16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3076 í B-deild Alþingistíðinda. (2611)

324. mál, opinber stefna í áfengismálum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég tek til máls nú aðeins til að vekja athygli á yfirlýsingu hæstv. félmrh. Hún er í raun svar við þeim innri átökum sem hafa átt sér stað í ríkisstj. að undanförnu — svar við kröfum Framsfl. og hæstv. utanrrh. á hendur ráðherrum Alþb. um að viðkomandi ráðh., hæstv. utanrrh., fái að fylgja eftir samþykktum Alþingis. Það svar og viðbrögð Alþb.ráðh., sem hér var að tala, er að það verði tekið upp gamla vopnið þeirra, þegar þeir eru í þeirri aðstöðu að þurfa og geta beitt því, að beita „Alþingi götunnar“. Hann hótar úr ræðustól á hv. Alþingi að það skuli verða hvatt til aðgerða í fyllingu tímans til að mótmæla því sem hann kallar nú undir rós kauprán, væntanlegt kauprán, en er ekkert annað í raun en viðbrögð við þeim atburðum sem hafa verið að gerast innan hæstv. ríkisstj. að undanförnu.

Að öðru leyti skal ég taka undir það sem hv. þm., bæði 1. þm. Reykv. og hv. 7. landsk. þm., hafa hér sagt. Það hafa auðvitað aldrei nokkurn tíma í stjórn þessa lands verið framkvæmdar jafnmiskunnarlausar og vísvitandi falsanir á þeim hugtökum sem við látum falla undir t.d. kaupmátt launa. Meira að segja hafa það verið dyggustu stuðningsmenn hæstv. félmrh. sem hafa staðið hér ítrekað upp í ræðustól á Alþingi til að benda á þá svívirðu sem hefur átt sér stað og átti sér stað í kjölfar myntbreytingarinnar, sem er líklega mesta svindlfyrirtæki sem hefur átt sér stað varðandi hag launþega, og bendi ég þar á orð hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur og reyndar fleiri þm. Alþb. að undanförnu. Og ég tek undir áskorun hv. 7. landsk. þm. til ríkisstj., til hæstv. ráðh., um að þeir svari því sem hann fullyrti hér og kom fram hjá honum um verðlagsþróunina frá febr. 1981 til febr. 1982.