18.03.1982
Sameinað þing: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3142 í B-deild Alþingistíðinda. (2717)

198. mál, verndun á laxi í Norður-Atlantshafi

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Enda þótt ég eins og aðrir nm. í utanrmn. mæli með samþykkt þessarar till. til þál. tel ég óhjákvæmilegt að við þessa umr. komi fram nokkrar athugasemdir og ábendingar.

Það er að mínu mati eðlilegt að staðfesta þennan samning einungis af einni ástæðu — eða fyrst og fremst af einni ástæðu, þ.e.a.s. þeirri, að samkv. honum er algert bann lagt við laxveiðum utan efnahagslögsögu, utan 200 mílnanna. Að öðru leyti er samningur þessi heldur lítilfjörlegur og hefði mátt búast við að hann yrði okkur hagstæðari en raun ber vitni. Sérstaklega verður að vekja á því athygli, að í 2. gr. samningsins er gert ráð fyrir að Færeyingar megi veiða á svæði Norður-Atlantshafsnefndarinnar, eins og það er nefnt, innan fiskveiðilögsögu Færeyja og ekki takmarkað hve mikil svæði innan fiskveiðilögsögunnar hér er um að ræða. Hins vegar eru í greininni, þar sem fjallað er um Vestur-Grænlandsnefndina, einungis tilgreindar 40 sjómílur frá grunnlínum.

Ég vil vekja athygli á því og vona að ummæli mín fái staðist ómótmælt af öllum hv. alþm., að samkv. 66. gr. uppkastsins að hafréttarsáttmála eiga upprunaríki slíkra fiska eins og laxins miklu meiri réttindi en í þessum samningi eru tilgreind. Ég vil leyfa mér að fullyrða að 66. gr. uppkastsins að hafréttarsáttmála sé nú þegar orðin alþjóðalög, það hafi skapast þar venjuréttur, að greinin sé lög „de facto“ eða í raun, þó að kannske megi segja að hún sé ekki orðin að alþjóðalögum, „de jure,“ þar sem samningurinn hefur ekki verið samþykktur formlega eða staðfestur. Ég styð þetta þeim rökum, að a.m.k. þann tíma sem ég hef setið fundi hafréttarráðstefnu hefur engin þjóð reynt að hreyfa við ákvæðum þessarar greinar. Hafa allir með þögninni samþykki að hún skyldi standa eins og hún væri.

Það má segja um aðrar greinar hafréttarsáttmálans, eins og t.d. þau hafsbotnsréttindi sem verið er að deila um, að það sé kannske ekki hægt að halda því fram að þær séu orðnar alþjóðalög í raun eða venjuréttur. En að því er þessa grein varðar er það alveg ótvírætt að mínu mati. Og í þessari grein er það beinlims tekið fram, að það sé ekki einungis réttur strandríkis eða upprunaríkisins að vernda slíka fiskstofna, heldur er það skylda þess ríkis. Það skal gera það bæði innan eigin lögsögu og eins utan hennar. Og réttindi yfir þessum fiskstofnum eru miklu meiri og víðtækari en yfir nokkrum öðrum, sem byggist auðvitað á eðli málsins, að það er upprunaríkið sem á þessi réttindi og á að gæta þeirra.

Undanþágur frá þessu eru mjög veigalitlar. Upprunaríkið getur t.d. ákveðið heildarafla á þessum fisktegundum, og eins og ég sagði áðan ber því að tryggja að ekki sé gengið á þessa stofna. Það er skylda þess samkv. þessum alþjóðalögum. En á þeim tíma, sem þessi grein hefur staðið óbreytt í uppkastinu að hafréttarsáttmála, hafa Færeyingar stöðugt verið að auka afla sinn á laxi í hafinu. Ég held að það sé varla hægt að nota um þetta framferði vægara orð en að það sé siðlaust athæfi og lögbrot að auki. Það er brot á alþjóðalögum. Og mér finnst raunar furðulegt að bæði við og ekki síður kannske Norðmenn, Svíar, Írar, Bretar og aðrir þeir, sem þarna hafa hagsmuna að gæta, skuli ekki taka fastar á þessum málum og fylgja fram þeim skýlausa rétti sem þessar þjóðir hafa samkv. þessari nefndu grein í hafréttarsáttmálanum — og ekki einungis rétti, heldur líka skyldu.

Það er hugsanlegt að að því megi færa einhver rök, að Færeyingar mættu e.t.v. veiða 100–200 tonn vegna þess að þeir byrjuðu víst einhverjar laxveiðar um 1960. En það eru engin rök fyrir því, að þeir auki veiðarnar eins og þeir hafa gert með ólögmætum hætti eða þeim haldist uppi slíkar gífurlegar veiðar til frambúðar. Það er lögbrot samkv. þessari grein, og okkur ber skylda til, í samvinnu við aðrar þjóðir sem hagsmuna hafa að gæta af þessum veiðum, að hindra að þessum veiðum sé haldið áfram.

Ég býst ekki við að neinn væni mig um að vilja vera með ósanngirni í garð frændþjóðar okkar Færeyinga. Ég hef staðið að tillöguflutningi um aukið samstarf við þá á mörgum sviðum, ekki síst á sviði fiskveiða og fiskverndar. En hér er um þvílíkt athæfi að ræða, að það getur ekki verið að þeir komist upp með þessar veiðar til frambúðar. Og ég hygg að Íslendingar allir séu sammála um að þetta verði að stöðva. Það er algert hámark að þeir gætu kannske veitt, eins og ég sagði áðan, 100–200 tonn, eins og þeir munu hafa gert áður en þessi grein í hafréttarsáttmála var samin og komst inn í þau uppköst sem síðan hafa staðið óbreytt fund frá fundi. En þeir hafa engan rétt af neinu tagi til að stórauka veiðarnar á meðan þessi grein verður að teljast lögformleg, eins og áður segir, margra ára venjuréttur. Hún er lög í raun. Þess vegna var óviðurkvæmilegt að taka þessa heimild inn í samninginn sem hér er til samþykktar, að Færeyingar hefðu heimild til veiða á þessu svæði, þ.e. fiskveiðilögsögu Færeyja, án þess þá að takmarka það mjög rækilega. En auðvitað verður þessi samningur endurskoðaður, og samkvæmt honum á raunar að fjalla um veiðar frá ári til árs og verður auðvitað gert. Á þeim fundum, sem þessar þjóðir halda með sér, verður þetta mál auðvitað sérstaklega upp tekið.

Því er stundum haldið fram, að engar sannanir séu fyrir því, að lax frá Íslandi veiðist við Færeyjar. Þetta er fásinna. Fyrir einum og hálfum áratug eða svo vissi ég til þess, að Snorri heitinn Hallgrímsson prófessor merkti örfáa laxa og sleppti þeim á Skaftársvæðinu. Eina merkið, sem til baka kom, kom einmitt frá Færeyjum. Það þarf enginn að segja manni að Færeyingar, sem stunda þessa rányrkju, séu sérstaklega áfjáðir í að halda til haga merkjum úr fiski sem þeir veiða með þessum hætti. Það er íslenskur lax á þessum slóðum og hann er veiddur af Færeyingum.

Þá hefur því verið haldið fram, að ekki væri óeðlilegt að Færeyingar fengju það sem kallað hefur verið beitartollur, vegna þess að laxinn fer þarna um skamman tíma úr ári. Ég veit ekki hver hefur fundið þessa endaleysu upp, hvort það er íslensk framleiðsla eða komin frá Færeyjum. Auðvitað er lífið í sjónum ekkert síður komið frá Íslandi inn á Færeyjamið heldur en öfugt. Ætli það sé ekki meira um það, að ýmiss konar fæðutegundir fiskstofna berist af okkar miðum inn á þau færeysku, heldur en öfugt? En hvað sem um það er, þá er þetta fávíslegt tal og réttlætir rányrkjuna með engum hætti.

Ég vildi koma þessum athugasemdum hér að, herra forseti, nú við þessa umr., áður en til atkv. er gengið. Ég vænti þess, að allir hv. þm. séu mér sammála um að eðlilegt sé, að þær komi hér fram, og að enginn muni andmæla því sem ég hér hef sagt, að þarna sé um lögbrot af hálfu Færeyinga að ræða og rányrkju og að Alþingi muni halda til haga íslenskum réttindum í þessu efni og þetta fáist fest í þskj. sem samdóma álit allra hv. alþm.