16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3094 í B-deild Alþingistíðinda. (2634)

204. mál, vistun ósakhæfra afbrotamanna

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég vildi aðeins þakka fyrirspyrjendum, þeim hv. þm. Árna Gunnarssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrir að bera þessa fsp. fram til hæstv. dómsmrh. En ég saknaði þess, að það kom ekki fram í svari hæstv. ráðh., hvort fyrirhugað er að bæta úr því ástandi sem ríkir í þessum málum, hvort hann telji það viðunandi lausn að senda geðsjúka afbrotamenn til vistunar erlendis, eða til Svíþjóðar, eins og kom fram í svari hans að gert væri. Það væri einnig fróðlegt ef hann gæti upplýst hversu margir dveljast erlendis af þessum sökum og þá hver kostnaður vegna dvalar þeirra er samanborið við að þeir væru vistaðir hérlendis.