16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3093 í B-deild Alþingistíðinda. (2632)

204. mál, vistun ósakhæfra afbrotamanna

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu hér. Það er full ástæða til að koma inn á þennan lið í málefnum geðsjúklinga alveg sérstaklega.

Á ráðstefnu Verndar og Geðhjálpar á s.l. vetri komueinmitt mál geðsjúkra afbrotamanna mjög til umræðu. Sú umræða var fyrir okkur þm. mjög fróðleg. Við hófum verið að flytja tillögu um þessi mál og fengið samþykkta hér á Alþingi á síðasta þingi. Ráðstefnu þessa sóttu bæði þeir, sem eiga að þekkja gerst til þessara mála á öllum vígstöðvum, og eins aðstandendur þeirra sem þetta snertir mest. Það, sem kom okkur á óvart á þessari ráðstefnu, voru í raun og veru harkalegir árekstrar á milli valdamikilla aðila í heilbrigðiskerfinu um það, hvernig með mál geðsjúkra fanga skyldi fara, þ.e., svo að ég tali hreint út, milli landlæknis annars vegar og forstöðumanns Kleppsspítalans hins vegar. Vænti ég þess, að einmitt þær mismunandi skoðanir, sem þar komu fram, verði ekki lengur eins konar hemill á úrbætur í þessum efnum svo sem verið hefur.

Málefni þessara ógæfusömu manna hafa verið sérstaklega tekin út úr hjá þeirri nefnd sem fjallar um geðheilbrigðismálin í heild sinni. Ég treysti því, að þessi nefnd taki þau mál föstum tökum og komi með tillögur sem allra fyrst til úrbóta. En ég vil lýsa því sem minni skoðun hér, eftir að hafa heyrt rök bæði með og móti, að það sé enginn vafi á að geðsjúka afbrotamenn, sem svo eru kallaðir, ósakhæfa afbrotamenn eða hvað sem við viljum kalla þá, eigi að vista á sérstakri deild við geðsjúkrahús þar sem þeir hljóti viðhlítandi meðferð.