15.03.1982
Neðri deild: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3056 í B-deild Alþingistíðinda. (2589)

188. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hæstv. forsrh. er gert ráð fyrir að gengismunurinn, sem myndast við þær ráðstafanir sem gerðar voru við ákvörðun Seðlabankans um breytingu á gengi krónunnar 14. jan., renni til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Út af fyrir sig er Verðjöfnunarsjóðnum fullkomin þörf á gengishagnaði sem þarna myndast og þó meira hefði verið, því að Verðjöfnunarsjóðurinn hefur verið leikinn grátt á undanförnum árum og alveg sérstaklega í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Því fjármagni, sem hefur verið inni í flestum aðaldeildum hans, hefur verið eytt og stofnað til skulda. Staða þessa sjóðs er því nú vægast sagt mjög slæm. Þó er því ekki að neita að ákveðnar deildir og þá sérstaklega skreiðardeildin standa nokkuð vel, en í frystideild, mjöldeild og fleiri smærri deildum er nánast ekkert eftir til að mæta áföllum sem verða á mörkuðum. Hlutverk þessa sjóðs er því vægast sagt gerbreytt frá því sem því upprunalega var ætlað að vera með tilkomu Verðjöfnunarsjóðsins.

Hinu vildi ég vekja athygli á, að þegar gengisbreytingar hafa verið gerðar hefur þeim, sem bera skarðan hlut frá borði við gengisbreytingar, eigendum fiskiskipa almennt sem skulda í þessum skipum í erlendri mynt, að nokkru verið bætt upp sú skuldaaukning sem þeir óhjákvæmilega verða fyrir þegar gengi krónunnar er breytt, þannig að þeirra óhagræði verður heldur minna, og eins hefur nokkuð verið gert til að koma á móts við þarfir sjómannasamtakanna í félagslegu tilliti fyrir sjómannastéttina. Fram hjá þessu er algjörlega gengið nú með framlögðu frv.

Ég vildi aðeins benda á þessi atriði þó að ég viðurkenni fúslega að hag Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðar er svo komið að honum veitir ekki af þessum gengishagnaði öllum og þótt meira hefði verið, eins og ég sagði í upphafi máls míns.