16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3093 í B-deild Alþingistíðinda. (2633)

204. mál, vistun ósakhæfra afbrotamanna

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í stuttum fsp.tíma gefst ekki tækifæri til að ræða vistunarmál geðsjúkra afbrotamanna ítarlega, en þær umræður, sem farið hafa fram um þessi mál að undanförnu, krefjast þó þess, að þessi mál séu færð inn á Alþingi og leitað sé svara við og úrbóta á alls óviðunandi ástandi málefna geðsjúkra afbrotamanna. Ég tel að flestir, sem vel þekkja til þessara mála, séu því sammála að ekki sé ofmælt að tala um að neyðarástand ríki í vistunarmálum geðsjúkra afbrotamanna og að þessi mál hafi árum saman verið látin ganga milli ráðuneyta án þess að á þeim hafi verið tekið þrátt fyrir mikinn þrýsting bæði frá aðstandendum geðsjúkra og frá heilbrigðiskerfinu.

Það er ekki heldur ofmælt að við erum langt á eftir nágrannaþjóðum okkar í þessum málum, þar sem á þessu vandamáli hefur verið tekið. Samkv. upplýsingum frá Ólafi Ólafssyni landlækni, sem hefur beitt sér mjög fyrir því að geðsjúkir afbrotamenn fái nauðsynlega aðhlynningu og meðferð, kemur í ljós að á öðrum Norðurlöndum vistist geðsjúkir afbrotamenn á venjulegum geðsjúkrahúsum, en í sumum'tilfellum séu auk þess rekin sérstök réttargeðsjúkrahús. Sums staðar, t.d. í Danmörku, hafa réttargeðsjúkrahús ekki þótt heppileg og töldu geðlæknar þar mikla vankanta á að veita geðsjúkum læknismeðferð á réttargeðsjúkrahúsum. Almennt er framkvæmdin á öðrum Norðurlöndum því þannig, að geðsjúkir fangar eigi heima á almennum geðdeildum eða á deildum sem reknar eru í nánum tengslum við sjúkrahús. Landlæknir bendir á, að í nágrannalöndum okkar sé fangelsisvistun þessara sjúklinga ekki lengur til umræðu, og bendir auk Norðurlandanna á Írland og Holland, þar sem er sams konar skipulag þessara mála. Í þessum löndum hefur því í reynd verið lítið á geðsjúka afbrotamenn sem sjúklinga sem verði að fá nauðsynlega meðferð og aðhlynningu, og höfum við Íslendingar í nokkrum tilfellum leitað á náðir sjúkrahúsa erlendis til að hlífa sumum þessara sjúklinga við fangelsisvist, en það hefur þó ekki alltaf tekist.

Miðað við þessar staðreyndir vakti satt að segja nokkra undrun mína yfirlýsing hæstv. dómsmrh. í Dagblaðinu nýverið, en þar segir hann að hann geti ekki fallist á að núverandi ástand málefna geðsjúkra afbrotamanna sé ófært eða að þjóðarskömm sé ef viðgengst áfram, eins og orðrétt er þar haft eftir honum. Ég held að flestir hljóti að viðurkenna að núverandi ástand geðsjúkramála sé ófært þegar ekki er til sjúkrarými fyrir nema hluta af þeim geðsjúklingum sem þurfa á að halda þó að fyrir liggi að við höfum hér yfir meira sjúkrarými að ráða en þekkist víðast í Vestur-Evrópu. Það er vissulega ófært ástand að geðsjúklingar þurfi að bíða í fangageymslum lögreglunnar eftir plássi á geðsjúkrahúsi, og það er vissulega ófært ástand og þjóðarskömm að geðsjúkir afbrotamenn þurfi að dveljast í fangelsum án nauðsynlegrar aðhlynningar og þeirrar geðheilbrigðismeðferðar sem þeir þurfa á að halda. Ég trúi ekki heldur að hæstv. dómsmrh. líti ekki á það sem ófært ástand að geðsjúkir afbrotamenn, sem dæmdir hafa verið ósakhæfir, fá ekki vistun á viðeigandi stofnun með þeim afleiðingum að auk þess að fá ekki þá aðhlynningu, sem þeim er nauðsyn á. geta þeir verið umhverfi sínu stórhættulegir. Þegar vitað er að nokkrir geðveikir afbrotamenn hafa verið metnir ósakhæfir, en ekki dæmdir í öryggisgæslu, er auðvitað um ófremdarástand að ræða sem ógnar öryggi manna, auk þess sem geðsjúkur maður hlýtur að eiga þann sjálfsagða rétt að fá læknismeðferð. Hér er auðvitað um slíkt mál að ræða að þá kröfu verður að gera til dómsmrn., heilbmrn. og Alþingis sem fjárveitingarvalds að taka sameiginlega á og leysa það.

Það er einnig ljóst, að töluverður ágreiningur hefur verið uppi milli yfirmanna geðheilbrigðisstofnana annars vegar og landlæknis og borgarlæknis hins vegar um hvernig vistunarmálum geðsjúkra manna, sem dæmdir hafa verið ósakhæfir, skuli háttað. Hér er auðvitað um ótækt ástand að ræða og verður að gera þá kröfu til ráðh. bæði heilbrigðis- og dómsmála að þeir taki af skarið í þessu efni.

Í viðtali við borgarlækni nýverið kemur fram að tiltekin geðheilbrigðisstofnun telur sig ekki þurfa að hlíta úrskurði samkv. 62. gr. refsilaga, en þar kemur fram að dómstóll geti ákveðið hvaða stofnun sé viðeigandi til öryggisgæslu. Svar dómsmrh„ sem fram kom áðan við 6. tölul. í þessari fsp., þar sem spurt er um þetta atriði, var mjög óljóst og ég er litlu nær eftir svar hans. Það verður að gera þá kröfu til hans sem dómsmrh., að afstaða hans sé skýr í þessu efni. Ekki er að vænta þess, að höggvið verði á þann hnút sem er milli yfirmanna geðheilbrigðisstofnana og embætta landlæknis og borgarlæknis á afstöðu til vistunarmála geðsjúkra afbrotamanna meðan yfirmaður dómsmála tekur ekki afstöðu til þess, hver réttur slíkra afbrotamanna er samkv. ákvæði 62. gr. refsilaga, sem kveður á um vistun á viðeigandi stofnunum.