16.03.1982
Sameinað þing: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3110 í B-deild Alþingistíðinda. (2653)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það hefur mikið verið fjallað um þetta mál nú og ekki að ófyrirsynju. En tilefni þess, að ég stend hér upp, er einkum það, að formaður Alþb. kom hér upp áðan og hélt fram að til væri betri lausn á þessu olíugeymamáli en fram hefði komið og verið væri að ræða um hér. Ég vil eindregið mótmæla því. Sannleikurinn er sá, að þetta mál, hvar geymarnir eiga að vera, hvar á að setja þá niður, er búið að rannsaka mjög nákvæmlega og þetta er eini staðurinn á Suðurnesjum þar sem mögulegt er að gera það á þann veg að afstýrt verði olíumengun í framtíðinni.

Kröfur íbúanna í Keflavík og Njarðvík um að fjarlægja þessa tanka hafa verið um það að forða bæjarbúum frá olíumengun vatns. Alþb. hefur aftur á móti sett sig upp á móti þessu. Í fyrstu var það á móti því að bætt yrði úr þessari mengunarhættu og fann alls konar tilefni til þess. Síðan barst hvalreki á fjörur þess þar sem forstjóri Olíufélagsins hf. fyrirtækis sem þeir hafa úthrópað sjálfir sem mesta hernámsfyrirtæki norðan Alpafjalla, kemur með tillögu um að flytja geymana ofar í heiðina, þ.e. á þann stað sem gerir það að verkum að hætta á vatnsmengun verður meiri en áður. Þeir grípa þetta og telja það vera lausn á málinu. Er með ólkindum að menn skuli eltast við þetta, og með ólíkindum, að Alþb. skuli taka sér það fyrir hendur, einkum og sér í lagi að verja hagsmuni þessa gróðafyrirtækis sem fyrst og fremst er að hugsa um eigin hag þarna en ekki íbúanna á Suðurnesjum. Það er fyrst og fremst að hugsa um eigin hag, eigin gróða. Það er að koma því til leiðar að það missi ekki spón úr aski sínum. Og Alþb. eitt flokka á Íslandi tekur undir það að þetta hernámsfyrirtæki, eins og Alþb.menn segja sjálfir að sé, fái máli sínu framgengt.

Svo er annað undarlegt í þessu máli af hendi Alþb. Þetta er í fyrsta sinn síðan varnarliðið kom hingað sem varnarsvæðið er minnkað. Íbúarnir í Keflavík og Njarðvík fá miklu stærra landssvæði til íbúðarbygginga heldur en þeir láta af hendi, það er um tífalt meira. Alþb.menn eru á móti því líka, hvað sem veldur.

Þetta upphlaup í blöðum og undarlegheit Alþb. eru vissulega mikið til umræðu meðal landsmanna. Flestir eða allir sjá að þetta er sýndarmennskan ein. Alþb.menn meina ekkert með þessu, þeir éta þetta auðvitað allt ofan í sig, eins og utanrrh. hefur áður haft á orði varðandi þetta mál.

Utanrrh. hefur í þessu máli farið að till. sem var samþykki hér á Alþingi í fyrra, er að framkvæma till. sem var samþykkt hér á Alþingi og Alþb.-menn samþykktu. Þeir samþykktu í raun þessa lausn. Þeir samþykktu að þessu yrði flýtt og þetta yrði framkvæmt. Auðvitað máttu þeir vita að þetta samþykki þeirra kostaði að byggð yrði olíuhöfn á hagkvæmasta staðnum, valinn yrði staður sem yrði utan vatnspottsins en ekki yfir honum.

Ég tel að utanrrh. sé að gera rétt í þessu máli. Hann er að framkvæma vilja þingsins og vilja Alþb.-manna líka. Í lokin vil ég spyrja formann Alþb. hvort hann metur þetta mál til stjórnarslita eða hvort honum er nokkur alvara í þessu máli. Ég skil svar forsrh. á þann hátt, að hann hafi lýst yfir að hann styddi utanrrh. í þessu máli eins og við hinir gerum. Þar með er ljóst að félmrh. kemst ekki upp með neinn moðreyk, honum tekst ekki að rugla menn í ríminu varðandi þessi mál. Eftir sitja þeir með það að hafa étið þetta ofan í sig — eða ætla þeir að gera eitthvað annað.