16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3090 í B-deild Alþingistíðinda. (2627)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég viðurkenni að vísu að.fundarstjórn í Sþ. er oft mjög lipur og góð. Ég veit ekki hvort á að skilja það svo, að forseti þingsins ætli að fresta fundi um sinn út af því að hæstv. forsrh. hefur týnst, til þess að reyna að leita að honum, senda einhverja sveinstaula til að leita að honum, eða hvort einhverjar aðrar ástæður er til þess. að hæstv. forseti hyggst nú fresta fundi. Ég vil vekja athygli á því, að þann tíma sem formaður utanrmn. talaði hér var sæti hæstv. forsrh. autt. (Forseti: Þetta er um þingsköp, herra þm.) Mér er kunnugt um það. Ég kvaddi mér hljóðs um fundarsköp til þess að ræða þá frestun sem hefur verið boðuð á fundi þessarar deildar.

Fyrr í dag, þegar ég spurði þann mann, sem þá sat í forsetastól, hvenær umr. utan dagskrár ættu að byrja um þetta mál, var mér sagt að það yrði kl. 5. Um það spurði ég tvívegis. Síðan er allt í einu flýtt umr. án þess að þm. sé gefið tóm til. Og nú er allt í einu hlaupið til og umr. frestað á ný án nokkurrar skýringar.

Ég óska skýringar á hvernig á því stendur að þessum umr. er nú frestað. Það er ekki svo, að hæstv. forseti beiti forsetavaldi sínu til þess að knýja hæstv. forsrh. til svara þegar hann snýr út úr fyrir þingheimi og þjóðinni.