18.03.1982
Sameinað þing: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3141 í B-deild Alþingistíðinda. (2714)

239. mál, hafnargerð við Dyrhólaey

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég get lýst stuðningi við þessa þáltill. Eins og sjálfsagt margir hv. alþm. vita hafa farið fram nokkrar rannsóknir í sambandi við hafnarstæði í Dyrhólaey sem hafa sýnt mismunandi niðurstöður. En segja má að í dag sé miklu meiri tækni komin á sjónarsviðið til rannsókna í sambandi við undirbúning hafnargerða og þar af leiðandi ætti að mega vænta betri árangurs af nýrri rannsókn á þessu sviði.

En það, sem mig langar til að varpa hér fram í sambandi við þessa umr. til hv. flutningsmanna, er að það kemur ekki fram, hvorki í till.grg., hver eigi að stjórna eða eiga þessa höfn og reka hana ef af því yrði að hún yrði byggð. eins og öllum er kunnugt fer nú fram endurskoðun hafnalaga, og það hefur verið á undanförnum árum krafa sveitarstjórnarmanna yfirleitt, að allar hafnir í landinu yrðu færðar undir eina stjórn, undir ein lög, þ.e. að landshafnir í núverandi mynd yrðu lagðar niður og afhentar viðkomandi sveitarfélögum eða eigendum á viðkomandi stöðum. Þegar við erum að hugleiða nýja hafnargerð á stað þar sem ekki hefur verið höfn er þess vegna ekki óeðlilegt að um þetta sé spurt eða að fram komi hugleiðingar þeirra sem að þessu standa og njóta eiga, hvernig þeir hugsa sér form á þessu í framtíðinni, ef af þessu verður. Mér finnst að þetta þyrfti að koma fram í upphafi því að það skiptir meginmáli þegar áfram verður fjallað um málið.

Að öðru leyti tel ég þetta sjálfsagða till. og að eðlilegt sé að gera ítarlega rannsókn og áætlun um hafnargerð við Dyrhólaey, því að það er allt of stórt svæði í okkar landi, frá Þorlákshöfn að Höfn í Hornafirði, sem er hafnlaust. En fyrir utan eru fengsæl fiskimið alveg upp að fjöruborði. Og þarna eru miklir flutningar og ekki hvað síst, eins og fram kemur í grg., miklir möguleikar e.t.v. á útflutningi á jarðefnum.