02.11.1981
Neðri deild: 8. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Það er óhjákvæmilegt að forseti rifji upp 38. gr. þingskapa, þar sem segir: „Ef umræður dragast úr hófi fram, getur forseti úrskurðað, að ræðutími hvers þm. skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd, og einnig getur forseti stungið upp á, að umræðum sé hætt.“

Nú er forseti þessarar hv. deildar maður málfrelsis umfram allt, enda hefur hann ekki í hyggju að skera niður ræðutíma, enda mun á það ráð brugðið, að verði umr. um þetta mál ekki lokið fyrir kl. 4 í dag, á venjulegum þingfundatíma, mun boðað til kvöldfundar kl. 9 í kvöld. Hér eru mörg mál á dagskrá, sem hv. þm. og flm. þeirra liggja á hjarta, og þótt málið sé mikilsvert er með öllu ótækt að það verði þæft lengur en nú hefur verið tilkynnt.