15.03.1982
Efri deild: 55. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3050 í B-deild Alþingistíðinda. (2572)

108. mál, vátryggingastarfsemi

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 50/1978, um vátryggingarstarfsemi. Frv. gerir ráð fyrir að heimilt verði að ætla tryggingafélögunum að greiða allt að 2.5% af frumtryggingariðgjöldum og 0.6% af fengnum endurtryggingariðgjöldum til Tryggingaeftirlitsins.

Í frv. segir: „Fyrir 1. des. ár hvert skal Tryggingaeftirlitið gera rökstudda áætlun um kostnað af starfsemi sinni næsta ár og um iðgjaldatekjur vátryggingarfélaganna á líðandi reikningsári sem álagningarstofn næsta fjárlagaárs.“

Kostnaði Tryggingaeftirlitsins skal jafna á vátryggingarfélög með þeim hætti sem ég lýsti hér áðan, að lagt verði ákveðið gjald á frumtryggingariðgjöld og fengin endurtryggingariðgjöld.

Þetta frv. er flutt vegna þess, að á undanförnum árum eða allt frá því að Tryggingaeftirlitið var stofnað hefur verið greitt verulegt fé úr ríkissjóði með starfsemi Tryggingaeftirlitsins, enda þótt lögin um Tryggingaeftirlitið, lögin um vátryggingarstarfsemi, geri ráð fyrir því, að Tryggingaeftirlitið eigi í rauninni að standa undir sér sjálft eða vátryggingarfélögin undir starfsemi þess.

Frv. er flutt til þess að brúa bil sem orðið hefur, þannig að ríkissjóður þurfi ekki í framtíðinni að taka á sig veruleg gjöld vegna starfsemi Tryggingaeftirlitsins.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég vil þó geta þess, að um það náðist gott samkomulag í hv. Nd. svo og við fulltrúa tryggingafélaganna og annarra sem um þetta mál þurfa að véla.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.