17.03.1982
Efri deild: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3123 í B-deild Alþingistíðinda. (2682)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum óskaði ég eftir að 2. umr. um frv. til l. um breytingar á Hæstarétti Íslands yrði frestað svo að tækifæri gæfist til að kynna þm., þeim sem áhuga hefðu á, það álit sem forseti lagadeildar Háskóla Íslands skilaði allshn. þar sem hann benti á tvo aðra valkosti til að leysa þau vandkvæði í dómstólakerfi landsins sem stafa af miklum fjölda mála á æðsta dómstiginu, jafnframt til þess að aflað yrði upplýsinga um nokkur atriði, þ. á m. hvort einhugur hefði verið í Hæstarétti um það frv. sem hér liggur fyrir. Ég þakka formanni nefndarinnar fyrir að mér hafa borist í hendur þau gögn sem forseti lagadeildar Háskóla Íslands lagði fyrir nefndina, þar sem hann bendir á tvær aðrar leiðir sem fara megi í þessu máli og hafa báðar það sammerkt að stofna ekki í hættu stjórnarskrárlegri stöðu Hæstaréttar, þar eð hvorug þessara leiða getur leitt til umræðna um hvort verið sé að brjóta stjórnarskrána með því frv. sem hér er flutt um Hæstarétt. En eins og hv. þm. er kunnugt hefur komið fram ítarleg greinargerð frá hópi virtra lögfræðinga, kennara í lögfræði við Háskóla Íslands og dómara hér í borg, um það efni.

Hæstv. dómsmrh. hefur jafnframt tjáð mér það og gefið heimild til að frá því sé skýrt hér, þó að ég hefði kosið að hann gerði það sjálfur, að í Hæstarétti mun ekki hafa verið einhugur um öll ákvæði þess frv. sem hér er lagt fram. Það er rétt að hv. þm. viti af því, þótt ég telji vera frekar í verkahring hæstv. dómsmrh. að gera grein fyrir því, ef hann svo kýs, í hverju sá ágreiningur innan Hæstaréttar gagnvart þessu frv. var fólginn. Hitt skiptir þó e.t.v. meira máli, að í störfum nefndar að þessu frv. komu fram ábendingar um tvær aðrar leiðir frá forseta lagadeildar Háskóla Íslands sem hvorug fæli í sér að stjórnarskrárlegu öryggi Hæstaréttar væri stefnt í hættu.

Fyrri leiðin, sem forseti lagadeildar Háskóla Íslands hefur bent á og hann nefnir valkost I, er að lögréttufrv. sé lagt fyrir að nýju með ákveðnum breytingum. Þær breytingar, sem þar eru á gerðar, eru fyrst og fremst fólgnar í því, að þéttbýlasta svæði landsins, Reykjavík, Kópavogur, Seltjarnarneskaupstaður, Garðakaupstaður, Hafnarfjörður, Kjósarsýsla, Keflavík, Grindavík, Njarðvík, Gullbringusýsla og Keflavíkurflugvöllur, sé gert að sérstöku umdæmi fyrir hina nýju lögréttu, en dómstólakerfið í landinu að öðru leyti verði með óbreyttum hætti. Forseti lagadeildar leggur að vísu til að breytt verði um heiti á þessu dómstigi og það nefnt landsréttur, en ekki lögrétta. Segir svo í greinargerð hans, með leyfi hæstv. forseta.

„Hér er lagt til að landsréttur taki aðeins til mála sem rekin eru í ákveðnum þinghám, þ.e. í stórum dráttum í þinghánum á Suðvesturlandi. Þessi till. er m.a. sett fram vegna andmæla sem komið hafa gegn lögréttu frá dreifbýlinu, en að nokkru leyti er hún sett fram í sparnaðarskyni. Þrátt fyrir þessa takmörkun má þó ætla að góður árangur náist því að yfirgnæfandi hluti þeirra mála, sem kemur til með að falla undir valdsvið landsréttar, er einmitt rekinn í fyrrgreindum þinghám.

Því mun verða haldið fram, að umrætt bráðabirgðaákvæði sé ekki til þess fallið að skapa réttareiningu í landinu. Tillagan verður samt sem áður rökstudd m.a. með eftirfarandi:

a. Lög nr. 108 frá 1976 um Rannsóknarlögreglu ríkisins gera ráð fyrir svipuðu kerfi og hér um ræðir og er þar þó um nýlega lagasetningu að tefla.

b. Réttareining hefur í langan tíma ekki verið fyrir hendi á milli Reykjavíkur annars vegar og annarra þingháa hins vegar. Ber í því sambandi sérstaklega að benda á að sýslumenn og bæjarfógetar fara með umfangsmikil umboðsstörf.

c. Umrætt ákvæði er aðeins til bráðabirgða og er auðvelt að láta landsréttinn taka til landsins alls ef vilji er fyrir hendi.

d. Frv. um landsrétt er framtíðarlausn eða a.m.k. liður í slíkri lausn, en ekki bráðabirgðalausn á þeim vanda sem nú er við að glíma.“

Enn fremur segir í áliti forseta lagadeildar um nýjar greinar, sem hann rekur hér í álitinu að hann vilji bæta í það frv. sem lagt var fram á sínum tíma, svohljóðandi:

„Þau mál, sem stefnt hefur verið fyrir Hæstarétt við gildistöku laga þessara, en ættu annars undir landsrétt, skulu flutt fyrir landsrétti og dæmast þar, og gæti Hæstiréttur leyft frávik frá þessu.“

Ennfremur eru raktar í þessari greinargerð ýmsar aðrar breytingar sem mætti gera á frv. sem upphaflega var lagt fram.

Ég tel, herra forseti, að þegar hv. Alþingi er að fjalla um frv. til l. um breytingu á lögum um Hæstarétt Íslands og það liggur fyrir skriflega í erindi sem var sent öllum alþm. í þessari hv. deild á sínum tíma, að hópur kennara í lögfræði við Háskóla Íslands og dómara hér í borg hefur lagt fram ítarlega greinargerð þar sem þeir rökstyðja að hér sé hugsanlega eða jafnvel ótvírætt um stjórnarskrárbrot að ræða, þá hljóti hv. Alþingi að íhuga það mál vel áður en það leiðir í lög slíkt frv., einnig með sérstöku tilliti til þess, og ég vil ítreka það alveg sérstaklega, að það hefur ekki verið lögð fram á Alþingi, hvorki af hálfu Hæstaréttar né af hálfu dómsmrh. né af hálfu nokkurs annars aðila í dómsmálakerfi landsins, greinargerð sem hrekur þær röksemdir sem þessi hópur kennara í lögfræði við Háskóla Íslands og dómara i Reykjavík og annars staðar lagði fram. Ég vek athygli hv. Alþingis á að það hefur enginn aðili, hvorki í stjórnkerfinu né í lögmannastétt, treyst sér til að leggja fram skriflega álitsgerð þar sem röksemdafærslu fyrrgreinds hóps er neitað og sýnt með rökum fram á að hún sé röng. Það er mjög athyglisverð staðreynd, að hvorki af hálfu félagasamtaka lögfræðinga, af hálfu Hæstaréttar sjálfs né af hálfu dómsmrn. hafa menn treyst sér til að leggja fram — ekki mér vitanlega a.m.k. og það hefur ekki komið fram hér á Alþingi — greinargerð þar sem röksemdir þessa hóps væru hraktar. Þess vegna blasir það við okkur nú á þessu stigi í meðferð málsins að sá eini skriflegi rökstuðningur um, hvort verið sé að brjóta stjórnarskrá landsins með því frv., sem hér er til umr., eður ei, er frá þessum hópi dómara og kennara í lögfræði við Háskóla Íslands. Engir aðrir hafa treyst sér til að hrekja skriflega það álit. (Gripið fram í.) Já, ég legg áherslu á það — skriflega vegna þess að ég held að lausleg ummæli á fundum nefndar, þar sem upplýst hefur verið að sumir fulltrúar Lögmannafélagsins töldu að hér væri um stjórnarskrárbrot að ræða eða líklegt að væri, en aðrir töldu það ekki, dugi ekki. Það kom fram í máli frsm. nefndarinnar að skiptar skoðanir hefðu verið hjá fulltrúum Lögmannafélagsins sem á fund nefndarinnar komu. Ég spyr því: Telja aðstandendur Hæstaréttar, telur dómsmrn., telur Lögmannafélagið þetta svo léttvægt mál, að þegar Alþingi berst formlega skrifleg greinargerð frá þessum virta hópi lögfræðinga um að hér sé um stjórnarskrárbrot að ræða þurfi þingið ekki að krefja þá aðila, sem að frv. standa, eða aðra þá, sem mæla með því, um skriflega röksemdafærslu á móti? Ég er þeirrar skoðunar, að ásökun kennara í lögfræði og dómara um að verið sé að brjóta stjórnarskrána þegar verið er að breyta lögum um Hæstarétt sé svo alvarlegs eðlis að það hljóti að vera nauðsynlegt að skrifleg röksemdafærsla, þar sem rökum þeirra sé hafnað, liggi fyrir í skjölum þingsins, en hún gerir það ekki nú.

Forseti lagadeildar benti einnig á að hægt væri að fara aðra leið, valkost nr. 11, í þessu máli, sem hefði í för með sér að fjölgað væri í Hæstarétti um sinn og þar með greitt fyrir því, að hægt væri að minnka þann mikla fjölda mála, sem bíður afgreiðslu í réttinum, án þess að vekja upp deilurnar um stjórnarskrárbrot varðandi skipan réttarms. Það er ekki aðeins ein leið sem bent hefur verið á, það eru tvær leiðir sem bent hefur verið á að hægt væri að fara og komast hjá deilum um stjórnarskrárbrot við breytingar á Hæstarétti, en ná um leið því markmiði að minnka þann fjölda mála sem bíður afgreiðslu í réttinum.

Ég verð að segja það í fullri hreinskilni, að ég skil ekki alveg hvað liggur að baki því að vilja ekki athuga frekar t.d. þessar tvær leiðir og kannske fleiri, sem til væru og ekki fela í sér deilur um stjórnarskrárbrot, vegna þess að með þeirri afgreiðslu á frv., sem hér virðist stefna í, eru menn að skilja þannig við málið að eftir að það hefur verið samþykkt hér í hv. Ed. óbreytt, ef það verður, stendur ein eftir sú greinargerð þessa hóps lögfræðinga að verið sé að brjóta stjórnarskrána og enginn aðili í þessu þjóðfélagi hefur komið fram og lagt fram rökstudda greinargerð um að röksemdafærsla þeirra sé röng. Ég las greinargerð þeirra upp í þingsölum á sínum tíma. Enginn hv. þm. hrakti þau rök, þó að menn áskildu sér rétt til að skoða þau og voru ekki reiðubúnir að fallast á þau, en enginn hrakti þau þá og enginn hefur hrakið þau enn. Af hálfu Hæstaréttar hefur ekkert komið fram, sem lagt hefur verið fyrir þingið, þar sem þessi rök eru hrakin. Af hálfu lagadeildar Háskóla Íslands hefur forseti lagadeildar þvert á móti bent á aðrar leiðir. Og af hálfu Lögmannafélagsins eða dómsmrn. hefur ekkert skriflegt komið fram um þessi efni.

Ég ítreka það enn og aftur, að varla er til alvarlegri ásökun um stjórnarskrárbrot en að breytingar á sjálfum Hæstarétti landsins séu hugsanlega byggðar áslíkum stjórnarskrárbrotum. Hvar er þá réttaröryggið í þessu landi og hin vönduðu vinnubrögð varðandi stjórnkerfi þessa lands ef menn eru reiðubúnir að skilja þannig við Hæstarétt að á borðinu liggi skriflegt álit kennara í lögfræði og dómara um að með breytingunni hafi stjórnarskrá landsins verið brotin? Það er a.m.k. í mínum huga ekki léttvægt mál.

Ég hef þess vegna, herra forseti, kosið að flytja brtt. við þetta frv., sem hafa það m.a. í för með sér að gera þær breytingar sem sumir telja að þurfi að gera á Hæstarétti án þess að stofna í hættu stjórnarskrárlegri stöðu réttarins. Ég hef á þskj. 456 flutt þrjár brtt. Sú síðasta þeirra er í tveimur þáttum og snertir ákvæði til bráðabirgða sem valdið hefur deilum um stöðu réttarins ef þetta frv. verður samþykki.

Fyrri till. í lið 3, sem ég set fram sem aðaltill., er að ákvæði til bráðabirgða falli niður. Þar með er tekið burt það deiluatriði sem þetta mál hefur að verulegu leyti snúist um. Vilji hins vegar hv. Ed. ekki ganga svo langt að fella ákvæði til bráðabirgða algerlega niður og vilji hún hafa í frv. ákvæði til bráðabirgða sem nær tvíþættum tilgangi, annars vegar fjölgar í réttinum til að greiða fyrir afgreiðslu mála og hins vegar vísar algerlega á bug öllum minnsta vafa um hvort um stjórnarskrárbrot sé að ræða eða ekki, ber ég fram varatillögu. Og ég beini því nú til hv. Ed. og þm. allra, að þeir íhugi hvort ekki sé þess virði að fara þá leið, sem lögð er til í varatillögunni og nær þessum tveimur markmiðum: Fram fari tímabundin fjölgun í réttinum meðan verið er að afgreiða frá honum þann mikla lista mála sem þar safnast upp, en hins vegar á þann hátt að ekki geti nokkur einasti maður haldið því fram að verið sé að stofna stjórnarskráröryggi réttarins í hættu. Þessi till., sem ég hef hér flutt, er í samræmi við þau sjónarmið sem forseti lagadeildar Háskóla Íslands flutti á vettvangi þeirrar nefndar sem hafði frv. til umfjöllunar. Hún er á þá leið, að nýtt ákvæði til bráðabirgða komi í stað þess sem nú er í frv., á þá leið, að frá upphafi ársins 1983 skuli Hæstiréttur skipaður 11 dómurum og skuli skipan nýrra dómara vera samkv. 2. gr. laga nr. 24/1979, þ.e. um skipan þessara dómara fer algerlega með hefðbundnum hætti. En síðan segir enn fremur:

„Nú losnar staða fasts dómara í Hæstarétti eftir þennan tíma og skal þá hvorki skipa né setja dómara í hans stað. Þetta gildir þó aðeins um fjórar fyrstu stöðurnar sem þannig losna.“

Með því að samþykkja slíkt ákvæði til bráðabirgða í stað þess, sem nú er, næðu menn því fram að það væri fjölgað tímabundið í Hæstarétti, en sú fjölgun væri með þeim hætti að ekki væri hægt að halda fram að tilkoma hinna nýju dómara bryti hugsanlega í bága við stjórnarskrána. Það yrði fjölgað í upphafi næsta árs í 11, en síðan mundi fækka í réttinum smátt og smátt á næstu árum, eftir því sem menn gengju eðlilega úr honum, uns hann hefði á ný náð þeirri stærð sem hann hefur verið í á undanförnum árum. (Utanrrh.: Það yrði dýrt spaug.) Það yrði dýrt spaug, segir fyrrv. hæstv. dómsmrh. og núv. utanrrh., og veit ég ekki hvort hann á við útgjaldaliðinn. (Utanrrh.: Útgjaldaliðinn.) Já, útgjaldaliðinn. Það er gott að það er komið fram. En það er þá lítið dýrara gaman en það sem lagt er til í þessu frv., því að munurinn held ég að sé eingöngu einn dómari, þannig að spaugið verður nokkurn veginn jafndýrt hvort sem frv. er samþykkt eins og það liggur fyrir eða með þessari brtt. Ég held þó að með þessari leið væri hægt að vísa til hliðar ágreiningi um hvort tilvist dómaranna brjóti hugsanlega i bága við stjórnarskrána. (Utanrrh.: Þeir halda allir launum til æviloka.) Já, þeir halda allir launum til æviloka, það er vissulega rétt, en engu að síður er ég þeirrar skoðunar, að miðað við þau útgjöld, sem almennt eru í okkar stjórnkerfi, og þótt það kunni að verða eitthvað aðeins dýrara, þótt enginn geti nú fullyrt um hve lengi hæstaréttardómarar verði þeirrar gæfu aðnjótandi að vera hér ofar moldu, sé eitthvað gerandi fyrir að stofna ekki réttaröryggi sjálfs Hæstaréttar í hættu.

Ég tel að það sé hins vegar óþarfi að hafa fleiri orð hvað þessa breytingu snertir. Þetta liggur nokkuð ljóst fyrir. Mönnum er hér gefinn kostur á að velja leið þar sem stjórnarskrárhættunni er vikið til hliðar.

Þar að auki hef ég lagt til tvær brtt. aðrar, nr. 1 og 2 á þskj. 456.

Sú fyrri er á þá leið, að þegar dómurinn skipar sér í smærri dóma, þriggja og fimm manna, gerist það ekki á þann hátt, eins og verið hefur til þessa, að hæstaréttardómarar ákveði í hvert sinn hverjir skuli skipa dóminn í viðkomandi máli, heldur verði farið eftir almennri reglu um röð dómara við slík tækifæri svo að tilviljun, ef má nota það orð, ráði því frekar en ákvörðun hverju sinni með tilliti til þess máls, sem á að fjalla um, hvernig dómurinn sé skipaður. Mér er engin launung á því, að ég tel að þegar Hæstiréttur er farinn að starfa mjög mikið í slíkum undirdeildum geti óneitanlega komið upp til hneiging meðal dómaranna til þess að einhver hópur þeirra, jafnvel þeir sem hafa sérstakan áhuga og þá að öllum líkindum sérstakar skoðanir einnig á tilteknum málaflokkum, sækist frekar eftir því að sitja í dóminum þegar um ákveðna málaflokka sé að ræða og þannig komi upp innan dómsins ákveðin sérhæfing í reynd þó að allt eðli dómsins sé hins vegar með þeim hætti að svo eigi ekki að vera, hann eigi að kveða upp úr um mál með almennum hætti. Tel ég æskilegra að val manna í dóminn hverju sinni fari eftir einhverri almennri reglu og menn gangi í málin eftir slíkri röð, en ekki sé verið að velja í hverju einstöku tilviki og þá oft og tíðum með tilliti til þess, um hvaða mál sé að ræða og hvort einstakir dómarar hafa áhuga á að skipa dóminn í það og það sinn. Ég er viss um að öryggi manna um eðlilega starfshætti í dóminum væri betur tryggt og farsællegar ef menn vissu að það réðu einhverjar slíkar almennar reglur, en ekki mat í hverju einstöku tilviki.

Brtt. nr. 2 er á þá leið, að þegar sérfróðir aðstoðarmenn, sem nú er í fyrsta skipti ákveðið að ráða til réttarins, séu ráðnir skuli fara með þær ráðningar á þann veg að stöðurnar séu auglýstar og dómnefnd meti hæfni umsækjenda. Ég tel slíkt eðlilegt um svo mikilvægar stöður sem stöður sérfróðra aðstoðarmanna við sjálfan Hæstarétt landsins og reynslan víða annars staðar sýnir að slíkir sérfræðiaðstoðarmenn eigi oft veigamikinn þátt í að semja álitsgerðir og niðurstöður dómsins í einstökum málum. Þær stöður hafi sama sess og aðrar meiri háttar stöður í réttarkerfi landsins, að þær séu auglýstar lausar til umsóknar og menn geti um þær sótt og síðan fari fram ákveðið hæfnismat á þeim sem um stöðurnar sækja, en ekki verði farið með þessar stöður á þann hátt, að dómarar í réttinum, með allri virðingu fyrir þeim, velji meira og minna eftir hentugleikum og án þess að nokkur verði var við að þeir séu að leita eftir mönnum í þessi veigamiklu embætti og réttur allra til umsókna um það sé ekki tryggður. Ég hef talið rétt að það sama verði látið gilda um ráðningu hæstaréttarritara. Má segja að það gildi hvað auglýsinguna snertir og þess vegna sé ekki síður ástæða til að auglýsa stöður sérfróðra aðstoðarmanna en að auglýsa stöðu hæstaréttarritara því að mér segir svo hugur að hinir sérfróðu aðstoðarmenn eigi ekki síður eftir að vera mikilvægir í störfum réttarins en hæstaréttarritarinn sjálfur. Í reynd tel ég að störf þeirra muni verða mjög lík í mörgum veigamiklum atriðum þeim störfum sem hæstaréttarritari hefur haft með höndum til þessa. Það er þess vegna kannske ekki verið að leggja til breytingu á meðferð embættis hæstaréttarritara, nema hvað það snertir að dómnefnd dæmi hæfni umsækjenda. Það atriði, að dómnefnd eigi að dæma um hæfnina, finnst mér eðlilegt þegar menn sækja um svo veigamiklar stöður sem þessar, að það fari fram eitthvert mat óháðra aðila á hæfni þeirra umsækjenda sem þar gefa kost á sér. Má nefna í því sambandi að þegar valdir eru menn til prófessorsembættis í lögum við Háskóla Íslands sem og í önnur prófessorsembætti fer framslíkt hæfnismat, þar sem hópur manna vegur og metur þá umsækjendur sem til greina koma varðandi þá stöðu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar, að það sé regla sem ætti að taka víðar upp í okkar þjóðfélagi til að tryggja að allir sitji við sama borð og eigi rétt á því að störf þeirra og almenn hæfni verði lögð til grundvallar vali í embætti.

Vissulega má segja að þessar tvær brtt., sem eru reyndar nr. 1 og 2 á þskj. 456, séu efnislega ekki eins veigamiklar og sú þriðja um ákvæði til bráðabirgða, en engu að síður teldi ég mjög æskilegt og réttinum til bóta ef þær yrðu samþykktar einnig.