23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3170 í B-deild Alþingistíðinda. (2777)

226. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Svo segir í gamalli vísu að norðan:

Margur blásinn belgur sprakk,

bljúgur laut að Fróni,

í sem glettin ungfrú stakk

ástar títuprjóni.

Það er rétt að hæstv. félmrh. blæs ekki lengur út. Það er búið að stinga á honum svo að hann lognast einhvern veginn út af. En sleppum því.

Það er verið að tala um sparnað í þjóðfélaginu. Kemur þessi sparnaður fram í því að fleira fólk leggur út í að reisa þak yfir höfuðið á sér? Þar var býsna mikill sparnaður hér áður. Eigum við að bera þann sparnað saman við það sem nú er? Auðvitað er það kjarni málsins í þessum deilum, að peningavandamálið í sambandi við húsnæðismálin hlýtur að magnast þegar það er gert helst ómögulegt fyrir einstaklingana að standa sjálfir í húsbyggingu.

Ég man eftir því þegar hæstv. forsrh. var borgarstjóri, hvað honum tókst vel upp í smáíbúðahverfinu. Það væri ráð að hann fræddi hæstv. félmrh., af því að það fer nú vel á með þeim, eitthvað um það, fyrir hverju hann beitti sér þegar hann var á hans aldri. Það getur vel verið að það kæmi þá í ljós, að hæstv. félmrh. byggi yfir einhverjum óvæntum dugnaði og hæfileikum og gæti kannske líka tileinkað sér þetta í fari hæstv. forsrh. Það er síður en svo að hæstv. forsrh. hafi ekki stundum staðið sig vel. Þess vegna héldum við upp á hann, að hann gerði oft margt vel. Ég vil nú mælast til þess við hæstv. forsrh., að hann segi félmrh. pínulítið til í sambandi við húsnæðismálin. Þá mundum við kannske eignast annað smáíbúðahverfi einhvers staðar uppi í Breiðholtinu.