23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3181 í B-deild Alþingistíðinda. (2788)

234. mál, bókasafn Landsbankans og Seðlabankans

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. 3. þm. Austurl., formanni bankaráðs Seðlabankans, að það þarf að eiga fjármagn til að bjarga verðmætum frá glötun. Þetta er alveg rétt. En ég lít þannig á að ríkisstarfsmenn, í hvaða stofnun sem þeir vinna, hvort sem það eru bankarnir eða aðrir, geti ekki verið sjálfskipaðir verðmætagæsluaðilar, þeir geti ekki sjálfir ráðstafað eignum og því fjármagni, sem bankarnir eiga, á þann hátt sem þeir ákveða frá einum tíma til annars. Þeir geta ekki ætlað sér slíkt hlutverk. Það er afmarkað hvaða störfum þeir eiga að gegna sem ráðnir bankastjórar. Ég tel að það sé alveg sama hve aðilinn er fjársterkur, hvort það er ríkisstofnun eða forstöðumenn, þeir hljóta að sækja sína heimild til þess að rástafa fjármagni almennings eða sinna stofnana.

Það, sem ég vil undirstrika hér og ég tel að hafi komið fram í þessum umr., er að það þarf að endurskoða lög um Seðlabanka Íslands. Það þarf sannarlega að endurskoða lög um Seðlabanka Íslands. Það þarf að staðsetja hlutverk Seðlabankans í þjóðfélaginu. Ég veit ekki til þess, að nokkuð af því, sem Seðlabankinn vinnur að, hafi nokkurn tíma verið samkv. heimildum. Eru of margir bankastjórar í Seðlabankanum? Þar eru þrír bankastjórar. Hvernig stendur á því, að þeir geta tekið að sér aukastörf hingað og þangað, verið í burtu langtímum saman? Það kostar líka peninga. Eru þeir of margir? Ef þeir eru of margir þarf að fækka þeim og gera það þannig að það sé nóg að gera. Það verður að setja þeim erindisbréf og það þarf að koma inn í alla bankastarfsemina, eins og ríkisfyrirtæki almennt, að þeir sæki sína fjárfestingarheimild til Alþingis ef þurfa þykir, af því að þarna á Seðlabankinn hlut að máli, en alls ekki að hann geti ráðskast með fjármuni bankans til og frá eins og honum hentar, hvað mikið sem við getum fagnað því, að þessum verðmætum er bjargað. Það er allt annað mál. Ég vil taka undir þá hlið málsins.