23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3166 í B-deild Alþingistíðinda. (2770)

226. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess, þegar rætt er um ávöxtunarkjör lána sem Húsnæðisstofnun veitir, að taka fram nokkur atriði sem stundum gleymast.

Það er ljóst að sífellt lægra hlutfall fæst úr byggingarsjóði ríkisins miðað víð staðalíbúð og sífellt lægra hlutfall ráðstöfunarfjár kemur frá ríkinu, miðað við það fé sem taka verður að láni hjá lífeyrissjóðunum.

Nú síðast þegar hæstv. ríkisstj. hækkaði vexti af spariskírteinum ríkissjóðs upp í 3.5% fylgdu lífeyrissjóðirnir að sjálfsögðu á eftir. Menn sjá hvað gerist í þessu kerfi þegar húsnæðismálastjórn verður að taka lán með 3.5% vöxtum ofan á verðtrygginguna til 12–14 ára, á sama tíma og lánað er út með 2% eða 2.5% vöxtum til 26 ára. Allir sjá hvað gerist á næstu 10–15 árum í slíku kerfi.

Í öðru lagi hlýtur það að vera umhugsunar virði, hvernig fara á að þegar lánskjaravísitalan hækkar langt umfram verðbótavísitölu, eins og gerðist á s.l. ári vegna verðbótaskerðingar þeirrar sem átti sér stað af hálfu ríkisstj. og hæstv. félmrh. kallaði undirfögru nafni: „slétt skipti“.

Í þriðja lagi held ég að ástæða sé til að í þessum umr. komi fram varðandi launaskattinn að til þess að það standist, sem lýst hefur verið yfir, að 2/3 af kerfinu skuli vera hjá Byggingarsjóði ríkisins og 1/3 hjá verkamannabústöðum, má halda því fram, að það vanti 185 millj. kr. úr ríkissjóði vegna vangoldins launaskatts inn í Húsnæðisstofnun ríkisins. Þetta jafngildir 370 tveggja herbergja íbúðum á staðgreiðsluverði og er hærri upphæð en öll sú upphæð sem Húsnæðisstofnun ríkisins eða Byggingarsjóður ríkisins ætlar að lána til nýbygginga á þessu ári, en samkv. sögn Sigurðar E. Guðmundssonar framkvæmdastjóra munu það vera 164 millj. kr.

Þannig hefur hæstv. ríkisstj., sem nú situr, farið með Húsnæðisstofnunina. Það er full ástæða til þess, herra forseti, að það komi fram við þessa umr.