16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3071 í B-deild Alþingistíðinda. (2604)

324. mál, opinber stefna í áfengismálum

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 324 leyft mér að leggja fsp. fyrir félmrh. um það, hver hefðu orðið áhrif viðskiptakjara á verðbætur á laun á s.l. ári ef Ólafslög svokölluð hefðu verið í gildi. Ástæðan fyrir því, að þessi fsp. er lögð fram, er einfaldlega sú, að engar upplýsingar lágu fyrir um það, hvorki hjá Þjóðhagsstofnun né Hagstofu Íslands, hvernig viðskiptakjörin breyttust á s.l. ári. Það áleit ég óeðlilegt. Þar sem ég gat ekki fengið slíkar upplýsingar með eðlilegum hætti átti ég ekki annarra kosta völ en að flytja fsp. þessa með þinglegum hætti í Sameinuðu þingi.

Forsaga þessa máls er sú, að með Ólafslögum, sem samþykkt voru 10. apríl 1979, var ákveðið að það skyldi hafa áhrif á kaupgjaldsvísitölu hvernig viðskiptakjörin út á við breyttust frá einum tíma til annars. Þetta var rökstutt á þann einfalda hátt, að eðlilegt væri að launþegar nytu þess, ef hagur þjóðarbúsins í heild færi batnandi, á sama hátt og færð voru fyrir því rök, að ekki væri grundvöllur fyrir launahækkunum á sama tíma og útflutningsafurðir okkar lækkuðu í verði eða innflutningurinn hækkaði í erlendri mynt. Ég skal ekki hafa frekari orð um hversu eðlileg sú lagabreyting var, en á sínum tíma var meiri hluti fyrir því hér á Alþingi að samþykkja hana.

Eins og menn muna var á gamlársdag 1980 tilkynnt um að gefin hefðu verið út brbl. sem fólu m.a. í sér 7% skerðingu kaupgjaldsvísitölunnar 1. mars bótalaust. Jafnframt var svo ákveðið að verðbætur á laun samkv. 51. gr. Ólafslaga, þar sem talað er um viðskiptakjörin, skyldu ekki reiknaðar hinn 1. júní, 1. sept. og 1. des. Fsp. mín er svohljóðandi:

„Hver hefðu orðið áhrif 51. gr. laga nr. 13 10. apríl 1979 á verðbætur á laun 1. júní, 1. sept. og 1. des. 1981, ef viðskiptakjörin hefðu verið reiknuð inn í kaupgjaldsvísitöluna?

2. Hver verða áhrif þessarar lagagreinar á kaupgjaldsvísitöluna 1. mars n.k.?“

Eins og síðari spurningin ber með sér er nokkuð síðan þessi fsp. var lögð fram hér á Alþingi.