22.03.1982
Efri deild: 58. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3149 í B-deild Alþingistíðinda. (2735)

169. mál, loftferðir

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um loftferðir. 1. gr. frv. felur í sér breytingu á eignarnámsheimild þeirri sem nú er að finna í 64. gr. laga um loftferðir. Í þeirri grein ei veitt heimild til eignarnáms þegar um byggingu eða gerð flugvallar er að ræða. Hins vegar hefur í ýmsum tilfellum verið talið nauðsynlegt að taka eignarnámi nokkru stærri svæði en fellur undir mannvirkin sem slík, en eins og greinin er orðuð hafa lögfróðir menn dregið í efa að slíkt væri heimilt. Breytingin, sem í þessari grein felst, er því eingöngu sú, að eignarnámsheimildin er útvíkkuð og nær ekki aðeins til gerðar flugvalla, heldur einnig til rekstrar flugvalla, eins og fram kemur bæði í greininni sjálfri og einnig í athugasemdum sem fylgja.

Jafnframt er tækifærið notað, þegar þetta frv. er flutt um breytingu á lögum um loftferðir, og felld inn í þau grein úr lögum frá 1950 um stjórn flugmála. Er það 2. gr. þessa frv. sem heimilar flugmálaráðherra að setja reglur um flugferðir innlendra flugfélaga o.s.frv. Þessi ákvæði eiga eins og ýmis önnur ákvæði loftferðalaga fremur heima þar en í lögum um stjórn flugmála. Þarna er því ekki um nema nýja lagaheimild að ræða heldur aðeins tilfærslu á milli laga.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta mál fleiri orð. Þetta frv. var lagt fram í hv. Nd. og hefur hlotið þar afgreiðslu. Vil ég leyfa mér að leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr, og hv. samgn.