16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3085 í B-deild Alþingistíðinda. (2626)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég tel óhjákvæmilegt að rifja upp þá þáltill. um byggingu eldsneytisgeyma fyrir varnarliðið sem í raun og veru er grundvöllur þeirra umræðna sem hafa farið fram um þetta mál sem orðið hefur að ásteytingarsteini sérstaklega milli hæstv. utanrrh. og hæstv. félmrh.

Ég minni á það, að utanrmn. Alþingis varð sammála um afgreiðslu till. til þál. er nokkrir þm. Reykn. fluttu hér á Alþingi. Það voru hv. þm. Ólafur Björnsson, Karl Steinar Guðnason, Matthías Á. Mathiesen, Ólafur G. Einarsson og Salome Þorkelsdóttir.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að vitna til þess, sem ég sagði sem frsm. fyrir hönd utanrmn. í umr. um þetta efni, olíuhöfn og birgðastöð í Helguvík. Það var svohljóðandi:

„Að loknum umr. í utanrmn. urðu nm. sammála um að mæla með samþykkt tillögunnar með breytingu sem flutt er till. um á þskj. 948. Brtt. á þskj. 948 er svohljóðandi: 1. Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að fela utanrrh. að vinna að því, að framkvæmdum til lausnar á vandamálum, er skapast hafa fyrir byggðarlögin í Keflavík og Njarðvík vegna eldsneytisgeyma varnarliðsins, verði hraðað svo sem kostur er.

2. Fyrirsögnin orðist svo: Tillaga til þingsályktunar um lausn á vandamálum vegna eldsneytisgeyma varnarliðsins.“

Ég sagði síðan: „Efnislega er hér ekki um að ræða breytingu á þeirri till. til þál. sem fyrr var flutt hér á þingi. Mönnum þótti hins vegar rétt að það kæmi fram, að utanrrh. og þar til bær íslensk yfirvöld hefðu frjálsar hendur um tilhögun framkvæmdanna, hvernig unnt væri að koma þeim á sem allra fyrst með tilvísun til þeirrar nauðsynjar sem á því er að úrbætur fáist annars vegar fyrir byggðarlögin, sem hlut eiga að máli, Njarðvík og Keflavík, og hins vegar þeirra þarfa sem varnarliðið og varnarstarfsemin á Keflavíkurflugvelli hafa til þess að hafa öruggar geymslur fyrir eldsneyti það sem nauðsynlegt er vegna starfsemi varnarliðsins.“

Það er nauðsynlegt að rifja þetta hér upp vegna þess að ég tel að hæstv. utanrrh. hafi verið að framfylgja þessari þáltill., og ég ítreka og legg áherslu á það, sem raunar kom skýrt fram í umr. um þessa þáltill., að utanrrh. hafði í raun frjálsar hendur um það hvernig framkvæmdum skyldi hagað, þ. á m. varðandi staðarval, auðvitað bundinn í þeim efnum íslenskum lögum.

Auðvitað á þetta mál sér lengri forsögu, þá forsögu, að þegar Benedikt Gröndal var utanrrh. skipaði hann nefnd til að fjalla um lausn þessa vanda, vanda byggðarlaganna á Reykjanesi varðandi mengunarhættu og varðandi byggingarsvæði og þörf varnarliðsins fyrir endurnýjun eldsneytisgeyma. Þessi nefnd starfaði að málinu og gerði sínar tillögur, og það var á grundvelli þess nefndarálits sem hin upprunalega þáltill. var flutt.

Þegar núv. hæstv. utanrrh. tók við því embætti eða mjög skjótlega eftir það fylgdi hann þessu máli eftir og ákvað hönnun eldsneytisgeyma í Helguvík. En þá strax komu fram mótmæli af hálfu hæstv. félmrh. sem taldi slíkt málefni heyra undir ríkisstj. alla. Hæstv. forsrh. var þá spurður um álit sitt hvað það snerti. Taldi hann að þótt málið heyrði undir utanrrh. samkv. starfsskiptingu ráðh. væri hér um svo viðamikið mál að ræða, m.a. hvað efnahagslegt mikilvægi snertir, að það væri eðlilegt og sjálfsagt að það væri til umræðu í ríkisstj. allri. Hæstv. utanrrh. brást þannig við þessum ummælum forsrh., að hann lét sig hvergi og sagði að mál þetta heyrði undir utanrrh. og ekki undir neinn annan ráðh., hann hefði vald til þess að kveða á um framvindu málsins og ríkisstj. gæti þar ekki stöðvað réttmætar stjórnaraðgerðir og athafnir utanrrh. eðli málsins og stjórnarskipunarlögum samkvæmt.

Þegar málin stóðu með þessum hætti var sú þáltill. samþykki sem ég hef þegar í upphafi máls míns gert að umtalsefni. En í upphafi þessa máls, þegar deilur voru um hvort utanrrh. hefði vald á framvindu málsins eða hvort málið heyrði undir ríkisstj. í heild, var mönnum ekki eins ljóst og síðar varð hvar fiskur lá undir steini. Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. er ekki getið um annað en að það sé eingöngu bygging flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli sem bundin sé samkomulagi allrar ríkisstj. Í málefnasamningi núv. ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar er tók til starfa 1. sept. 1978, þar sem talað var um að allar meiri háttar framkvæmdir á varnarsvæði skyldu vera háðar samkomulagi ríkisstj. í heild.

En í kjölfar þessa og þegar á það var bent, að aðrir ráðherrar en utanrrh. hefðu ekkert um það að segja, hvort eldsneytisgeymar væru byggðir, þá kom upp úr kafinu að leynisamningur hafði verið gerður. Þessi leynisamningur fjallaði um það, eins og komist er að orði í fréttabréfi Alþb., fyrsta bréfi 1981, með leyfi forseta.

„Þegar ríkisstj. var mynduð var undirritað samkomulag milli flokkanna þar sem kemur fram að ef ágreiningsmál komi upp í ríkisstj. hafi hver stjórnaraðili neitunarvald, ef hann vill beita því.“

Hér er innan tilvitnunarmerkja það efnisatriði, að ef ágreiningsmál komi upp í ríkisstj. hafi hver stjórnaraðili neitunarvald, ef hann vill beita því, eins og þar segir. Með tilvísun til þessa munu ráðherrar Alþb. hafa þóst hafa vald á framvindu málsins. En hæstv. utanrrh. kvað í blaðaviðtali sig ekkert hafa vitað um slíkan leynisamning og ekki hafa tekið þátt í samningu stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. og hélt sínu striki. Það er þó fyrst nú í s.l. viku sem skriður kemst á málið og hafa þm. átt kost á að lesa í blöðum margs konar tilvitnanir og ummæli hæstv. ráðherra.

Fyrir réttri viku gerði hæstv. félmrh. harða hríð að hæstv. utanrrh., m.a. á ríkisstjórnarfundi, vegna fyrirhugaðra varnarliðsframkvæmda í Helguvík. Í kjölfar þessarar árásar á samráðherra gefur félmrh. út reglur um skipulagsmál á Suðurnesjum og taldi sig með því hafa náð tökum á utanrrh. Það er næsta einkennilegt, að hæstv. félmrh. hafði raunar hótað einhverju þessu líku þegar hann tók það fram í blaðaviðtali, að hann væri yfirmaður skipulagsmála sem félmrh. og hann hefði tök á því að neita staðfestingu aðalskipulags eða koma í veg fyrir tilteknar byggingarframkvæmdir sem slíkur. Í kjölfar þessarar hótunar sinnar gefur hann út reglugerð sem hæstv. utanrrh. telur raunar seinna að sé markleysa. Utanrrh. fær samþykkt bæjarstjórnar Keflavíkur s.l. þriðjudag um að hún skuli semja við varnarmáladeild um leigu á 13 hektara landi á Hólmsbergi norðan Keflavíkur og Helguvíkur. Þessi samþykkt er gerð með öllum atkvæðum gegn atkvæði bæjarfulltrúa Alþb. eins.

Þegar Ólafur Jóhannesson utanrrh. heldur þannig sínu striki lýsir hæstv. félmrh. yfir í forsíðuviðtali í Þjóðviljanum að hann sé „furðu lostinn yfir vinnubrögðum utanrrh.“, og Þjóðviljinn fylgir eftir orðum hans í tveim leiðurum 11. og 12. mars s.l. En ekki er látið við það sitja, heldur lætur hæstv. iðnrh. nú til sín taka s.l. föstudag og bannar Orkustofnun að láta verkfræðifyrirtæki í té tæki til að kanna jarðveg þar sem ætlunin var að eldsneytisgeymarnir risu, þótt búið væri að undirrita samkomulag milli verkfræðistofunnar og varnarmáladeildar um notkun þessara tækja. Það var svo svar hæstv. utanrrh. að hann segir í Morgunblaðinu 12. mars s.l.:

„Það hefur nú ekki snúið að mér sú hlið á þeim ráðherrum Alþb. nú nýlega, að ég sé líklegur til að rétta þeim aðra kinnina eða knékrjúpa þeim á nokkurn hátt.

Það er þeirra mál hvað þeir gera, en þessi framkvæmd er mjög í samræmi við það sem þeir héldu fram í sínum málflutningi áður. Þá var það stækkunin sem þeir fettu fingur út í, og þá töldu þeir flutning á geymunum nauðsynlegan. Nú hefur allt snúist við. En ég held mínu striki og sagði þeim það á ríkisstjórnarfundi í morgun.“

Þetta var 11. mars s.l. Og hæstv. utanrrh. tók enn dýpra í árinni, vegna þess að hann sagði að hann teldi þann gjörning orkuráðherra að stöðva framkvæmd á samningsbundnu verki eða leigu á tækjum valdníðslu sem beitt væri í annarlegum tilgangi. Hann talaði og um tilefnislaust og fyrirvaralaust samningsrof þar sem skriflegur verksamningur lá fyrir undirritaður og verkið hafið. „Það alvarlega í þessu er það, að maður hefur unnið að því að undanförnu að stuðla að því, að sem mest af þessu verki og rannsóknum komist í íslenskar hendur en iðnrh. er beinlíms að koma í veg fyrir það, að íslenskar hendur og íslensk kunnátta verði notuð í því verki sem verður unnið“ — er haft eftir hæstv. utanrrh.

Þegar hæstv. utanrrh. talar þannig um valdníðslu af hálfu hæstv. iðnrh., þá svarar hæstv. félmrh. og talar um valdarán af hálfu hæstv. utanrrh. Þeir stéttarbræðurnir, ráðherrar í núv. ríkisstj., vanda þannig ekki hver öðrum kveðjurnar. Og 13. mars s.l. treystir utanrrn. forræði sitt með því að gefa út reglugerð um skipulagsmál á varnarsvæðunum. Athyglisvert er að í hinni nýju reglugerð utanrrh. er hvergi minnst á samvinnunefnd félmrh. er hann skipaði á svig við skipulagsstjórn ríkisins. Þvert á móti er í reglugerð utanrrn. mælt fyrir um bein samráð byggingarnefndar við skipulagsstjórn ríkisins og forsvarsmenn þeirra sveitarfélaga, sem hlut eiga að máli. Og enn bregst félmrh. hinn versti við hinni nýju reglugerð hæstv. utanrrh., sbr. forsíðuviðtal við hann í Þjóðviljanum í dag, en þar tekur hann sér í munn orð utanrrh. og segir reglugerð hans markleysu, en í þessu eina orði: „markleysa“, lýsa ráðherrarnir reglugerðum og gerðum hver annars. Orðrétt segir Svavar: „Vinnubrögð utanrrh. á undanförnum vikum og dögum eru furðuleg.“

Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, að vakið er máls á þessu hér á Alþingi, svo ósparir sem hæstv. ráðherrar hafa verið á kveðjur hver til annars varðandi þetta mál í fjölmiðlum, eins og síðast mátti sjá í viðtali sjónvarpsfréttamanns við þá hæstv. utanrrh. og hæstv. félmrh. á víxl í gærkvöld. Svo óviðurkvæmilegt sem þetta háttalag ráðherra í einni og sömu ríkisstjórn er, þá hlýtur það að vera skylda þeirra að gera Alþingi grein fyrir þessum viðhorfum og gefa skýringu á orðum sínum.

Auðvitað skipta hér þó mestu máli efnisatriði þess máls sem um er fjallað og deilt. Það er engum blöðum um það að fletta, að Alþingi hefur lagt fyrir utanrrh. að flýta byggingu eldsneytisgeyma fyrir varnarliðið. Það er ekki heldur vafamál, að i þeirri þáltill. voru hendur hæstv. utanrrh. í engu bundnar utan þess sem íslensk lög almennt fjalla um og segja fyrir um. Honum bar að vega og meta rannsóknir, sem fram færu um staðsetmigu eldsneytisgeymanna, og taka síðan ákvörðun um þá staðsetningu í samræmi við lög og venjur. Það hefur hæstv. utanrrh. gert, og í morgun gaf hann utanrmn. skýrslu um gerðir sínar í þessu máli. Ég hef heimild til, fyrir hönd fulltrúa Alþfl. og fulltrúa Sjálfstfl. í utanrmn., að lýsa yfir þeirri skoðun okkar, að meðferð hæstv. utanrrh. í þessu máli sé að okkar mati eðlileg og gerð í fullri heimild.

Ljóst er að þingflokkur Framsfl. hefur lýst sömu skoðun á gerðum og meðferð utanrrh., þannig að þrír af flokkum Alþingis hafa lýst fylgi sínu við meðferð utanrrh. á þessu máli. Það er því nauðsynlegt að það liggi hér ljóst fyrir á Alþingi, að eigi verði lagður steinn í götu framkvæmda af hálfu ríkisstj. og áætlanir hæstv. utanrrh. megi komast í framkvæmd. Ég ítreka og endurtek að þessi nauðsyn byggist á hagsmunum sveitarfélaganna á Reykjanesi, á mengunarhættu sem þar er fyrir hendi og nauðsynlegt er að koma í veg fyrir, á nauðsyn sveitarfélaganna og byggðarlaganna þar syðra að geta nýtt byggingarsvæði á sem hagkvæmastan hátt og tengt saman byggðahverfi á eðlilegan hátt. Hér er og um nauðsyn þess að ræða, að varnarliðið á Keflavíkurflugvelli sé í stakk búið að gegna því ætlunarverki sínu sem er í samræmi við hagsmuni Íslendinga, varnar- og öryggishagsmuni Íslendinga og bandalagsþjóða okkar:

Með tilvísun til þessa Legg ég höfuðáherslu á að línur séu skýrðar svo að enginn dragi í efa að utanrrh. hefur farið að lögum í máli þessu og hefur starfað í umboði Alþingis og hefur borið skylda til aðfylgja máli þessu fast fram og ber skylda til að sjá fyrir endann ú þessu máli. Ég mælist til þess, hvort sem það er á þessum fundi eða á öðrum fundi, en þó sem allra fyrst. að hæstv. utanrrh. geri Alþingi grein fyrir aðgerðum sínum í einstökum atriðum varðandi framkvæmd þáltill., eins og hann gerði utanrmn. fyrr í dag, sem varð til þess að allir utanrmn.menn tjáðu sig samþykka þeirri meðferð málsins, að einum undanteknum; fulltrúa Alþb., eins og ég tel mér heimilt að skýra frá.

Ég tel líka nauðsynlegt að það komi skýrt fram þegar í dag, að það beri enginn brigður — allra síst hæstv. forsrh. — á heimild hæstv. utanrrh. til að hafa forræði þessa máls. Ég sagði að enginn ætti að hreyfa andmælum gegn þessu. Mér er ljóst að það er borin von að fulltrúar Alþb. hér á þingi hafi vit til að bera til þess að láta mál þetta kyrrt liggja og það vera áfram í höndum hæstv. utanrrh. En ef allir aðrir þm. eru sama sinnis um það, að málið eigi að vera undir forræði hæstv. utanrrh., þá tel ég málinu vel borgið og sama hvorum megin hryggjar ráðherrar eða þm. Alþb. liggja að þessu leyti.

Það hafa sumir haft á orði að þetta mál og ágreiningurinn um það geti valdið stjórnarslitum og Alþb. muni draga ráðherra sína vegna þessa máls út úr ríkisstjórninni. Á þessu stigi hef ég ekki neina trúa á því. Ég held að hér sé um hreinan leikaraskap, ef ekki loddaraskap hjá ráðherrum Alþb. að ræða. Ég er þeirrar skoðunar, að þessi leikbrögð séu höfð í frammi til þess að reyna að hressa upp á minnkandi fylgi Alþb. og mæta þeim vonbrigðum sem kjósendur Alþb. hafa orðið fyrir vegna lélegrar frammistöðu Alþb.-ráðherranna í ríkisstj. og þm. Alþb., miðað við þau kosningaloforð, sem Alþb. gaf fyrir síðustu tvennar kosningar, þegar hrópað var um samningana í gildi og aukningu kaupmáttar launa launþega í landinu. Hér er umeina mögulega útgönguleið að ræða, sem Alþb. er að búa sér til, ekki til útgöngu úr ríkisstjórninni strax á þessu stigi, heldur e.t.v. síðar, ef — eins og allar líkur benda til — úrslit sveitarstjórnarkosninga verða þeim andstæð og ef þeir sjá fram á það, að þeir geta ekki boðið fylgismönnum sínum í launþegahreyfingunni þau býti sem þeir telja nauðsynleg til áframhaldandi setu í ríkisstjórn.

Við þetta bætist að spár Þjóðhagsstofnunar benda nú til þess, að þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur fari minnkandi. Það er í slíku árferði sem kommúnista og Alþb.-menn brestur kjark til átaka við vandamálin. Og þá kann vel að vera að þeir flýi sökkvandi ríkisstjórnarfleyið. Það er í þessu skyni sem moldviðri er þyrlað upp um eldsneytisgeymana í Helguvík sem og til þess að reyna að telja herstöðvaandstæðingum svokölluðum trú um að Alþb. hafi áhuga á að þeirra mál nái fram að ganga. Alþb. hefur margoft hopað af hólmi í þeim efnum og vermt ráðherrastólana þótt ekkert sé gert í þeim tilgangi að draga úr athöfnum varnarliðsins eða framkvæmdum þess hér á landi. En það mun sannast mála, að með byggingu flugskýlanna og með byggingu eldsneytisgeymanna hafi sjaldan eða aldrei verið um meiri framkvæmdir á vegum varnarliðsins að ræða en undir verndarvæng Alþb., svo einkennilegt sem það kann að virðast. Ég leyfi mér, herra forseti, að ítreka tilmæli mín um, að hæstv. forsrh. svari efnislega þeirri fsp. er hér hefur verið fram borin af hálfu þingflokks Alþfl„ svo og þau tilmæli mín til hæstv. utanrrh. að hann gefi Alþingi skýrslu um meðferð sína á þessu máli er þál. um byggingu eldsneytisgeyma fjallaði um.