02.11.1981
Neðri deild: 8. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

14. mál, jarðalög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., er í sjálfu sér um það eitt að færa jarðeignadeildina í heilu lagi frá landbrn. og í fjmrn. Engin önnur breyting á þessum málum er lögð til. Eftir sem áður á landbrh. að fara með yfirstjórn þessara mála, þ. e. jarðalaganna, og væntanlega, ef um einhverjar sérstakar ráðleggingar væri að ræða eða hvað sem væri, mundi jarðeignadeildin jafnt eftir sem áður verða að leita til landbrn. Hér er ekki um að ræða að verið sé að samræma eitthvað, vegna þess að það er ekki lagt til að aðrar eignir, sem ríkið á, fari undir þessa deild. Það er ekkert um það.

Eins og kom fram í máli hæstv. landbrh. eru það auðvitað margs konar eignir sem til greina koma. Hann minntist ekki á það, að t. d. kirkjumálaráðuneytið hefur yfirumsjón yfir jörðum kirkjunnar, öllum þeim eignum sem kirkjurnar eiga. Hér er ekki um neina hagræðingu að ræða. Frv. er að öllu leyti flutt af misskilningi. Það eru engin rök fyrir flutningi þessa frv. Það hefðu verið rök ef átt hefði að sameina þessar eignir undir einni stjórn. En það er engin breyting önnur en þessi, að deildin fer í einu lagi milli hæða og annað ekki.

Það er óþarfi að fara mörgum orðum um þetta frv. af þeim ástæðum sem ég hef hér greint frá. Það er alger misskilningur að ekki sé hægt að fá upplýsingar um þau málefni sem jarðeignadeildin fer með, enda mundi engin breyting verða á henni að því leyti.

Ég ætla ekki að ræða þetta frekar. Ég ræddi þetta svolítið í sambandi við umr. um annað svipað atriði sem snertir einmitt þetta mál. Ég vil aðeins segja það að lokum, að jarðalögin hafa alltaf tilheyrt landbn. — þetta er landbúnaðarmál — en ekki allshn., og ég vil skjóta því til hæstv. forseta, að auðvitað er þetta mál, hefur verið og ætti að vera eðli sínu samkvæmt tilheyrandi landbn., en ekki öðrum nefndum.