23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3170 í B-deild Alþingistíðinda. (2776)

226. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það er gaman að heyra í vinum bankanna hérna, sérstaklega hv. þm. Halldóri Blöndal, sem blæs sig út, eins og hann gerir yfirleitt þegar hann kemur hér í ræðustólinn, í þetta skipti yfir því, að ríkisstj. fari illa með bankana og geri ósanngjarnar kröfur til vesalings bankanna. Bankakerfið er sá lítilmagni sem Sjálfstfl. telur helst ástæðu til að taka upp hanskann fyrir í þjóðfélaginu nú orðið. Ég ætla að benda hv. þm. á að á síðasta ári gerðist það, að sparifjáraukning í landinu jókst með þeim hætti að nam 3% af þjóðarframleiðslu. Hefur þjóðin aldrei sparað annað eins og undir stjórn hæstv. núv. ríkisstj. Þó margt megi henni til lasts finna er ástæðulaust að halda ekki því til haga sem hún hefur vel gert. Ég veit að hv. 7. landsk. þm. er svo sanngjarn maður að hann viðurkennir þessa staðreynd.