17.03.1982
Efri deild: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3122 í B-deild Alþingistíðinda. (2680)

208. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Allshn. hefur milli 2. og 3. umr. fjallað um þetta mál á nokkrum fundum. Þar var einkum til umræðu till. sem hér var flutt og var dregin til baka til 3. umr. um að lækka skyldi kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum í 18 ár nú á þessu vori. Till. var frá þeim hv. þm. Guðmundi Vésteinssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni. Nefndin hefur fjallað um þessa till. svo og hefur hún ráðfært sig við ýmsa þá sem sinna framkvæmd sveitarstjórnarkosninga. Það er ljóst að ekki er langur tími til stefnu. Nú eru kannske tveir kostir einkanlega fyrir hendi. Ljóst er að ýmsir flokkar hafa þegar ákveðið sína framboðslista svo að ekki er gerlegt að breyta kjörgengi þannig að allir sitji við sama borð úr því sem komið er. Var því sá kostur fyrir hendi að lækka kosningaaldur en halda kjörgengi óbreyttu miðað við 20 ára aldur. Mönnum þótti þetta ekki æskilegasta lausn sem hægt var að hugsa sér — né þótti mönnum það góður kostur að samþykkja það nú, að 18 ára kosningaaldur tæki gildi að rúmum fjórum árum liðnum, þ.e. í sveitarstjórnarkosningum 1986. Hins vegar er enginn ágreiningur um það í allshn. og sjálfsagt ekki heldur í þessari hv. deild, að lækka beri kosningaaldur í 18 ár. Um það hafa allir stjórnmálaflokkar, sem fulltrúa eiga á Alþingi, markað stefnu og gefið út yfirlýsingar.

Það varð hins vegar niðurstaða okkar í allshn. að tíminn, sem til stefnu er núna, sé of naumur — og raunar var fullyrt við nefndina af ýmsum aðilum að þetta væri nær óframkvæmanlegt á þeim tíma sem er til stefnu, — kannske ekki alveg óframkvæmanlegt en alla vega torvelt mjög og mundi hafa ýmsan aukakostnað í för með sér. Það varð því okkar niðurstaða í allshn. að skila hér framhaldsnál. sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Milli 2. og 3. umr. hefur nefndin athugað brtt. frá Guðmundi Vésteinssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni um að kosningaaldur og kjörgengi í sveitarstjórnarkosningum verði 18 ár í stað 20 eins og nú er.

Nefndarmenn eru allir fylgjandi því, að kosningaaldur verði lækkaður í 18 ár. Allir stjórnmálaflokkar, sem fulltrúa eiga á Alþingi, hafa markað þá stefnu. Nm. er ljóst að þar sem tími er skammur til stefnu til sveitarstjórnarkosninga í vor er torvelt og að margra mati nær óframkvæmanlegt að koma ákvæðinu um 18 ára kosningaaldur í framkvæmd á þessu vori. Er því till. um lækkun nú dregin til baka.

Við undirritaðir nm. munum að hausti flytja frv. til breytinga á sveitarstjórnarlögum um að kosningaaldur verði færður niður í 18 ár.“

Undir þetta framhaldsnál. skrifa Eiður Guðnason, Salome Þorkelsdóttir, Eyjólfur Konráð Jónsson, Egill Jónsson, Jón Helgason, Stefán Guðmundsson og Helgi Seljan.

Að vísu ber e.t.v. að taka slíkar yfirlýsingar með nokkrum fyrirvara, því að enginn veit hver verður hér að hausti. Það var þó okkar samráð að hafa þetta svona, í trausti þess að a.m.k. einhverjir þeirra, sem undir þetta skrifuðu í dag, mundu verða hér einnig að hausti og halda þá uppi því merki sem allshn. hefur með þessu reist. Læt ég þá útrætt um þennan þátt.

Allshn. ber á þskj. 459 fram brtt. við 18. gr., að þar bætist inn í ein mgr. Er það gert samkv. ábendingum þeirra, sem gerst þekkja til, og að tilmælum félmrn. Það er setningin „Hver maður á kosningarrétt í því sveitarfélagi sem hann á heima í þegar framboðsfrestur rennur út.“ Nefndin mælir með því, að þessi grein verði samþykkt með þessari breytingu. Aðrar breytingar leggur nefndin ekki til.