23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3184 í B-deild Alþingistíðinda. (2793)

360. mál, fjáröflun fyrir Bjargráðasjóð

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Hinn 8. des. s.l. var hér til umræðu fsp. sem ég hafði þá lagt fram vegna harðinda norðanlands. Þar spurðist ég m.a. fyrir um það, hvenær þess yrði að vænta að bændur fengju úrlausn sinna mála vegna uppskerubrestsins sem varð á s.l. hausti. Þá hafði verið skipuð nefnd til að athuga það tjón sem orðið var, og í svari landbrh. kom fram að hann vænti þess, að tillögur þeirrar nefndar yrðu teknar til athugunar í ríkisstj. í lok þeirrar viku eða mjög fljótlega a.m.k., að ríkisstj. mundi taka málið til meðferðar fyrir jólin.

Mér er kunnugt um að bændur væntu þess, að þeir gætu fengið einhverja úrlausn fyrir áramótin, þó að úr því yrði ekki. Síðan hafa þeir mátt þreyja þorrann og góuna og þess sjást engin raunveruleg merki að úrlausn fáist á þeirra vanda. Ég þarf ekki að taka það fram, að það er náttúrlega mjög bagalegt fyrir allan rekstur þegar tekjurnar detta alveg niður, verða að engu og menn verða að fleyta sér áfram á lánum, ég tala ekki um þegar lánakjörin eru orðin jafnerfið og núna. Mér er kunnugt um að hjá þeim bændum, sem mest treystu á kartöflurnar, t.d. við Eyjafjörð, og verst voru staddir áður, eru nú miklir erfiðleikar. Sumir þeirra hafa orðið fyrir verulegum óþægindum vegna þess að þeir hafa ekki getað staðið í skilum eða gert neinar áætlanir um það, hvernig þeir gætu staðið undir rekstrinum á næstu mánuðum. Ég hygg að þeir hafi ekki enn fengið svör um það, hvað þeir geti vænst hárra lána úr Bjargráðasjóði. Ég hef rétt nýverið fengið bréf frá formanni félags kartöflubænda við Eyjafjörð þar sem hann leggur m.a. á það áherslu, að bjargráðasjóðslán yrðu undanskilin tekjufærslu við útreikning á tekjuskattsstofni. Skal ég ekki fara út í það hér, en athuga það mál á öðrum vettvangi.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð miklu fleiri.

Ástæðan fyrir því, að ég legg þessa fsp. fram, er einvörðungu sú, að bændur eru í erfiðri stöðu, þeir vita ekki hvers þeir mega vænta og þau viðskiptafyrirtæki, sem þeir versla mest við, eiga einnig í miklum erfiðleikum vegna þess, hversu fyrirgreiðsla Bjargráðasjóðs hefur dregist á langinn.

Það er satt að segja engin sýnileg ástæða fyrir því, að þessi dráttur hefur þurft að verða. Það er alveg ljóst að hægt hefði verið að kippa þessu í liðinn fyrir löngu ef til þess hefði verið nægilegur vilji. En reynslan sýnir okkur að þessi nægilegi vilji hefur ekki verið fyrir hendi í ríkisstj. allri, hvað sem um hæstv. landbrh. má segja, en ég efast ekki um að hann hafi skilið þetta vandamál betur en ýmsir aðrir í ríkisstj.

Fsp. mín er þessi, með leyfi hæstv. forseta: Hvað lýður fjáröflun fyrir Bjargráðasjóð til að bæta bændum tjón vegna uppskerubrests? Í öðru lagi: Hvenær er þess að vænta, að bændur megi búast við fyrirgreiðslu úr Bjargráðasjóði?