23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3180 í B-deild Alþingistíðinda. (2786)

234. mál, bókasafn Landsbankans og Seðlabankans

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Við eigum mikið af merkum stofnunum í þessu landi. Sumar komast ekki sómasamlega yfir að sinna þeim verkefnum sem þeim eru ætluð, e.t.v. vegna fjárskorts, en aðrar virðast varla komast yfir að koma í lóg þeim fjármunum sem þær hafa undir höndum, e.t.v. vegna þess að það er erfitt að fá lóðir. En það gladdi mig sem menntamálanefndarmann að átta mig á því, að til væri stofnun í landinu sem ynni að menningarmálum og hefði til þess næga fjármuni. Við erum satt best að segja á hreinum hrakhólum með Sinfóníuhljómsveitina, og hv. formaður fjvn. hefur verið ákaflega tregur á að samþykkja það sem bráðustu nauðsyn fyrir þjóðina að veita henni fjármuni.

Mín fsp. er hvort hugsanlegt sé að Seðlabankinn taki nú að sér rekstur hljómsveitarinnar, m.a. til að viðhalda þeim menningararfi sem þar er um að ræða, og hlaupi einnig undir bagga af því að það er takmarkað fjármagn sem veitt er til menningarmála.