17.03.1982
Efri deild: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3120 í B-deild Alþingistíðinda. (2673)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Einhvern veginn verða menn að fara að því að fá orðið. — Mér finnst þetta vera dálítið ruglingslegt. Ég segi alveg eins og er, að ég lagði aldrei þann skilning í þessa mgr. að með því væri gert ráð fyrir að með engu móti kæmi til atkv.mgr. þar sem stendur í frv. sjálfu „með samþykki rekstraraðila“ o.s.frv. Ég hafði, eins og einhverjir hv. þdm. muna, lýst yfir stuðningi við þessa 2. mgr. 2. brtt. á þskj. 373 þar sem segir: „Efna má til samvinnu á viðskiptagrundvelli“ o.s.frv. Það eru taldir þar upp fleiri aðilar en Þjóðleikhúsið, en ég vil taka það sérstaklega fram, að ég hefði aldrei léð máls á því að út væri felld sú heimild að með samþykki rekstraraðila gætu fleiri sveitarfélög komið til viðræðna og komið að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ég lagði aldrei þann skilning í þetta. Ef þessi málsmeðferð verður á höfð og þessi mgr. fellur út, þá get ég ómögulega samþykkt þessa brtt. Ég tel það ómögulegt.