16.03.1982
Sameinað þing: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3114 í B-deild Alþingistíðinda. (2656)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen) Herra forseti. Ég tel ástæðu til vegna ummæla hv. síðasta ræðumanns að benda á grundvallarmisskilning sem kemur fram í hans máli. Ég hélt að hv. þm. eins og öðrum væri kunnugt að það er lögmál lýðræðisins að leita samkomulags og málamiðlunar. Það er einnig lögmál í samsteypustjórnum, að þegar skoðanir þeirra aðila, sem standa að ríkisstj., eru skiptar, þá er reynt í lengstu lög að ná samkomulagi og málamiðlun. Ályktun hans um það, að annars vegar sé ákveðin skoðun og hins vegar önnur ákveðin og ekkert sé til þar á milli, er reginmisskilningur á eðli lýðræðis og samsteypustjórna.

Varðandi það mál, sem hér er um að ræða, þá hefur það verið ítarlega rætt í ríkisstj., eins og hefur verið skýrt tekið fram, og verður áfram. Að sjálfsögðu munum við leita að málamiðlun og samkomulagi í þeim deilumálum sem uppi hafa verið.