun betri. Að einu skulum við gá. Þegar ég er að tala um hugsanlega styttingu sjónvarpsdagskrár er ég líka að tala um vinnu fólks, sem við höfum ráðið til starfa, og kjör þess. Það þurfum við að hafa í huga þegar um mál sem þetta er fjallað.

Ég hefði sennilega látið hjá liða að koma hér upp í ræðustól til að andmæla frv. því sem hv. þm. Eiður Guðnason mælti hér fyrir, ef ekki hefði verið um niðurlagið að ræða sem ég hlýt að taka undir mjög eindregið með svipuðu formi og hv. þm. Haraldur Ólafsson, en bæta þó einu við sem í vitund minni varðar mjög miklu. Hér er um að ræða að það á sér stað stórþjófnaður á almannavitorði, þjófnaður á höfundarétti, og auk þess arði af starfi tæknistarfsmanna og listamanna sem unnu að gerð sjónvarpsdagskrár sem stolið hefur verið og síðan er verið að dreifa um landið. Ég get ekki legið bæjarstjórnum og þá ekki heldur borgarstjórn Reykjavíkur mjög á hálsi fyrir að rísa ekki upp til aðgerða í slíku máli þegar rétthafinn og réttargæsluaðilinn, sem er yfirstjórn Ríkisútvarpsins, þar með talin hin æðsta yfirstjórn Ríkisútvarpsins, lætur ekki aðeins hjá liða að mótmæla og hefja eðlilegar aðgerðir í þessu máli, heldur lætur sér sæma í opinberum viðtölum, þ. á m. í sjónvarpi, að gefa mjög eindregið í skyn að við þetta hljóti yfirstjórn Ríkisútvarpsins að sætta sig. Við hverju er þá að búast af bæjarstjórnum, bæjar- og borgarverkfræðingum eða öðrum slíkum?

Ég bar fram till. í þingmáli um málefni Ríkisútvarpsins fyrir tveimur árum — einmitt til viðauka við þingmál sem hv. þm. Eiður Guðnason flutti — á þá lund, að taka bæri upp að nýju einkarétt Ríkisútvarpsins á innflutningi á útvarpsviðtækjum og sjónvarpstækjum. Vitaskuld láðist mér að bæta við myndsegulbandstækjum og myndsegulbandsspólum.

Nú er svo komið að við hljótum að leita nokkurra ráða til þess að hefta þá þróun sem nú á sér stað, ekki fyrst og fremst raunar til þess að vernda einkarétt Ríkisútvarpsins til útsendinga á útvarpsefni og sjónvarpsefni á landi hér, heldur til þess í fyrsta lagi að hafa hemil á innflutningi og dreifingu á mismunandi sjónvarpsefni-þar sem ég held að hv. þm. Eiður Guðnason hafi síst ýkt mjög grófa lýsingu sína á því sem hér á sér stað — og einnig til þess að vernda höfundarétt og arðbæran einkarétt þeirra starfsmanna sem unnið hafa að gerð sjónvarpsefnis sem stolið hefur verið og nú er í dreifingu með þessum hætti.

Ég hef ekki hugsað það mál til hlítar og verð reyndar að viðurkenna það, að ég hef ekki til að bera lögfræðilega þekkingu prívat og persónulega út af fyrir mig til þess að átta mig gjörla á því, með hvaða hætti slíkt verður gert. En ég vildi gjarnan í samstarfi við góðgjarna og vitra þingmenn, sem jafnvel finnast í öðrum flokkum, standa að flutningi þáltill. eða lagafrv., ef við fáum tæknilega aðstoð, sem til þarf, á þá lund, að eftirliti verði komið á og eðlilegum hemli með einum eða öðrum hætti. Þá vildi ég helst að það yrði í formi einkaréttar til Ríkisútvarpsins á innflutningi fyrst og fremst á myndsegulbandsspólum með vernduðu efni og jafnvel einnig á myndsegulbandstækjum ef vera mætti að við gætum þá kannske bætt eitthvað efnahag og fjárhagslega stöðu sjónvarpsins með eðlilegu gjaldi af slíkum innflutningi, þar sem fyrst og fremst yrði þá kappkostað að koma réttmætum arði til lögmætra eigenda að höfundarétti og gjaldhlutfalli í þessu efni.

Herra forseti. Ég hef nú gerst svo djarfur öðru sinni þegar á þessu þinghausti að greina frá því, að ég ætli að flytja þingmál. Ég held að ég verði að gefa fyrirheit um, að það muni ekki dragast langt fram í næstu viku.