16.03.1982
Sameinað þing: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3105 í B-deild Alþingistíðinda. (2647)

Umræður utan dagskrár

Jóhann Einvarðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið, en ég vil þó hér og nú lýsa yfir fullum stuðningi við ákvarðanir og gjörðir utanrrh. í því máli sem hér er til umræðu utan dagskrár, svokölluðu Helguvíkurmáli. Ég var staddur erlendis þegar þál. sú, er varðar þetta mál, var samþykkt hér á Alþingi í maí s.l., en tel mig þó hafa, áður en ég fór af landi brott, haft nokkur áhrif á að víðtæk samvinna tókst innan utanrmn. um hvernig hún var orðuð.

Aðgerðir utanrrh. eru í fullu samræmi við þá þál. og í fullu samráði við heimamenn, og mun það vera eitt af fáum tilfellum þar sem heimamenn, þ.e. sveitarstjórnir á Suðurnesjum, fá tækifæri til að hafa áhrif á gang þeirra mála á frumstigi.

Í sambandi við lausn á þessu mikla vandamáli hefur farið fram könnun bæði á vegum innlendra og erlendra aðila, og er það niðurstaða þeirra kannana, að sú lausn, sem nú er ákveðin, sé heppilegust.

Vegna umræðna um að hafa olíulöndunina á eða við Vatnsnesið, þ.e. á svipuðum slóðum og var þangað til bryggja, sem þar var, fauk í ofviðri fyrr í vetur, held ég að mér sé óhætt að fullyrða að mikill meiri hluti íbúanna í Keflavík — og reyndar víðar á Suðurnesjum — telji það alveg fráleitt af ýmsum ástæðum sem hér verða ekki raktar nú.

Ég ætla ekki að fara frekar út í efnisatriði málsins nema sérstakt tilefni gefist til.

Hvað varðar ákvarðanir og útgáfu reglugerða um skipulagsmál á Suðurnesjum fullyrði ég að sveitarfélögunum á Suðurnesjum hefur tekist að efla samstarf sín á milli án atbeina ofan frá, þ.e. frá ríkisvaldinu. Enn fremur treysti ég engum manni betur til að túlka lög og stjórnskipunarrétt en núv. hæstv. utanrrh. Ólafi Jóhannessyni.

Bæjarstjórn Keflavíkur hefur á fundi sínum 9. þ. m. samþykkt að tillögu bæjarráðs Keflavíkur drög að samningi við varnarmáladeild utanrrn. varðandi framkvæmdir í og við Helguvík. Það voru átta bæjarfulltrúar Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. sem stóðu að þeirri samþykkt gegn einu atkvæði bæjarfulltrúa Alþb. Ég til rétt að lesa hér upp bókun þá er þessir átta bæjarfulltrúar gerðu er þeir samþykktu samningsdrögin, því að ég held að bókunin túlki og skýri viðhorf heimamanna nokkru betur en ég gæti í jafnmörgum orðum. Bókunin er svona:

„Í allmörg ár hafa vandamál þau, sem stafa af staðsetningu olíubirgðastöðvar varnarliðsins, verið til umræðu í bæjarráðunum í Keflavík og Njarðvík. Umræðan hefur beinst að mengunarhættu, skipulagsmálum og landflutningum á olíu. Vegna vandamáls þessa skipaði utanrrh. nefnd til að kanna og gera tillögur um staðarval olíuuppskipunarhafnar.

Á sameiginlegum fundi bæjarráðanna var fallist á tillögur nefndarinnar um að heppilegasta staðsetning hafnarinnar væri í Helguvík. Á grundvelli þeirrar samþykktar hafa nú náðst samningar við varnarmáladeild varðandi framkvæmd málsins og leggjum við áherslu á eftirfarandi atriði:

1. Gagnstætt því, sem áður hefur tíðkast, hefur undirbúningur þessa máls verið unninn í samráði við heimamenn og það tryggt, að þeir geti fylgst með hönnun og framkvæmdum og komið þar að sínum skoðunum.

2. Öll mannvirki skulu uppfylla ströngustu kröfur um búnað og frágang samkv. íslenskum lögum.

3. Umsjón, afgreiðsla og öll öryggisgæsla á hafnarsvæðinu verður í höndum íslenskra aðila.

4. Staðið verður þannig að framkvæmdum, að þær komi að sem fyllstum notum við frekari hafnargerð í Helguvík, og íslenskum olíufélögum verða heimiluð afnot hafnargarðs og bygging löndunarbúnaðar þar ef þau óska þess.

5. Það landrými innan bæjarmarka Keflavíkur, sem varnarmáladeild fær til afnota vegna framkvæmdanna, er aðeins ræma meðfram bjargbrún norðan Helguvíkur, utan þess svæðis sem nokkrar líkur eru á að nýtilegt hefði verið til skipulagðrar byggðar. Sem endurgjald fær Keflavíkurbær hins vegar til afnota ca. 100 hektara landspildu sem bærinn hefur áður falast eftir afnotum af vegna þarfa sjávarútvegsins.

6. Með samningi þessum teljum við að fengist hafið viðunandi lausn á mengunar- slysa- og skipulagsvandamálum, en leggjum jafnframt áherslu á þá brýnu nauðsyn, að öllum þungaflutningum til og frá varnarliðinu verði létt af Reykjanesbraut vegna aukinnar slysahættu í sívaxandi umferð um veginn.

7. Í samþykkt bæjarstjórnar frá 2. febr. s.l. var lögð á það áhersla, að hafnarmannvirki, sem byggð yrðu af varnarliðinu í Helguvík, og hafnarsvæðið yrðu ávallt í umsjón og eigu heimamanna. Þetta var gert vegna þess að við töldum óeðlilegt að samgöngumannvirki á Íslandi væru í eigu erlendra aðila. Samþykkt þessi hefur sætt gagnrýni íslenskra stjórnvalda og hefur félmrh. gagnrýnt þessa samþykkt sérstaklega. Við föllumst því á að með eignaraðildina verði farið eftir varnarsamningnum, enda verði meginhluti hafnarsvæðisins eftir sem áður til ráðstöfunar fyrir heimamenn.“

Ég fullyrði að þetta speglar álit mikils meiri hluta íbúanna í bæjarfélögunum þarna syðra.

Til þess að öllu réttlæti sé fullnægt held ég að rétt sé að lesa hér upp bókun Karls Sigurbergssonar bæjarfulltrúa Alþb., svo að allt komi fram sem bókað var um málið á þessum bæjarstjórnarfundi. Hann lét bóka eftirfarandi:

„Þar sem ekki hefur verið valin fljótvirkasta leiðin til þess að hamla gegn olíumengun af völdum olíugeyma varnarliðsins og samningsdrög þau, er hér liggja fyrir til afgreiðslu, fela ekki í sér neitt sem réttlætir svo umfangsmikla aukningu umsvifa Bandaríkjahers og NAT0 hér á landi, greiði ég atkvæði gegn fyrsta máli í fundargerð bæjarráðs 4. mars. Jafnframt, þar sem ekki hefur verið til þessa leitað álits annarra aðila um málið í heild, áskil ég mér rétt til að skjóta þessari gerð til löglegra skipulagsyfirvalda.“

Ég ítreka það sem ég sagði áðan: Ég held að sú bókun sem meiri hluti bæjarstjórnar Keflavíkur, átta af níu bæjarfulltrúum, gerði samhljóða varðandi samningsdrögin sem þeir hafa gert við varnarmáladeildina, spegil álit mikils meiri hluta íbúanna á þessu svæði.

Herra forseti. Ég ítreka stuðning þingflokks Framsfl. við hæstv. utanrrh. í þessu máli sem öðrum.