16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3091 í B-deild Alþingistíðinda. (2630)

204. mál, vistun ósakhæfra afbrotamanna

Fyrirspyrjandi (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Ég held að það sé réttast að ég lýsi því yfir þegar í stað, að hvorki er ég varaþm. né vil ég gera hæstv. forseta þá skráveifu að troða inn máli eða fsp., heldur var búið að gefa mér orðið áður. Ég vék úr stól að beiðni forseta Sþ. En ég gríp auðvitað það tækifæri sem ég fæ til að bera fram þessa fsp. sem er búin að liggja fyrir þinginu nokkuð lengi, og líklega verður mér betur ágengt en öðrum hv. stjórnarandstöðuþm. sem hafa talað fyrr í dag í öðru máli án þess að fá nokkur svör.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langan formála að þeirri fsp. sem hér liggur fyrir til hæstv. dómsmrh. um vistun ósakhæfra atbrotamanna. Ég óska eftir því, herra forseti, að það fáist kyrrð í salinn því að þetta er mál sem varðar talsvert miklu þó að einhverjum þyki það ekki eins stórt í sniðum og Helguvíkurmál og önnur slík.

Hér í Reykjavík varð mjög hörmulegur atburður fyrir nokkrum mánuðum þegar ósakhæfur afbrotamaður réðst á stúlku með afleiðingum sem ég ætla ekki að rekja hér. Af því tilefni beindist athygli manna að vistun ósakhæfra afbrotamanna hér á landi. Við, sem flytjum þessa fsp., hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og ég, töldum fulla ástæðu til að fá upplýst, hvernig þessum málum væri háttað, og höfum því leyft okkar að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. dómsmrh.:

„1. Hve margir geðveikir afbrotamenn hafa verið metnir ósakhæfir, en ekki dæmdir í öryggisgæslu?

2. Eru mál öryggisgæslufanga endurskoðuð reglulega, eins og lög gera ráð fyrir?

3. Hefur dómsmrh. reynt að fá ósakhæfan geðsjúkling, sem lengi hefur dvalið í fangelsi, innlagðan á geðsjúkrahús til meðhöndlunar og aðhlynningar?

4. Hvar fer geðrannsókn á afbrotamönnum fram og hvaða aðilar bera kostnaðinn af rannsókninni?

5. Hversu oft hefur ákvæði 62. gr. refsilaga verið beitt um vistun ósakhæfra manna á viðeigandi stofnun? 6.a) Til hvaða stofnana hefur verið leitað þegar slíkur úrskurður liggur fyrir?

b) Hafa stofnanir, sem til hefur verið leitað, synjað um slíka vistun?

e) Ef svo er, geta yfirmenn heilbrigðisstofnana gengið í berhögg við úrskurð dómstóla?