02.11.1981
Efri deild: 8. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

Umræður utan dagskrár

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Það er að gefnu tilefni að ég kveð mér hljóðs um þingsköp, og það er varðandi þá dagskrá sem hér liggur fyrir. Fyrsta mál á dagskrá, Sinfóníuhljómsveit Íslands, hefur verið á dagskránni allar götur frá því 14. okt. eða á 3. fundi Ed., að undanteknum einum fundi, sem var 7. fundur. Það eru tilmæli mín til þeirra sem semja dagskrána, að því sé þann veg fyrir komið að ekki séu sett á dagskrá þan mál sem fyrir fram er vitað að muni ekki verða tekin fyrir, eins og í þessu tilfelli, þar sem hér hefur komið fram að hæstv. menntmrh. hefur fjarvistarleyfi. Þar með hlýtur að hafa legið ljóst fyrir allan þennan tíma að frv. til l. um Sinfóníuhljómsveit Íslands yrði ekki tekið til umræðu á meðan hann er fjarverandi. Að mínu viti er hagkvæmara fyrir þm. að vita nokkurn veginn hvaða mál verða tekin fyrir hverju sinni. Að sjálfsögðu hlýtur tíminn að ráða nokkru, en alla vega þau mál, sem fyrir fram er vitað að verða ekki tekin fyrir verði ekki sett á dagskrána.