23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3164 í B-deild Alþingistíðinda. (2768)

226. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Tveir hv. þm. hafa lagt fyrir mig fsp. um framkvæmd á 2. tölul. ákvæða til bráðabirgða í lögum nr. 51/1980, um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Í fyrsta lagi er um að ræða fsp. frá hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni á þskj. 407, en hann orðar spurningu sína á þessa leið:

„Hvernig hefur til tekist með framkvæmd á 2. tölul. ákvæða til bráðabirgða í lögum nr. 51/1980, um Húsnæðisstofnun ríkisins?“

Í öðru lagi er svo um að ræða fsp. á þskj. 416 frá hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni, en fsp. hans er á þessa leið:

„Hvers vegna hefur Húsnæðisstofnun ríkisins ekki framkvæmt“ — stendur hér — „2. tölul. ákvæða til bráðabirgða í lögum nr. 51/1980, um Húsnæðisstofnun ríkisins?“

Hv. þm. fullyrðir m.ö.o. í fsp. að þetta hafi ekki verið framkvæmt, en síðan segir hér áfram: „Hvenær mun Húsnæðisstofnun ríkisins gefa þeim einstaklingum, sem fengu nýbyggingarlánin á árunum 1974–1979 með hlutfallslegri verðtryggingu, kost á að skipta á skuldabréfum fyrir ný skuldabréf með þeim lánskjörum sem ákveðin eru í lögum nr. 51/1980, um Húsnæðisstofnun ríkisins?“

Ég mun nú, herra forseti, að höfðu samráði við fyrirspyrjendur, svara þessum fsp. báðum í senn. Umræddur 2. töluliður í ákvæðum til bráðabirgða í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins hljóðar svo:

„Húsnæðisstofnunin skal í samráði við veðdeild Landsbanka Íslands hlutast til um að þeim einstaklingum, sem fengið hafa nýbyggingarlán á árunum 1974–1979 með hlutfallslegri verðtryggingu, verði gefinn kostur á að skipta á skuldabréfum. Skal þá gefa út nýtt skuldabréf fyrir uppfærðum eftirstöðvum eldra lánsins, enda nemi þær þannig reiknaðar hærri fjárhæð en 1 millj. kr. Bréf þetta skal vera með þeim lánskjörum sem ákveðin eru í lögum þessum. Eigi skal greiða stimpilgjald af hinum nýju skuldabréfum. Breytingar þessar skal, ef henta þykir, heimilt að framkvæma með sérstakri yfirlýsingu eða viðauka við eldri bréf.“

Ég fór þess á leit við Landsbanka Íslands, veðdeild, sem hefur haft með þessi mál að gera, að veðdeildin upplýsti mig um hvernig hefði gengið með framkvæmd á þessu ákvæði. Það kom í ljós að allmargir aðilar höfðu spurst fyrir um þetta ákvæði. Aðeins einn hafði óskað eftir að skuldabréfum hans yrði breytt. Þessar upplýsingar frá veðdeild Landsbankans voru að sönnu ákaflega stuttaralegar, en staðreyndin er engu að síður þessi, að aðeins einn aðili hefur ákveðið að nota þessa lagaheimild. Hins vegar er ljóst, og því vil ég lýsa hér yfir og láta koma fram, að stofnunin hlýtur að skipta um bréf samkv. þessu lagaákvæði hvenær sem farið verður fram á slíkt.

Í upplýsingum frá veðdeild Landsbanka Íslands, dags. 11. mars 1982 er fjallað nokkuð um þessi mál og greiðslubyrði sérstaklega. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki hefur endanlega verið skoðuð greiðslubyrði lána með 3/10 og 4/10 hluta af hækkun byggingarvísitölu miðað við núgildandi lán, 2.25% með fullri verðtryggingu. En telja má víst að þau séu svipuð og þá heldur betri en gildandi lánskjör. Á þetta einkum við um lán til 26 ára, nýbyggingarlán, og lán til kaupa á eldri íbúðum, sem eru til 15 ára. Lán, sem hafa hlutfallslega verðtryggingu 6/10 af hækkun byggingarvísitölu, eru sannanlega með þyngri greiðslubyrði en almenn lán í dag „eins og fram kemur síðar í töflu sem veðdeildin lét mér í té.“ Á þetta sérstaklega við um lán sem eru til 26 ára og 33 ára, með 6/10 verðtryggingu af byggingarvísitölu. Hins vegar á þetta ekki við um lán sem eru til 15 ára. Þau sýnast vera hagstæðari eftir gömlu kjörunum en núgildandi kjör bjóða upp á. Þessum óhagstæðari lánum, þ.e. til 26 ára og 33 ára með 6/10 af hækkun byggingarvísitölu, var úthlutað á tímabilinu frá 1. maí 1978 til 1. júlí 1979, þannig að hér er fyrst og fremst um að ræða tvo lánaflokka frá þessu tiltekna tímabili, 14 mánaða tímabili, frá 1. maí 1978 til 1. júlí 1979.“

Í töflu Húsnæðisstofnunar ríkisins og veðdeildarinnar um þessi mál kemur fram að lánin með 60% verðtryggingu miðað við byggingarvísitölu eru með um það bil 4% raunvexti þegar þau eru til 26 ára og tæplega 5% raunvexti þegar þau eru til 33 ára. Aftur á móti eru lánin, þegar þau eru til 15 ára, með rétt liðlega 2% raunvöxtum. Þau lán, sem hér er um að ræða, þ.e. 33 ára lánin, voru eingöngu veitt vegna leiguíbúða sveitarfélaga og að sjálfsögðu mundi Húsnæðisstofnun ríkisins, hvenær sem sveitarfélög færu fram á það, vera reiðubúin til að breyta þeim skuldabréfum í núgildandi skuldabréfaform samkv. því ákvæði til bráðabirgða sem hv. þm. eru hér að spyrja um framkvæmd á.

Þannig liggur fyrir, herra forseti, að allt frá því að lögin tóku gildi á árinu 1980 hefur Húsnæðisstofnun ríkisins verið tilbúin að breyta þeim bréfum sem menn hafa verið með og hafa talið óhagstæðari en þau bréf sem menn eiga nú kost á. Stofnuninni hafa borist margar fsp. um þetta, en aðeins hefur einn aðili óskað beinlínis eftir breytingum á lánskjörum á skuldabréfum.

Nú kann að vera að það væri eðlilegra að fara þannig í framkvæmdina á þessu að vekja athygli allra þeirra, sem bréfin hafa, á því, að þeir gætu skipt á skuldabréfum með þeim hætti sem hér er til umr. Ég hef rætt það við formann húsnæðismálastjórnar, að þessir möguleikar um skipti á skuldabréfum verði kynntir eða auglýstir sérstaklega, svo að þeir sem vilja geti fengið leiðréttingu mála sinna þar sem það á við. En eins og ég sagði hér á undan er fyrst og fremst um að ræða lán sem tekin voru á ákveðnu tímabili, þ.e. frá 1. maí 1978 til 1. júlí 1979, og þó aðeins hluta þeirra lána, þ.e. þau lán sem eru til 26 ára eða 33 ára. Og það eru sveitarfélögin sem eru með lánin til 33 ára.

Ég vona, herra forseti, að ég hafi svarað fsp. hv. þm.