16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3095 í B-deild Alþingistíðinda. (2635)

204. mál, vistun ósakhæfra afbrotamanna

Fyrirspyrjandi (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svör hans sem voru eins og efni og aðstæður gáfu tilefni til. Það kom mér nokkuð á óvart að dómsmrn. skuli ekki eiga skýrslur yfir hve margir geðveikir afbrotamenn hafi verið metnir ósakhæfir, og held ég að bókhald rn. að því leytinu hljóti að vera í einhverjum ólestri.

Ég vil hins vegar ítreka það sem hefur komið hér fram, að ég óska eftir að heyra skoðun hæstv. dómsmrh. á hvort ekki beri brýna nauðsyn til að bæta úr því ófremdarástandi sem óneitanlega ríkir hér í þessum málum. Einnig væri fróðlegt að heyra álit hans á þeim deilum sem nú eru uppi á milli embættismanna um hvað gera skuli í þessum viðkvæma málaflokki. Það er að mínu mati ótækt að embættismenn skuli geta neitað, eins og hér hefur orðið raunin á, að taka við sjúku fólki á stofnun sem ríkið á og rekur. Það gengur auðvitað ekki. Og þó að það hafi komið fram i svari hæstv. dómsmrh„ að dómstólar geti ekki dæmt menn til vistunar á tiltekin sjúkrahús, er t.d. Kleppsspítalinn ríkissjúkrahús, ríkisspítali, og þess vegna hlýtur sá, sem með valdið fer, að geta ákvarðað að viðkomandi sé hýstur í því sjúkrahúsi.

Ég vil taka undir það með hv. þm. Helga Seljan, að það er aðeins til ein lausn á þessu erfiða vandamáli. Hún er sú að koma upp sérstakri deild við geðsjúkrahús, og er eðlilegast að það verði við það sjúkrahús sem mest umsvifin hefur, Kleppsspítalann, og að það verði undinn bráður bugur að því, að þetta verði gert, því að þessi mál verða erfiðari og erfiðari eftir því sem tímar líða fram. Það er auðvitað gersamlega ótækt, eins og hér hefur tíðkast, að láta menn, sem eru á mörkum þess að vera geðsjúkir, í fangelsi með mönnum sem eru taldir andlega heilbrigðir. Þeir njóta þar auðvitað ekki þeirrar læknisaðstoðar og meðferðar sem þjóðfélaginu ber að veita þeim.

Ég vænti þess að lokum, herra forseti, að hæstv. dómsmrh. geri nú gangskör að því að koma þessu vandræðamáli fyrri kattarnef með ákvarðanatöku um hvað gera skuli og að hann leysi málið til frambúðar.