22.03.1982
Neðri deild: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3154 í B-deild Alþingistíðinda. (2749)

244. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyt. á lögum um útflutningsgjald.

1. gr. þessa frv. felur í sér leiðréttingu á álögðu útflutningsgjaldi og gjaldi af lagmetisiðnaði í þróunarsjóð lagmetis sem lögfest var með lögum nr. 58/1981. Með þeim lögum var ákveðið að greiða 3% af fob-verði saltaðra matarhrogna og frystra þorskhrogna í þróunarsjóð lagmetis. Ætlunin mun jafnframt hafa verið að lækka útflutningsgjaldið sem þessu næmi, úr 5.5% í 2.5%, þannig að gjaldið yrði samtals óbreytt 5.5%. Þetta láðist að gera og hefur því verið innheimt gjald af söltuðum matarhrognum og frystum þorskhrognum sem nemur 8.5%. Nauðsynlegt er að leiðrétta þetta og í því skyni er frv. flutt.

Í 2. gr. frv. er sú heimild, sem sjútvrh. hefur nú samkv. lögum til að undanþiggja umbúðir fyrir saltsíld í útreikningi á útflutningsgjaldi, útvíkkuð til að ná jafnframt til saltaðra matarhrogna. Þarna er um mjög líka framleiðslu að ræða og um að ræða mjög mikinn kostnaðarþátt þar sem tunnurnar eru undir slík hrogn. Lagt er til að þessi undanþáguheimild verði látin ná til hvors tveggja.

Herra forseti. Ég hygg að þetta litla mál skýri sig vel eins og það er og þurfi ekki að hafa um það fleiri orð. Læt ég því þessa stuttu framsögu nægja, en leyfi mér að mæla með því, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.