23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3157 í B-deild Alþingistíðinda. (2760)

358. mál, áhrif tölvuvæðingar í skólakerfi landsins

Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans. Ég sætti mig fullkomlega við þau eins og hann bar þau hér fram.

Hæstv. ráðh. upplýsti m.a. að skipaður hefði verið starfshópur valinkunnra manna til að fjalla um þetta verkefni og þeir mundu væntanlega skila áliti á haustmánuðum. Sennilega er ekki hægt að krefjast þess að öllu hraðar verði unnið að þessu máli. Hins vegar er þetta mjög mikilvægt mál og ég vil undirstrika það sérstaklega hér. Hin mikla breyting, sem er að verða í þjóðfélaginu vegna aukinnar tölvunotkunar, kemur til með að hafa mjög mikil áhrif á skólakerfið, bæði vegna notkunar tölva í skólum svo og hvernig skólakerfið bregst við að þjálfa nemendur á þessu ört vaxandi sviði. Þess vegna er mjög mikilvægt að haldið verði fast utan um þetta mál. Ég vænti þess, að hæstv. menntmrh. geri það og fylgist vel með því, sem þarna er að gerast, og reki á eftir því, að þessi vinnuhópur skili störfum á þeim tíma sem áætlað er.