02.11.1981
Neðri deild: 8. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Baldur Óskarsson:

Herra forseti. Það sem knýr mig til að taka nú til máls er að síðast þegar þetta frv. var til umr., vék hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sér sérstaklega að mér og gerði ýmsar aths. við það mál sem ég hafði áður flutt varðandi frumvarpíð. Það, sem mér þótti sérstaklega athyglisvert við ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, var að þótt hann hafi talað allra manna lengst í málinu, þá hefur ekki enn komið fram hjá honum hver er í raun og veru afstaða hans til frv. Hann svaraði ekki heldur þeirri spurningu, sem ég lagði fyrir hann, hvaða manni í þingflokki Alþfl. hann hefði bannað að vera meðflm. að þessu frv. (SighB: Ég hef engum bannað það.) Það hefur komið fram í grein í Morgunblaðinu, sem hv. alþm. Vilmundur Gylfason skrifaði, að forusta Alþfl. hafi bannað einum úr þingflokki Alþfl. að vera meðflm. að þessu frv. Ég dreg ekki í efa að þetta eru réttar upplýsingar hjá Vilmundi Gylfasyni. Hann gefur í skyn í þessari tilvitnuðu grein í Morgunblaðinu að formaður Alþfl. og formaður þingflokksins hafi svælt, eins og hann orðar það, einn þm. Alþfl. út af þessu frv. (SighB: Það er ekki heldur rétt.) Það er þá eftir því leitað, að hv. þm. Vilmundur Gylfason, sem er heimildarmaður minn í þessu máli, upplýsi þingheim um það sanna. Ef þetta er rangt hjá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni er auðvitað nauðsynlegt að það komi í ljós.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sneri sér alveg sérstaklega til mín af dálitlum þjósti og sagði sem svo, að ég væri greinilega ekki þingvanur. Ég ætti, áður en ég færi að vitna í sitt mál, að lesa útskrift af ræðum, því að hann hefði hvergi á það minnst í ræðu sinni, að Alþýðusamband Íslands virtist vera að stefna í upplausn, eins og ég hélt fram. Það kann kannske að koma ýmsum hér í hv. deild. á óvart, að ekki aðeins lagði ég það á mig að hlusta á hv. þm. Sighvat Björgvinsson tala sitt langa mál, heldur las ég líka ræðuna samviskusamlega alla yfir. Og þar stendur, með leyfi forseta, setning svo hljóðandi:

„Í annan stað þótti mér enn þá meira umhugsunarvert fyrir forustusveit verkalýðsflokkanna og verkalýðshreyfingarinnar, sem hér eiga sæti, þegar svo er komið að svo virðist vera sem Alþýðusamband Íslands sé af þessum ástæðum og öðrum að stefna í upplausn.“

Þetta sagði hv. þm., formaður þingflokks Alþfl., og ég er satt að segja mjög undrandi á því, að forustusveit Alþfl. skuli í allt sumar og enn í dag vera að ráðast á Alþýðusambandið og forustumenn þess með svona orðbragði. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur líka látið í veðri vaka í allt sumar — ekki bara í blaðaskrifum, heldur t. d. tvívegis eða þrívegis hér á Alþingi — að það séu undarlegir menn sem nú sitji í forsetastóli og varaforsetastóli Alþýðusambands Íslands, því að annar sé háskólagenginn og hinn stóratvinnurekandi. Ég veit eiginlega ekki af hverju svona málflutningur heyrist af vörum hv. þm. Alþfl. Ég skil ekki af hverju t. d. hv. þm. Vilmundur Gylfason er að gefa það í skyn hvað eftir annað, að forustumenn Alþýðusambandsins og verkalýðsfélaganna gegni ekki hagsmunum umbjóðenda sinna af þeim ástæðum að þeir sækist svo mjög eftir fallegum stólum á skrifstofum og góðri aðstöðu þar.

Ég skil aftur á móti vel að hv. skrifari þessarar deildar, Halldór Blöndal, veitist harkalega að forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar. Hann sagði í ræðu fyrr í þessari umr. að það þyrfti auðvitað að steypa öllum núverandi forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar. Það munar ekki um það. Sennilega á hv. þm. Pétur Sigurðsson, ritari Sjómannafélagsins, að fylgja með í þeirri kollsteypu. Það er eðlilegt að þeir, sem tilheyra leiftursóknararmi Sjálfstfl., telji sig þurfa að steypa öllum verkalýðsforingjum landsmanna af stóli. En ég skil ekki af hverju hv. þm. Alþfl. eru núna, á þeim tíma þegar forustumenn Alþýðusambandsins eru að leggja upp í harða kjarasamninga við atvinnurekendur, að veitast sérstaklega að þessum mönnum æ ofan í æ.

Ætli það sé eitthvað verra fyrir Alþýðusambandið að forseti þess hefur aflað sér menntunar? Er hann eitthvað verri maður fyrir það? Eða er líklegt að hann eigi einmitt vegna þess auðveldara með að nota þau rök sem kannske duga þegar til kjarasamninga kemur? Ég er alveg sannfærður um að forseti Alþýðusambandsins, Ásmundur Stefánsson, er kosinn vegna þess að fólkið treystir honum til að sinna þessu þýðingarmikla starfi, enda hefur hann sannað það á undanförnum árum, m. a. í hverjum kjarasamningunum á fætur öðrum, að hann hefur reynst Alþýðusambandinu og verkafólki á Íslandi stoð og stytta. Mér er alveg óhætt að fullyrða það, vegna þess að ég hef af því náin kynni, að einmitt fyrir forustu hans hafa náðst þrátt fyrir allt þeir kjarasamningar sem við höfum komið í höfn.

Það er heldur ómerkilegt af hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að vera sí og æ að klifa á því, að Björn Þórhallsson, varaforseti Alþýðusambandsins, sé einhver stóratvinnurekandi. Það er mála sannast að Björn Þórhallsson gekk strax í Verslunarmannafélag Reykjavíkur 1957 þegar hann kom út úr skóla, og hann hefur unnið þeim samtökum mjög vel allar götur síðan. Björn Þórhallsson hefur nú síðustu árin unnið fyrir sér ásamt konu sinni með því að gera skattframtöl og annast bókhald fyrir nokkur fyrirtæki ásamt því að vera launaður starfsmaður Landssambands ísl. verslunarmanna. En að hann sé einhver stóratvinnurekandi er auðvitað algerlega fráleitt að halda fram. Og það er ómaklegt af þeim Alþfl.-mönnum að vera að veitast að forsetunum með þessum hætti, ekki síst þegar þeir standa í erfiðum verkum.

Og ég spyr: Ætli það sé eitthvað verra að hv. þm. Karl Steinar Guðnason, sem er formaður verkalýðs- og sjómannafélagsins í Keflavík, hafi kennarapróf? Ætli hann sé eitthvað verri maður fyrir það? Eða ætli það hafi verið eitthvað verra fyrir verkalýðshreyfinguna og verkalýðsfélagið Baldur á Ísafirði, að Hannibal Valdimarsson var skólastjóri þar um skeið? Ég er satt að segja undrandi á því, að forustumenn Alþfl. skuli tala eins og þeir hafa gert í þessari umr., að það séu hálfgerðir glæpamenn, sem stjórna verkalýðsfélögunum — og ekki nóg með það, heldur að Alþýðusamband Íslands sé í upplausn. Ég þóttist hafa rökstutt það mjög vel í ræðu minni fyrr í umr., að Alþýðusamband Íslands hefur aldrei verið eins vel í stakk búið að sinna sínu þjónustuhlutverki fyrir verkalýðsfélögin og það einmitt er í dag. Það hefur verið að styrkja sig ár frá ári með því að setja á fót hagdeild, koma á fót Menningar- og fræðslusambandi alþýðu og svo mætti lengi telja.

En hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði í sinni ræðu um sérfræðinga: Við bara kaupum þá — og vitnar þá í einhvern danskan sósíaldemókrata í verkalýðshreyfingunni. (SighB: Forseta danska alþýðusambandsins.) Forseta alþýðusambandsins danska. Það getur vel verið að forseti alþýðusambandsins í Danmörku og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, formaður þingflokks Alþfl., telji nauðsynlegt fyrir sínar stofnanir að kaupa vitið. Ég er aftur á móti sannfærður um það, að það er ekki verra að hafa í forustusveit í félagasamtökum menn sem hafa aflað sér menntunar.

Eins og ég rakti hér um daginn, þá er það ekkert kappsmál fyrir Alþýðusamband Íslands, hvorki núna né fyrr, að það verði endilega um aldur og ævi og í öllum samningum eitt allsherjarsamflot verkalýðsfélaga. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson talaði hér næstum eingöngu um þetta samflot. Verkalýðsfélögin og Alþýðusambandið meta það hverju sinni hvernig þau telja best að standa að kjarasamningum. Reynslan hefur verið sú á undanförnum árum, að menn hafa talið heppilegra að fylk ja liðinu saman, sérstaklega vegna þess að menn hafa verið að koma fram mjög þýðingarmiklum félagslegum úrbótum í fyrsta lagi, og á síðasta ári var ein meginástæðan fyrir þessu samfloti sú, að verið var að gera hér sérstakan kjarasamning. Verkalýðshreyfingin var að gera tilraun til þess, sem tókst, að koma öllum starfsheitum innan sinna vébanda í einn kjarnasamning. En hv. þm. Sighvatur Björgvinsson býsnast mikið yfir því, að nú sé þetta allt í upplausn, ýmis fagsambönd ætli að semja sér o. s. frv. En sannleikurinn er sá, að ég sé ekki betur en það verði staðið að kjarasamningum nú með mjög svipuðum hætti og gert hefur verið á liðnum árum.

Ég ætta að reyna að verða við óskum hæstv. forseta og tala ekki mjög lengi. Ég vil aðeins segja það varðandi frv. sem hér er til umr., að ég vil ítreka það sjónarmið mitt, sem ég gerði mjög ítarlega grein fyrir síðast þegar ég talaði, að ég tel ekki heppilegt að samþykkja frv. þess eðlis að með því er hlutast til um innri skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar, sérstaklega með það í huga, að það hefur ekki nokkur maður í verkalýðshreyfingunni óskað eftir því við Alþingi og allar þær stofnanir og þau samtök innan verkalýðshreyfingarinnar, sem um málið hafa fjallað, hafa lagst gegn frv. Ef við lítum aðeins nánar á það, þá eru í því ákvæði sem t. a. m. banna ekki einum manni á vinnustað, einum einasta manni, að gera úr sjálfum sér sérstakt stéttarfélag sem gæti þá farið í verkfall ef hann svo vildi. Hann gæti þá líka kosið sjálfan sig á þing stéttarfélaganna, og svo mætti lengi telja. Ég er ekki viss um að það hafi mikið gildi fyrir okkur að vera að brjóta verkalýðssamtökin niður í enn þá smærri einingar en við nú búum við. Hitt vil ég svo ítreka, sem ég sagði hér um daginn, að skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar eiga eftir að þróast með eðlilegum hætti. Ég tel að þau skref, sem hafa verið stigin hjá ÍSAL og hjá ríkisverksmiðjunum, hafi sýnt að breitt samstarf verkalýðsfélaga á vinnustað er af hinu góða. Ég hygg að verkalýðsfélögin muni, þar sem þetta á við, halda áfram að beita sér fyrir fyrirkomulagi af þessu tagi. En ég er algerlega andvígur því að löggjafinn sé með þeim hætti, sem hér er lagt til, með íhlutun um innri skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar.

Ég hef lokið máli mínu.