16.03.1982
Sameinað þing: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3114 í B-deild Alþingistíðinda. (2657)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs til að þakka hæstv. forsrh. fyrir að hafa gert einarðlega og vel grein fyrir afstöðu sinni til þess sem hæstv. utanrrh. hefur verið að beita sér fyrir að undanförnu og verið að koma í veg fyrir. En ég veit nú ekki nema hann hafi tekið eitthvað til baka af sinni fyrri ræðu með hinni síðari.

Hæstv. utanrrh. er að vinna að því að hrinda í framkvæmd vilja Alþingis, fylgja eftir ályktun Alþingis, eins og hún var samþykkt. Nú skilst mér á hæstv. forsrh. að það sé reginmisskilningur á eðli lýðræðis og samsteypustjórna að ekki sé reynt að leita samkomulags. Í þessum ummælum hæstv. forsrh. felst auðvitað að hann hefur í huga að beita sér fyrir því, að með einhverjum hætti verði dregið úr þeirri ályktun og þeirri ályktun breytt sem Alþingi samþykkti í þessu máli. Það liggur á borðinu. Ég veit af gamalli reynslu að það þýðir ekki að spyrja hvaða hugmyndir hann hefur um það. Ég skal viðurkenna að undir þessum kringumstæðum er rétt af honum að geyma það hjá sér um stund, hvort hann finni lausn á þessu máli. Ég skal ekki gagnrýna það. Hins vegar þakka ég honum fyrir þá hreinskilni að hafa sagt þetta hér í lok umr., því að vitaskuld þýða orð hans ekkert annað en að hugmynd hans sé sú, að ekki verði staðið við ályktun Alþingis eins og hún var samþykkt um þessi mál. Það liggur á borðinu.

Ég vil líka vegna þeirra ummæla, sem fram komu hjá hæstv. félmrh., sem er víst farinn á framkvæmdastjórnarfund aftur, og vegna ummæla hv. 11. þm. Reykv. segja það, að nú er svo komið að fyrst talar hæstv. iðnrh. um það í Tímanum, að það hljóti að hrikta í stjórnarsamstarfinu eftir síðustu framvindu mála, og síðan er haft innan gæsalappa, með leyfi hæstv. forseta: „ef Framsfl. ætlar að gera málsmeðferð utanrrh. að sinni.“ Þessi skilaboð eru alveg skýr. Málamiðlunin, sem hæstv. forsrh. talar um, er náttúrlega fólgin í því að hafa áhrif á málsmeðferð utanrrh., breyta henni. Skilaboðin hafa sem sagt komist til skila frá hæstv. iðnrh. Það er ekki hægt að skilja þögn ýmissa ráðh. Framsfl., annarra en hæstv. utanrrh., á annan veg en þann, að þeir telji vitlegast núna að taka þann kostinn að segja sem minnst. Það er sennilega af því að hæstv viðskrh. hefur ekki verið nógu lengi í þingsal. Annars hefði hann kannske verið búinn að segja okkur einhver sannleikskorn því að hann má eiga það að hann er hreinskilinn þegar hann talar hér á annað borð.

Nú vil ég aðeins segja það í öðru lagi. að þau ummæli, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson viðhafði hér áðan, eru náttúrlega mjög alvarleg ef á að taka mark á þeim. Rétt er að hafa það í huga, að þau eru sögð sama daginn og það kemur í Þjóðviljanum að hæstv. félmrh. telji reglugerð utanrrh. markleysu, sama daginn og hæstv. utanrrh. er brigslað um það i Þjóðviljanum, að hann hlaupi til Bandaríkjamanna, þegar halli undan fæti hér heima, og leyti þar skjóls. Síðan segir hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður þingflokks Alþb., að hæstv. utanrrh. sé með stefnu sinni að auka hernaðarumsvif með stórfelldum hætti. Hann talar um að þeir, sem skapi hina nýju stefnu, skapi atburðarásina og að með því að Framsfl. hafi gerst forgönguflokkur um aukin hernaðarumsvif í landinu sé það á hans ábyrgð ef ríkisstjórnarsamstarfið rofni. Þessi orð öll eru náttúrlega sögð í þeim anda að undir engum kringumstæðum geti Alþb. fallist á málsmeðferð hæstv. utanrrh.

Ég held að það sé ógjörningur að skilja orð hæstv. félmrh. og orð hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar öðruvísi en svo, að þeir hafi lýst hér yfir í dag að þeir geti undir engum kringumstæðum fallist á málsmeðferð hæstv. utanrrh. Þegar þessi orð eru síðan sett í samhengi við ummæli hæstv. forsrh. áðan verður deginum ljósara að nú á að gera varnar- og öryggismálin enn einu sinni að verslunarvöru í íslenskum stjórnmálum og væri vissulega alvara á ferðum nema vegna þess, eins og margsinnis hefur komið fram raunar, ekki aðeins í þessum umr. hér heldur undanfarin misseri, að varnar- og utanríkismálin eru á hendi þess manns í ríkisstj. sem best er treystandi í þeim efnum vegna sinnar löngu reynslu í stjórnmálum og þeirrar miklu yfirsýnar sem hann hefur um þessi mál. Þetta er í raun það sem kemur út úr þessu.

Ég vil svo aðeins segja það að lokum, að ég skil ummæli hæstv. forsrh. um að hann beri fyllsta traust til hæstv. utanrrh. í ljósi hinnar seinni ræðu hæstv. forsrh., skil þau á minn hátt í ljósi hennar. Það hljóta aðrir menn að gera einnig, því að svo mikið er búið að gefa í skyn núna um að grundvöllurinn fyrir þessu stjórnarsamstarfi sé ekki jafnsterkur og áður. Það má vel vera að ríkisstj. takist að tjasla sér saman á nýjan leik, ná einhverju málamyndasamkomulagi, en menn verða auðvitað ekki trúaðir á að það haldi til lengdar. Við getum aðeins rifjað upp hvers vegna. Það er í fyrsta lagi vegna Helguvíkurmálsins. Það er í öðru lagi vegna þeirra atburða sem gerst hafa í sambandi við orkumálin og óþarfi er að rifja upp hér. Svo skal í þriðja lagi nefna þá ringulreið sem ríkir í launamálum og þau miklu átök sem menn búast við á launamarkaðinum nú með vordögum, þegar það er á almannavitorði og menn tala um það opinskátt sín á milli, að forseti Alþýðusambands Íslands stefni í harðar vinnudeilur strax í maímánuði. Það er sem sagt deginum ljósara eftir þessar umr. að alvarlegur brestur er kominn í stjórnarsamstarfið og menn geta ekki eftir þær tekið yfirlýsingar hæstv. forsrh. alvarlega þegar hann segir að á þessari stundu geti hann fullvissað menn um að stjórnarsamstarfið muni haldast til vorsins 1983.