16.03.1982
Sameinað þing: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3111 í B-deild Alþingistíðinda. (2654)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Þegar vandinn, sem stafar af núverandi olíugeymum bandaríska hersins, var til umr. hér á Alþingi höfðum við þm. Alþb. í samvinnu við núv. varaformann Framsfl. frumkvæði að því, að upphaflegu tillögunni, sem þm. Alþfl. og fleiri höfðu flutt hér um Helguvíkurframkvæmdir, var breytt í meðferð þingsins. Þegar utanrmn. skilaði af sér tillögunni var hún allt önnur en sú tillaga sem upphaflega var lögð fyrir þingið.

Upphaflega tillagan fól í sér að í Helguvík yrðu byggðir olíugeymar og gerð höfn í samræmi við sérstaka tillögu sem nefnd hafði skilað. Hins vegar var tillagan, sem afgreidd var hér á Alþingi, á þann veg. að lausnin ætti að bindast eingöngu við mengunarvanda íbúanna á Suðurnesjum.

Það kom skýrt fram í umr. á Alþingi um þessa breyttu tillögu, að skilningur Alþb. — og reyndar annarra sem höfðu unnið að þessari breytingu á tillögunni í utanrmn. — var sá, að eingöngu ætti með þessum framkvæmdum að leysa mengunarvanda byggðarlaganna.

Nú er hins vegar komið í ljós að hæstv. utanrrh. hefur lagt fram tillögur að hönnun sem eru þó nokkuð annars eðlis en þær tillögur sem tillagan á Alþingi fól í sér. M.a. er í þessum tillögum — samkv. viðtali sem málgagn Framsfl., Tíminn, á við hæstv. utanrrh. í dag — bygging á sérstakri höfn utan varnarsvæðanna svokallaðra sem Bandaríkin og NATO eiga að borga.

Ég held ég fari rétt með — ég skal þó ekki fullyrða það, en það mætti athuga það síðar — að það yrði þá fyrsta mannvirkið á Íslandi utan varnarsvæða sem Bandaríkin borguðu. Það er vissulega nokkur nýjung í meðferð þessa máls, að samgönguvirki af þessu lagi, höfn, eigi að greiða af bandarísku fé.

Í þessu sambandi vil ég minna á það, að formaður þingflokks Framsfl. sendi frá sér þá yfirlýsingu fyrir nokkrum mánuðum, að það væri samkomulag í núv. ríkisstj. að varðandi herstöðina ríkti óbreytt ástand. „status quo.“ Þessi yfirlýsing formanns þingflokks Framsfl. er nákvæmlega hin sama og sú sem við forsvarsmenn Alþb. höfum gefið í þessu máli. að þetta stjórnarsamstarf væri grundvallað á því, að varðandi herstöðina í Keflavík eða herstöðvarnar annars staðar á landinu yrðu ekki gerðar neinar efnislegar breytingar eða farið út í nemar nýjar meiri háttar framkvæmdir.

Það stjórnarsamstarf, sem nú er í landinu, grundvallast á þessum skilningi og það grundvallast á ákveðnum vinnubrögðum og samstarfsháttum sem stjórnaraðilarnir hafa komið sér saman um og gerðu þegar í upphafi til þess að tryggja að meðferð allra mála í ríkisstj. væri með þeim hætti að ríkisstjórnaraðilar gætu vel við unað.

Mikið hefur verið rætt um það í þessum umr., sérstaklega af stjórnarandstöðunni, hvort Alþb. ætlaði að fara úr ríkisstj. vegna þessa máls. Vissulega má segja að málflutningur stjórnarandstöðunnar sé nokkuð tvíbentur. Annars vegar flytja menn ræður um það, að ekkert sé að marka Alþb. í þessu máli, þetta hafi allt saman verið sjónarspil vegna kosninga eða prófkjaraúrslita eða einhvers slíks, eins og mátti skilja á varaformanni Sjálfstfl. Á hinn bóginn lýsa menn yfir að ástæða sé til að knýja á um svör við því, hvort þetta mál verði tilefni stjórnarslita.

Það er að vísu eitt sem gengur eins og hreinn tónn í gegnum ræður stjórnarandstæðinga hér. Það er hið mikla lof og það mikla traust sem þeir bera til utanrrh. Ég óska hæstv. utanrrh. til hamingju með þessar sérstöku traustsyfirlýsingar, sem stjórnarandstaðan flytur honum hér á Alþingi, og það mikla lof sem hún ber á hann. Það væri vel þess vert að velta því fyrir sér í góðu tómi, jafnvel í einrúmi, hvaða hagsmunir eða hugmyndir kunni að liggja að baki því, þegar stjórnarandstaðan kýs að flytja sérstakan dýrðaróð af þessu lagi um tiltekinn ráðherra í ríkisstj.

Hitt verð ég að segja, að það verða ný tíðindi fyrir mig ef það á fyrir Framsfl. að liggja að gerast sérstakur forgönguflokkur um aukin hernaðarumsvif í þessu landi. Framsfl. gerði fyrir um það bil 30 árum kröfu til þess að fá utanríkismálin úr höndum Bjarna Benediktssonar og Sjálfstfl. yfir í hendur Framsfl. og Kristins Guðmundssonar til þess að geta haft betri stjórn á því, með hvaða hætti samskipti hersins og þjóðarinnar væru. Það var mögnuð gangrýni, mikil andstaða innan Framsfl. við þeirri útþenslustefnu hersins sem rekin hafði verið á þeim tíma.

Síðan má rekja fjölmörg önnur dæmi í sögu Framsfl. um það, að hann hefur ýmist lýst yfir að herinn ætti að fara eða sérstaklega tekið það fram að hamla beri gegn umsvifum hersins.

Ég játa hreinskilningslega að ef Framsfl. ætlar í reynd á næstu mánuðum og misserum að fara að snúa af þessari stefnu og gerast sérstakur forgönguflokkur þess að gífurlega aukin hernaðarumsvif verði í landinu, þá er það vissulega ný staða í íslenskum stjórnmálum og ný staða í sögu Framsfl. Ég lifi hins vegar enn þá í þeirri von, að sú yfirlýsing, sem formaður þingflokks Framsfl. gaf hér fyrir nokkrum mánuðum, um að óbreytt ástand ætti að ríkja í þessum efnum, verði hin rétt mynd af veruleikanum. En ef það reynist ekki og hér verður gengið inn á þá braut að auka hernaðarleg umsvif með stórfelldum hætti, þá er alveg ljóst að þeir, sem í fararbroddi þeirrar göngu ganga, verða þeir sem stefna tilveru þessa ríkisstjórnarsamstarfs í hættu. Upphafsmennirnir, gerendurnir sjálfir, þeir sem skapa hina nýju stefnu, þeir sem skapa atburðarásina, það verða þeir sem þá í reynd rjúfa ríkisstjórnarsamstarfið, en ekki hinir sem vilja ekki una slíkri stefnubreytingu.