16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3072 í B-deild Alþingistíðinda. (2605)

324. mál, opinber stefna í áfengismálum

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. Halldór Blöndal gat um er nokkuð síðan fsp. var lögð fram á Alþingi og fyrir liggur nú samkv. opinberum útreikningum kauplagsnefndar og Hagstofu hver frádrátturinn var vegna skerðingarákvæða Ólafslaga 1. mars s.l., þannig að ég ætla ekki að fjölyrða um þann lið fsp. En fyrri liður fsp. er þessi:

„Hver hefðu orðið áhrif 51. gr. laga nr. 13 10 apríl 1979 á verðbætur á laun 1. júní, 1. sept. og 1. des. 1981, ef viðskiptakjörin hefðu verið reiknuð inn í kaupgjaldsvísitöluna?“

Nú var það þannig, að á árinu 1981 voru þessi skerðingarákvæði Ólafslaga ekki í gildi. Þau voru afnumin frá og með áramótunum þar á undan og af þeim ástæðum voru þessir frádráttarliðir ekki reiknaðir út á árinu 1981 af Hagstofunni né heldur af Þjóðhagsstofnun. Þess vegna er það í raun og veru ekki fyrr en núna sem liggja fyrir alveg óyggjandi niðurstöður í þeim efnum, hvaða áhrif þessir frádráttarliðir hefðu haft á kaupið hefðu þeir verið í gildi á síðasta ári.

Ég vil fyrst taka það fram, að það málefni, sem hér um ræðir, heyrir i raun undir Hagstofu Íslands og kauplagsnefnd, en Hagstofan heyrir undir núv. hæstv. forsrh. En samkv. upplýsingum, sem borist hafa frá Hagstofu Íslands, segir á þessa leið í bréfi frá hagstofustjóra:

„Samkv. lauslegri áætlun Þjóðhagsstofnunar hefðu áhrif viðskiptakjarabreytingar á verðbótahækkun launa orðið sem hér segir frá og með eftirtöldum greiðslutímabilum, ef ákvæði 51. gr. laga nr. 13/1979 hefðu þá verið í gildi:

1. júní 1981: Áhrif til hækkunar verðbóta á laun sem svara 0.9% 1. sept. 1981: Áhrif til hækkunar verðbóta á laun sem svara 0.6%. 1. des. 1981: Áhrif til lækkunar verðbóta á laun sem svara 0.2%. “ — Það er hækkun í hinum tilvikunum báðum, en lækkun 1. des. Síðan segir orðrétt áfram í bréfi hagstofustjóra: „Áhrif viðskiptakjarabreytingar til lækkunar á verðbótahækkun launa frá 1. mars 1982 urðu 0.6% samkv. útreikningi kauplagsnefndar.“

Hér er sem sagt um að ræða tilvitnun í svar Hagstofu Íslands. (MÁM: Vill ráðh. endurtaka síðasta svarið?) 1. mars er viðskiptakjarabreytingin 0.6% lækkun. Síðan aflaði ég upplýsinga um aðra frádráttarliði Ólafslaga á s.l. ári, hvernig þeir hefðu komið út, en eins og hv. þm. er kunnugt var einnig um að ræða sérstakar reglur varðandi meðferð á hækkun áfengis og tóbaks annars vegar og hækkun á launalið búvörugrundvallarins hins vegar. Ég spurðist fyrir um þessa liði og svörin eru sem hér segir:

1. júní 1981 hefðu viðskiptakjör hækkað laun, eins og ég sagði áðan, um 0.9%. Áfengi og tóbak hefðu lækkað laun um 0.31 %, en launaliður búvörugrundvallar hefði lækkað laun um 0.39%. Áhrifin af Ólafslagavísitölunni hefðu þá orðið hækkun á kaupi um 0.2% þegar allt er tekið saman 1. júní 1981. 1. sept. 1981 lítur dæmið þannig út, að viðskiptakjörin hefðu valdið hækkun á verðbótavísitölu um 0.6%, eins og ég sagði áðan. Aftur á móti hefðu laun lækkað um 0.49% vegna hækkana á áfengi og tóbaki og laun hefðu að auki lækkað um 0.53 % vegna launaliðar í búvörugrundvelli þannig að skerðingarákvæði Ólafslaga hefðu haft í för með sér 0.42 % lækkun á kaupi 1. sept. 1981. 1. des 1981 hefðu áhrifin aftur á móti orðið þau, að viðskiptakjörin hefðu lækkað verðbótavísitöluna á laun um 0.2%. áfengi og tóbak hefði enn lækkað vísitöluna um 0.5%, en launaliðurinn í búvöruverði hefði lækkað vísitöluna um 0.58% þannig að vegna skerðingarákvæða Ólafslaga hefði heildarlækkun launa 1. des. s.l. orðið 1.28% .

Samkv. þessu yfirliti hefðu viðskiptakjör á þessum þremur dagsetningum hækkað laun um 1.3%, en það að hækkanaáhrif áfengis og tóbaks komu ekki til framkvæmda á þessum þremur dagsetningum hefði aftur lækkað laun um 1.3% eða sömu prósentutölu. Búvöruverð hefði síðan að auki lækkað verðbótavísitöluna um 1.5% þannig að heildarávinningur launamanna af því að fella niður skerðingarákvæði Ólafslaga nam a.m.k. 1.5% í kaupi á árinu 1981.

Eins og hv. þm. Halldór Blöndal gat um voru gerðar efnahagsráðstafanir um áramótin 1980–1981 og ég ætla í sjálfu sér ekki að fara yfir þær mjög rækilega núna. Það voru felld niður 7% í kaupi 1. mars og var talið að þau kæmu aftur til skila í fyrsta lagi með minni verðbólgu, í öðru lagi með afnámi á skerðingarákvæðum Ólafslaga og í þriðja lagi með skattalækkun. Ég hef haldið því fram annars staðar, að hér hafi verið um að ræða „slétt skipti“ og ég held að það standist fyllilega að launamenn hafi fengið þessi 7% aftur. En ég minni auðvitað á að forsendan fyrir útreikningum okkar um áramót 1980 og 1981 var sú, að viðskiptakjörin væru í raun og veru hlutlaus í kaupútreikningum á árinu 1981. Það var því sú breyting sem gerðist frá því sem menn gerðu ráð fyrir, að viðskiptakjörin fóru heldur batnandi á fyrri hluta ársins 1981, en fóru svo því miður versnandi á síðari hluta ársins og einnig á fyrri hluta ársins 1982.

Ég vænti þess, herra forseti, að ég hafi svarað fsp.