16.03.1982
Sameinað þing: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3116 í B-deild Alþingistíðinda. (2659)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég skoraði á hæstv. forsrh. áðan að láta það koma skýrt fram, að hann stæði við bakið á hæstv. utanrrh. Slík yfirlýsing kom fram frá hæstv. forsrh., en hún stóð heldur skamma hríð. Ég verð að segja að þau ummæli, sem hæstv. forsrh. hafði í seinustu ræðu sinni, þýða það á mínu máli, að hann ætli að beita sér fyrir að breyting verði gerð á málsmeðferð utanrrh. og þá vegna þrýstings og árása Alþb. Þetta tel ég ákaflega miður. Ég trúi í rauninni ekki að hæstv. forsrh.

ætli sér með þessum hætti að taka völdin af hæstv. utanrrh. í rauninni að beita sér með þeim hætti að segja í reynd að hæstv. utanrrh. hafi farið út fyrir það umboð sem hann hafi — og ég veit að það er ekki skilningur Alþingis. Mikill meiri hluti alþm., stór meirihluti þjóðarinnar er þeirrar skoðunar, að utanrrh. hafi farið rétt að og hafi fullt vald í þessu máli.

Ég ítreka að það er nauðsynlegt, ekki einungis á innlendum vettvangi, heldur líka gagnvart erlendum aðilum, að það liggi skýrt fyrir að hæstv. forsrh. styðji utanrrh. í þessu máli og ætli sér ekki að skerða vald hans eða kúga hann á nokkurn hátt í þessu máli. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. geti gefið yfirlýsingu af þessu lagi.