16.03.1982
Sameinað þing: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3109 í B-deild Alþingistíðinda. (2652)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Þeir hafa ekki verið langorðir, hæstv. ráðherrar, í þessum utandagskrárumræðum. Þeim hefur vafist tunga um tönn. Þeir eru bersýnilega mun málglaðari við fjölmiðla en hér á Alþingi. Þeir sýna fjölmiðlum meiri tillitssemi en alþingismönnum. Það er með fádæmum, eftir þær gagnkvæmu árásir sem uppi hafa verið meðal ráðh., gagnkvæmar ásakanir um valdníðslu, valdrán, markleysur og lögbrot, að það komi ráðh. á óvart, eins og hæstv. forsrh.. að þessi ágreiningur meðal háseta hans sé tekinn til meðferðar á Alþingi. Og það er eins og það komi hæstv. forsrh. á óvart að til hans sé beint ýmsum fsp. af því tilefni og öðrum en þeim sem formlega var gert með samþykkt þingflokks Alþfl. Það liggur í augum uppi að þm. eiga rétt á að spyrja ráðh. og þeir eiga rétt á að fá svör ráðh. ef efnislegar upplýsingar eru fyrir hendi.

Nú er það mál, sem hér er um að ræða, svo margrætt að það ætti ekki að vefjast fyrir ráðh. og síst af öllu hæstv. forsrh. að svara fsp. sem til hans er beint.

Hér hafa menn túlkað svar forsrh. og ég vil túlka það einnig með þeim hætti, sérstaklega með tilvísun í ræðu hæstv. utanrrh. sem kvaðst eftir atvikum vera ánægður með mat sitt á svarinu, að auðvitað felst í því að hæstv. utanrrh. hefur fulla heimild til að halda áfram meðferð málsins samkv. þeim fyrirætlunum sem ráðh. hefur lýst yfir að hann hefði í huga. Það kann þess vegna að velta á því, hvort ráðherrar Alþb. skjóta þessu máli til úrskurðar hæstv. forsrh. eða hvort þeir láta sér lynda að svo haldi fram sem horfir og utanrrh. hefur skýrt þingheimi frá að hann stefni að.

Ég tek það fram, að það er vitnisburður um hve mikil alvara fylgir málæði Alþb. utan þings, hvort það muni krefjast slíks úrskurðar eða ekki og lyppast þá niður. Mín skoðun er sú, að Alþb.-ráðherrarnir muni lyppast niður og þetta verði eins og loftbelgur sem stungið er á og fellur til jarðar. En reynslan ein fær svarað því, hvorn kostinn Alþb. velur. Ég vil leggja sérstaka áherslu á að vilji meiri hluta Alþingis er ljós og ef vikið er að einhverju leyti frá honum er það skylda Alþingis að grípa í taumana.

En svo mikla athygli sem ýmist fjarvera eða þögn Alþb.-manna gagnstætt venju vekur, þá er eitt athyglisvert, sérstaklega með tilvísun til þess, að formaður Alþb., hæstv. félmrh., var að kvarta yfir því að hafa ekki nægilegan ræðutíma fyrr í dag í spurningatíma. Nú hefur hæstv. forseti Sþ. verið þingmönnum skilningsríkur og umburðarlyndur varðandi ræðutíma í þessum umr. utan dagskrár. Hæstv. félmrh., formaður Alþb., hefur þess vegna ekki orðið að hlíta takmörkun ræðutíma. En þegar hann hefur ræðutíma til umráða hefur hann ekkert að segja. Þessi þögn segir sína sögu. Ég hlustaði á hæstv. utanrrh. í morgun í Morgunvöku og hlýddi á niðurlagsorð hans þar sem hann var, að því er mig minnir, spurður hvort hann héldi að Alþb.-ráðherrarnir segðu af sér. Hann svaraði því neitandi og bætti því við, að gengju þeir út væri það sama og að fyrirfara sér. Þegar ég leit í Morgunblaðið í morgun sá ég eina fyrirsögnina eitthvað á þessa leið: Khomeini ráðleggur Hussein konungi að fremja sjálfsmorð. — Þá varð mér hugsað að betra væri nú að búa á Íslandi en þar eystra. Ólíkt sýndi Ólafur Jóhannesson miklu meiri mannúð en Khomeini. Khomeini ráðleggur Hussein að fremja sjálfsmorð, en Ólafur Jóhannesson varar Alþb.-ráðherrana við að fyrirfara sér.