16.03.1982
Sameinað þing: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3103 í B-deild Alþingistíðinda. (2645)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að öll íslenska þjóðin hefur að undanförnu horft upp á hrikalegar árásir Alþb. og þó einkum formanns þess Svavars Gestssonar, á utanrrh. Ég held að það verði að teljast í hæsta máta merkilegt og líklega einsdæmi að hæstv. forsrh. skuli ekki verja utanrrh. sinn, og jafnvel þó að hæstv. utanrrh. láti sér vel líka yfirlýsingarleysið, segi það, er áreiðanlega mjög æskilegt að stuðningur forsrh. við utanrrh. landsins liggi skýrt fyrir. Til þessa hafa forsrh. gefist mörg tilefni á undanförnum dögum, en síðasta tilefnið og tækifærið, sem hann hefur fengið, er í þessum umr. Þessi ræðustóll hefði náttúrlega verið góður vettvangur fyrir slíka yfirlýsingu.

Mér finnst það einkar eftirtektarvert, að hæstv. forsrh., fyrrum varaformaður Sjálfstfl., skuli ekki sjá ástæðu til eða ekki treysta sér til að lýsa yfir afdráttarlausum stuðningi við gerðir utanrrh. Þó er utanrrh. að framkvæma vilja Alþingis sem þm. Alþb. áttu reyndar hlut að því að samþykkja fyrir ári.

Ég vil í þessu sambandi ítreka stuðning okkar Alþfl.manna við gerðir utanrrh. Það er ekki einungis að við teljum að hann hafi hvergi farið út fyrir valdsvið sitt og hafi fullt vald á þessu máli, heldur einnig að hann hafi farið rétt að og honum reyndar borið skylda til að knýja þetta mál fram. Þeirri skyldu er hann að framfylgja. Ég tel að hann hafi gert það af forsjá og stjórnsemi, og trú mín er sú, að fyrir það muni hann hljóta þakkir.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða efnisatriði þessa máls. Þau eru öllum kunn. Hér er um að ræða mál, þetta olíugeymamál, sem skiptir miklu fyrir byggðarlögin í Njarðvík og reyndar marga fleiri, og með þessum aðgerðum verður mikilli mengunar- og reyndar eldhættu bægt frá. Ég tel einsýnt, að utanrrh. muni koma þessu máli í höfn, og ég vænti þess, að hann láti ekki árásir Alþb. á sig fá. En það væri líka vonandi að jafnvel tækist til um flugstöðvarbygginguna svo að ekki þurfi að koma til þess að stjórnaraðild Alþb. þýði að 50 millj. dala sé hent út um gluggann, eins og utanrrh. komst að orði í útvarpinu í morgun.

Ég vil ítreka að það er fyllsta ástæða til þess, að forsrh. landsins standi við bakið á utanrrh. í þessu máli. Það er ekki gott að forsrh. hafi ekkert til þessara mála að leggja og treystist ekki til að lýsa yfir stuðningi við utanrrh. Ef sá stuðningur forsrh. er í rauninni fyrir hendi ætti ekki að þurfa á honum að standa. Það mundi þá geta valdið misskilningi að þessi stuðningur skuli ekki koma fram á opinberum vettvangi, ekki bara hér á landi, heldur líka á erlendum vettvangi. Þess vegna skora ég á hæstv. forsrh. að lýsa yfir stuðningi sínum við utanrrh. í þessu máli.