16.03.1982
Sameinað þing: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3108 í B-deild Alþingistíðinda. (2650)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara hér rækilega yfir afstöðu Alþb. til svokallaðs Helguvíkurmáls eða olíugeymamáls. Hún er öllum kunn og ég tel ekki ástæðu til að vera að tefja tímann með því.

Ég lagði fram í ríkisstj. í morgun nokkur minnisatriði um þetta mál svo og um stjórnarsamstarfið og stjórnarsáttmálann og ég mun ræða þau mál á vettvangi ríkisstj.

Hæstv. forsrh. svaraði fsp frá hv. 3. þm. Vestf. í dag varðandi ágreining sem upp hafi komið um störf einstakra ráðherra. Ég sætti mig vel við þá yfirlýsingu sem hæstv. forsrh. gaf hér í dag, en ljóst er að uppi eru ágreiningsefni og úr þeim verður að skera. Það verður að reyna að leysa þau á vettvangi ríkisstj., og ég er sannfærður um að til þess er yfirleitt fullur vilji.

Ég ætla ekki að ræða Helguvíkurmálið, eins og ég sagði, í einstökum atriðum. Ég vildi koma þessu á framfæri, en jafnframt geta þess í þessari stuttu ræðu, að ég er andvígur þeim hugmyndum sem utanrrh. hefur verið með til þessa varðandi lausn á olíugeymavandanum. Ég tel að aðrar lausnir séu betri og heppilegri frá því sjónarmiði að losa íbúa Njarðvíkur og Keflavíkur við þann mengunarvanda sem stafar frá bandaríska hernum, þ.e. olíuhlutann af þeim vanda.