23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3167 í B-deild Alþingistíðinda. (2771)

226. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Fyrirspyrjandi (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Það kom fram í svari hæstv. ráðh., að Húsnæðisstofnun hefur litið sem ekkert gert til þess að uppfylla ákvæði laga að þessu leyti. Í lögunum stendur: „Húsnæðisstofnun skal hlutast til um.“ Það er ekkert að hlutast til um þó að hún svari einhverri fsp. Hún á auðvitað að skrifa öllum viðkomandi aðilum bréf og segja þeim að mögulegt sé að gera þetta. Það getur enginn þakkað henni fyrir það, þó að hún svari símahringingum og vísi á veðdeild Landsbankans eða eitthvað því um líkt.

Hæstv. ráðh. kom inn á það, að 26 ára lánin væru núna með 4% vexti. Þau eru með 5.1% í 40% verðbólgu, 4% var það í 60% verðbólgu eða þar fyrir ofan. Þau eru með 5.1% vexti í 40% verðbólgu, 26 ára lánin, og lánin vegna leigu- og söluíbúða sveitarfélaga eru með 7% í 40% verðbólgu, svo að það er enn þá verra en kom fram í máli hæstv. ráðh.

Það er auðvitað hárrétt, sem kom fram hjá hv. 6. þm. Suðurl., að það er engan veginn nægileg fyrirgreiðsla þó að þetta sé gert. Það er sömuleiðis rétt hjá hv. 10. þm. Reykv., að fyrirgreiðsla og framlög til Byggingarsjóðs ríkisins og það sem hann getur gert er allt að verða að engu. Sannleikurinn er sá, að það er að verða að engu í höndunum á núv. hæstv. ríkisstj. Það er minna í krónum, sem Byggingarsjóður ríkisins fær núna frá ríkissjóði, en það var árið 1979, en lántökurnar hafa fertugfaldast. Byggingarsjóður ríkisins tekur nú 40 sinnum meira að láni en hann tók 1979, en fær tæplega sömu krónutölu frá ríkissjóði. Öll framlög ríkissjóðs fara bráðlega að borga mismun á vöxtum, út og inn, eins og kom fram hjá hv. 10. þm. Reykv. Þarna er því verulegur munur á.

Eigi að síður þakka ég hæstv. ráðh. fyrir svarið og vonast til þess að þessar fsp. og umr. um þær verði til þess, að húsnæðismálastjórn ríkisins framkvæmi ótvíræða lagaskyldu sína í þessum efnum.