16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3078 í B-deild Alþingistíðinda. (2614)

324. mál, opinber stefna í áfengismálum

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Hafi ég haft einhverja von um að hæstv. félmrh. væri að taka framförum og færi batnandi, þá var sú von brostin eftir ræðu hans áðan þar sem hann hótaði enn á ný „Alþingi götunnar“ þegar hann vermdi ekki ráðherrastólinn lengur. Honum er alveg sama þó að hann gangi á rétt launþega og skerði kjör þeirra meðan hann situr í ráðherrastólnum. Hann kaupir setu í ráðherrastólnum því verði að skerða hag launþega, og hann mun sitja í ráðherrastólnum þrátt fyrir storm í vatnsglasi undanfarna daga þar til hann gerist hræddur um völd flokksins innan verkalýðshreyfingarinnar. Það kann að vera, að sú hræðsla grípi um sig fljótar en ætla mætti og þá ókyrrist hæstv. félmrh.

Ég vil vekja athygli á því, að það er ómótmælanlegt að kaupskerðing var 7% frá og með 1. mars á s.l. ári og upp í það er ekki unnt að tína til eitt eða neitt sem máli skiptir nema það sem hæstv. félmrh. sagði, að minnkandi verðbólga yrði auðvitað öllum landsmönnum til gagns og kæmi þeim til góða. Þess vegna var það ákaflega misskilið af honum 1978 að beita sér gegn efnahagsráðstöfunum ríkisstj. sem hefur fært verðbólguna niður fyrir 30% á því ári. Og þess vegna er ákaflega mikill misskilningur hjá hæstv. félmrh. og hæstv. dómsmrh. að telja það til afreka núv. ríkisstj. að hafa komið verðbólgu niður í allt að 40% frá upphafi til loka síðasta árs, vegna þess, eins og hv. 7. landsk. þm. benti á áðan, að engar áreiðanlegar tölur eru til um verðbólguvöxt frá byrjun til loka þess árs. Það er auðvitað hægt að fá út tölu sem kann að vera í lægra lagi með því að hleypa öllum verðhækkunum fram fyrir áramótin 1980–1981 og halda verðlaginu niðri á óraunhæfu stigi fram til áramóta 1981–82, en hleypa svo verðhækkunaröldunni af stað aftur upp úr s.l. áramótum .eins og landsmenn hafa fengið að reyna.